Laugardagur 06.12.2008 - 10:59 - 13 ummæli

Davíð yfir strikið.

Nú er komið að því að Davíð verður að hætta í Seðlabankanum. Trúnaðarbrestur milli hans og ríkisstjórnar er orðinn svo mikill og opinber að ekki verður við unað. Það er endapunktur að mínu mati.

Lengi hélt hann sjó. Lét ekki hafa sig út í hanaat í fjölmiðlum. Bankinn stóð fastur á sínu þrátt fyrir stanslausa ágjöf. Virtist trúa þvi alla leið að hann væri á réttri leið og að á endanum kæmi það í ljós.

Faglegur ágreiningur er eðlilegur og líklega hollur. Þegar staðan er orðin þannig að menn skattyrðast í fjömiðlum daglega þá verður að grípa til aðgerða. Þannig stjórnsýsla dugar ekki.

Mér sýnist Davíð hafa tapað þolinmæðinni endanlega núna. Kannski engin furða. Maðurinn hefur í óratíma mátt þola makalausar árásir á sig í fjölmiðlum Íslensku fjármála snillingnna.

Alveg frá því að Ingibjörg Sólrún fór í Borgarnes og sló skjaldborg um Jón Ásgeir og Baug hefur stríðið geisað. Þar fékk Jón pólitískt skjól og frið til athafna. Baugsmálið var gert að pólitík með fulltingi Samfylkingar sem gat ekki neitað sér um þennan fína höggstað á Davíð.

Bak við þennan skjólvegg hefur starfsemin dafnað og við sjáum afraksturinn. Davíð barðist við ofureflið og reyndi að benda á hvurslags lið þetta væri. Hann reyndi að koma í veg fyrir að þetta fólk kæmist yfir fjömiðlana. Við vitum hvernig það fór.

Nú situr hann í Seðlabankanum og enn er honum kennt um. Fjölmiðlar kónganna múlbundnir í kaf taka fullan þátt. Fullnaðarsigur er í sjónmáli. Davíð fer…

Það ætti að kæta þjóðina sem trúir öllu sem því hefur verið sagt um manninn. Ég hitti mjög reglubundið fólk sem hreinlega veit að hann er geðveikur alki. Gengur um öskrandi og ógnandi. Þetta vita allir að er staðreynd er sagt. Hvað er að fólkinu sem vinnur með manninum?

Þetta allt saman hentar ekki bara glæpamönnnum sem er enn þann dag í dag eru að véla um þjóðarauðinn í friði fyrir þjóð sem elskar að hata Davíð. Þetta hentar ekki síður misónýtum stjórnmálamönnum sem setja Seðlabankanum reglurnar ásamt ESB. Þeir eru að mestu stikkfrí.

Þeir ætla að setja saman nefndir sem skrifa hvítar bækur. Skipa væntanlega sjálfir í þá nefnd. Seðlabankinn vill ekki slíka nefndarvinnu. Óháða erlenda rannsókn takk. Líklega verður Davíð ekki til staðar þegar þeirri rannsókn líkur og ekki alveg víst að niðurstöðurnar verði í takt við það sem margir búast við.

Davíð er slagsmálahundur enginn vafi. það er líka kostur en eins og þessi nýjasti slagur lítur út þá getur hann ekki unnið. Seðlabankastjóri getur ekki slegist opinberlega við forsætisráðherra. Hvort söguhetjurnar heita Geir og Davíð eða eitthvað annað skiptir akkúrat engu. Svona gerist þetta bara ekki.

Þess vegna fer Davíð og Jón Ásgeir og félagar taka tappa úr kampavínsflösku á einhverri kyrrahafseyju í boði þjóðarinnar í taumlausum fögnuði. Maðurinn sem barðist hvað harðast við þá loks veginn. Ippon…

Þá getur þjóðin kannski snúið sér að því að reyna að koma lögum yfir gerendurna sjálfa. Brunað með eggjabakkana út á flugvöll eða fundið bílana þeirra og mótmælt í heimreiðinni.

