Miðvikudagur 01.10.2008 - 19:53 - 5 ummæli

„Fólkið á fréttastofunni“

Alveg magnað – akkúrat þegar ég hélt að botninum væri náð hjá fréttastofu stöðvar 2 með viðtali Sindra aðstoðarmanns við Jón Ásgeir þá datt ég inn í umræður í Íslandi í dag.

þar voru Agnes Bragadóttir og Sigurður G. Guðjónsson. Og svo drengur sem heitir Sölvi en hann er líklega titlaður stjórnandi þegar hér er komið. Eins og nærri má geta snérist allt um bankatburðina. Hvað annað, Agnes og Sigurður skelegg og kjaftfor eins og venjulega og skoðanasterk.

Þróunin á þessum þætti er enn eitt kennsluefnið í því hvernig hlutleysi og fagmennska er gersamlega svívirt. Blessaður fréttadrengurinn missti sig svo gersamlega í því að reyna að koma höggi á Agnesi að Sigurður þurfti um tíma að hafa talsvert fyrir því að komast að! Hann var með hlutina á hreinu, talaði um hvað „fólkið á götunni“ væri að tala um og hugsa. Hann er væntanlega fulltrúi þess fólks. Ó ekki. Hann var þarna baráttuglaður fulltrúi þess manns sem borgar honum launin. Sýnist hann ruglast all hastarlega á því sem mætti kalla „fólkið á fréttastofunni“ og hinu fólkinu í landinu. Ömurleg frammistaða sem ég held bara að erfitt verði að toppa, og þó…

Sigurður G er skemmtilegur tappi. Kallaði Agnesi málpípu Davíðs og gerði það að öllum líkindum til að gera málflutning hennar léttvægari frekar en af óunnum dónaskap. Gleymdi því þá alveg að hann er líklega bæði hægri og vinstri hönd Jóns Ásgeirs og gott ef ekki tengdur Glitni líka. Ekki að spyrja að því að hæstaréttarlögmaðurinn er málefnalegur. Og hlutleysi hans hafið yfir allan vafa…

Það kemur mér ekki á óvart að fréttastofa Óskars Hrafns skuli á svo undaraskömmum tíma ná botninum. Misheppnað myndmál um Davíð Oddsson í fréttatímanum hefði líklega varla þótt nógu fyndið og ósmekklegt að rata á síður DV en þarna læddist það inn.

Nei, fyrir fólkið á fréttastofunni skiptir engu máli hver borgar því laun. Skorturinn á fagmennskunni er þá einhverju öðru um að kenna…

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Gunnar Valþórsson

    „Gleymdi því þá alveg að hann er líklega bæði hægri og vinstri hönd Jóns Ásgeirs og gott ef ekki tengdur Glitni líka.“uhh.. já gott ef ekki….. Sigurður er í stjórn Glitnis.Skil ekki alveg sneiðina um að hann hafi ekki gætt hlutleysis, af hverju hefði hann átt að gera það? Af því hann er lögfræðingur?

  • Anonymous

    Rétt. Þetta segir allt um þetta lið og þessa fréttastofu. Þetta á ekkert skylt við fréttamennsku og er hreinn áróður í þágu eigenda.

  • Anonymous

    Mér fannst Agnes engum blaðamanni líka og með miklum ólíkindum að hún eigi að fjalla um málið á fjölmiðili sem vill láta taka sig alvarlega.

  • Anonymous

    Helvíti ertu skarpur Röggi varðandi hlutleysið. Það var einn aðili þarna sem átti að sýna hlutleysi og það var Agnes..enda umm..ehh…blaðamaður. Það fór nú heldur lítið fyrir því enda lak af henni sama fyrirlitningin gagnvart nýríkum banka „strákum“ (sem var orð sem hún náði að segja c.a. 10 sinnum á meðan útsendingu stóð) og svörtulofta klíkunni. Agnes er ekki hlutlaus blaðamaður frekar en þú karlinn minn. Varðandi Sigurð G. þá verð ég að benda á það að það var Jón Ásgeir sem bolaði honum úr starfi forstjóra Norðurljósa (nú 365) þannig að hann telst seint hægri og vinstri hönd JÁJ…..

  • Anonymous

    Nú keppast baugsmiðlar við að spyrja hvort athuguð væru þjóðhagsleg áhrif innan seðlabankans af því að Rikið legði inn nýtt hlutafé í Glitni. Það voru 3 möguleikar1. Lána Glitni.2. Gjaldþrot Glitnis (ríkið tekur yfir).3. Auka hlutafé.Ég er ekki menntaður hagfræðingur en þjóðhagsleg áhrif allra kosta eru slæmir.Skyldi vera hægt að reikna út þjóðhagsleg áhrif fréttamennsku Baugsmiðla eða þess að sá ágæti maður Sigurður G. Guðjónsson noti orðið þjóðargjaldþrot í öðru hverju orði í þeim miðlum í gær.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur