Í dag lærði ég mannganginn. Fór einu sinni sem oftar í heimsókn til pabba míns sem dvelur á Grensás. þar eru fótalausir og heilbilaðir saman í sátt. Menn eðlilega misglaðir eins og gengur frá einum degi til annars. Ég hætti alveg að finna til í hnénu…
Pabbi er að jafna sig eftir alvarlegt heilablóðfall. Gengur of hægt auðvitað en örugglega. Oft er hann hreinlega eins og hann á að sér að vera og þá gleymir maður veikindunum og afleiðingum þeirra.
Enda er það þannig að á Grensás er fólk bara heima hjá sér. Fólkið þar lifir lífinu eins vel og mikið og unnt er. Ég er hættur að horfa þó fóta eða handalaus heimilsmaður setjist við hliðina á mér og taki mig tali. Eða heilabilaður tali við mig á máli sem ég skil alls ekki.
Allt í einu bendir pabbi á taflborð og heimtar að tefla, eins og við gerðum iðulega áður. Þetta er í fyrsta skipti sem hann sýnir frumkvæði af þessu tagi eftir áfallið. Hann getur ekki lengur talað eðlilega og hann getur ekki telft. það vitum við…
Samt teflum við. Andlitið dettur af mér því karlinn er með sitt á hreinu. Hugsar mikið og einbeitingin er fullkomin. Einhver glampi í augum og hann nýtur sín. Skákin er í jafnvægi.
Svo flækist staðan og þá gerist það. Hann fer að gera mistök, ruglast á litum og telfir mínum mönnum og riddari verður peð. Á endanum tapa ég skákinni þegar hann drepur kónginn minn með sínum þvert yfir borðið.
Gleðin fölskvalaus. Við upplifum báðir fullnaðarsigur. Ég mun aldrei læra mannganginn í skákinni hans til fullnustu. En ég mun reyna af lífs og sálarkröftum. Hver ætlar að segja mér að þessi manngangur sé ekki réttur?
Hans aðferð er eina aðferðin og það í víðasta skilningi. Skákin heldur áfram og við sem teljum okkur gjörþekkja mannganginn verðum að halda áfram að tefla þó reglurnar breytist.
Fólkið sem býr með pabba mínum á Grensás er allt meira og minna að læra mannganginn upp á nýtt. Ég mun ekki skorast undan þegar pabbi skorar á mig næst. Á svo margt eftir ólært á skákinni hans.
Röggi.
Þetta eru fallegar hugleiðingar :)Takk fyrir að deila þeim.kv,BjarnI B