Margir munu fagna og telja brotthvarf Davíðs mikinn sigur. En það er þannig með sigrana að einhver tapar. Þeir sem ekki sjá hver er óvinurinn eru ólíklegir til að vinna stóra sigra.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Það væri óskandi að Davíð og Jón Ásgeir tækju með sér þá „stuðningsmenn sína“ sem ætla að halds þessum sandkassaleik áfram í Karíbahafið og létu okkur hin í friði. Þeir bera hvorugur minni ábyrgð en hinn á ástandinu.

  • Röggi -þú tekur þátt í mikilli sögufölsun. Davíð Oddsson á að víkja vegna þess að bankarnir hrundu á hans vakt, ekki vegna þess að hann er að rífa kjaft. Svo er sjálfsagt mál að fleiri fylgi með.Orðið dáldið pirrandi hvernig aðdáendum DO tekst að draga Baug inní alla umræðu.

  • Davíð er að reyna að láta Geir reka sig, hann þarf að losna úr SÍ án þess að það líti út sem svo að hann sé að vaða út í pólitíkina aftur án ástæðu til þess. Ef að hann verður rekinn þá hefur hann ekkert að gera nema að mæta á landsfund Sjallanna og skora Geir á hólm um formannssætið.Þannig að Geir er að gera allt sem hann getur til að hunsa Davíð. Á meðan er Davíð alltaf að auka pressuna með meiri stælum og látum. Þú sérð að núna er Geir jafnvel til í að íhuga ESB. Hann þarf á ESB sinnum innan sjálfstæðisflokks á að halda ef Davíð verður rekinn.Persónulega vil ég ekki Davíð í pólitík en það myndi hins vegar valda þvílíkum glundroða í Valhöll að kannski væri gaman að horfa á.

  • Anonymous

    “ Faglegur ágreiningur er eðlilegur og líklega hollur. “ Alveg örugglega og hvað með það þótt hann komi heilli þjóð á hausinn.Því þegar upp er staðið þá tóku „ráðamenn“ rangar ákvarðanir. Davíð var einn af þeim en þeir voru margir fleiri sem ekki voru að vinna vinnuna sína.

  • Takk fyrir að spara mér pistil um helgina og takk fyrir að halda áfram að minna á þau atriði sem ekki mega gleymast. Hjartanlega sammála öllu í þessum pistli.

  • Anonymous

    joðAndskotakornið, stjórnvöld væru fullkomlega meðvitundarlaus ef þau hefðu ekki Davíð til að hrista aðeins upp í þeim.Hvort sem okkur líkar betur eða verr er það litla sem er í gangi hjá þeim tengt honum og hans orðum. Hann er búinn að sýna okkur fram á getuleysi þessara flokka til stjórnunar og væntalega búinn að neyða þá til að fara út í kosningar fyrr en seinna.Hann er framkvæmdastjórnmálamaður sem veit að þessi linkind eins og gegn glæpagenginu og rannsókn bankahrunsins er ótæk.Samfylkingin er búin að gera á sig út á við vegna þess að augljóslega er ekki nein samvinna meðal ráðherra þeirra, og hvað þá með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.Davíð neyðir Geir og Ingibjörgu Sólrúnu til að gera eitthvað vitrænt, – og amk að slíta árangurlitlu samstarfinu og ganga til kosninga.Kallinn á að njóta sannmælis og á heiður skilinn fyrir þó að gera eitthvað í málunum, í stað þess að þegja og gera ekkert eins og hin dauðyflin.Vonandi fer hann sjálfviljugur, eða enn betra verður rekinn og getur þá farið á fullt í að gagnrýna það sem augljóslega þarf að gagnrýna í meintum “ BJÖRGUNARSTÖRFUM“ þessara svefngengla sem aðili sem veit hvað er og hefur verið að gerast og ekki að gerast.Því fyrr því betra fyrir alla.

