Þá er sjávarútvegsráðherra búinn að ákveða sig. Kjarkmikill sem fyrr þrátt fyrir uppruna sin fyrir vestan ákveður hann að fara að mestu að ráðgjöf færustu vísindamanna. Úthrópaður og bannfærður.
Og ekki að spyrja að því. Blaðið mitt var í morgun sneisafullt af viðtölum við menn sem lýstu hneykslan sinni. Reyndar lítillega misjafnar ástæður en í grunninn þær sömu. það vilja auðvitað allir veiða meira.
Það liggur einfaldlega í hlutarins eðli að útgerðarmenn og sjómenn geta aldrei verið ánægðir með að fá ekki að veiða þegar þeim hentar og eins mikið og þeim helst dettur í hug.
Núna telja menn að skynsamlegt sé að veiða meira vegna þess að efnahagsástandið sé slæmt. Vilja þá líklega draga úr veiðum þegar verðbréf seljast betur. það er í þessu eins og svo mörgu öðru hjá okkur. Skammtímahugsunin ræður ríkjum, og sérhagsmuna.
Sjómenn segja sjóinn fullan af fiski. Eina fólkið sem ekkert veit um það eru vísndamennirnir. Allir aðrir algerlega hlutlausir aðilar vita það. Sjórinn var líka fullur af síld í den. Alveg þangað til sú síðasta var veidd. Þá var viðkvæðið líka það sama. Vísindamennirnir bjánar sem sitja bara og reikna í stað þess að drífa sig á sjó og fara að veiða!
Auðvitað er eðlilegt að sjónarmið þeirra sem vilja veiða og græða og þeirra sem vilja draga úr veiðum skarist. Sér í lagi í því árferði sem nú er. Harðindatímar að renna upp í efnahagslegu tilliti og vísindin segja okkur að fiskinum fari fækkandi.
Eftir stendur spurningin. Hvernig á að ákveða hversu mikið má veiða? Er kannski bara best að láta útgerðina um það, nú eða sjómenn sjálfa? Málflutningur sumra hagsmunaaðila málsins er fyrir neðan allar hellur. Hálfgerð afdalamennska sem mótast af þröngum sérhagsmunum.
Hafró hefur engra hagsmuna að gæta nema vísndalegra. Við eigum ekkert val annað en að taka fullt mark á þeirra ráðgjöf. Við höfum ekkert annað að styðjast við en þeirra gögn.
Gífuryrði sumra í garð Hafró breyta engu þar um.
Röggi.
Staðfesta Einars Kristins til fyrirmyndar!http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/582049/