  • Anonymous

    Röggi, þú ert fyndinn!Þú byrjar á því að segja að Davíð eigi að fara í fyrirsögn þinni en dregur síðan úr sjálfum þér tennurnar :)Svo tekst þér að draga ISG og Jón Ásgeir inni í málin líka.Af hverju telur þú bara ekki upp öll glappaskotin hans Davíðs sem bankamanns. Öll mistökin þar sem hann hagar sér eins og pólitíkus en ekki grandvar bankamaður?Af hverju minnist þú ekki á reputation Davíðs erlendis meðal annarra fagmann sem láta sig íslenska pólitík litlu varða en dæma hann fullkomlega vanhæfan sökum vankunnáttu sinnar og viðbragða á ögurstundu faglega?Röggi, af hverju gengur þú ekki alla leið?

  • Anonymous

    Þessi grein er ein magnaðasta bjögun á sannleika sem ég hef lesið lengi. Kannski fyrir utan „I told you so“ lygina hjá Davíð Oddsyni. Það er einnig greinilegt að þú hefur aldrei lesið Borgarnesræðu Ingibjargar. Heldur hefur eftir spunakjaftæði náhirðarinnar sem hefur reynt að ljúga því að fólki að í ræðunni hafi falist einhver stuðningsyfirlýsing við Baug. Það sem meðalskynsamður maður les út úr þessari ræðu er kall eftir skýrum leikreglum á markaði og ákall um að stjórnvöld hætti að flokka menn og fyrirtæki í andstæðinga og vini. Staðreyndin er sú að þetta var gert og þess vegna var valdbeiting stjórnvalda gagnvart „götustrákunum“ svo tortryggileg.Það er ekki skrýtið þó íslenskt efnahagslíf sé í algjöru messi og allt logi í deilum þegar menn ganga um með svona ranghugmyndir. Staðreyndin er sú að Davíð Oddson er algjör skíthæll. Hann hefur alltaf verið það. Hann var góður borgarstjóri í ca 3-4 ár. Þá fór hann að byggja minnismerki um sjálfan sig sem hafa síðan verið baggi á borgarbúum. Hann var frábær forsætisráðherra í svipaðan tíma en svo tók hrokinn völdin og ca 15 árum síðar erum við stödd hér.

  • Anonymous

    Davíð er strikið.

  • Anonymous

    Röggi, segir þetta hér að neðan ekki allt sem segja þarf um getuleysi Davíðs Oddssonar sem Seðlabankastjóra? Og það vítaverða gáleysi sem hann hefur sýnt?Eða var þetta hönnuð atburðarrás hjá Davíð „að taka bankana niður“ líkt og hann hótaði þeim ítrekað?Jón Daníelsson, dósent við London School of Economics.„Seðlabankinn á ekki að vara stjórnvöld við horfum í efnahagsmálum. Hann á sjálfur að bregðast við yfirvofandi hættumerkjum,“ segir Jón Daníelsson, dósent í fjármálafræði við London School of Economics í Bretlandi.Jón hélt erindi um heimskreppuna, Ísland og framtíðina á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í gær ásamt þeim Katrínu Ólafsdóttur og Guðrúnu Johnsen, sem báðar eru lektorar við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Þau Jón og Guðrún hafa bæði unnið fyrir Alþjóðgjaldeyrissjóðinn (AGS).Kv. Friðrik

  • Anonymous

    Davíð er bara að segja hlutina eins og þeir eru. Hann var búinn að segja ríkisstjórninni að bankar stæður höllum fótum. Hann var búinn að kalla Jón Ásgeir og Co. óreiðumenn áður en nokkrum datt í hug að þessir gaurar gerðu annað en að skipta biblíumyndum á sunnudagaskólanum.Geir og Sjálfstæðisflokkurinn eru alveg menn og konur til að taka þessari gagnrýni. Samfylking er það kannski ekki, enda veðjaði sá flokkur á Ólaf Ragnar, Jón Ásgeir og co. Samfylking á eftir að súpa af því seyðið þegar fram í sækir.

  • Tek undir þetta hjá Friðriki.Seðlabankinn á að bregðast við hættumerkjum, nota þau tæki sem tiltæk eru til að skakka leikinn. Það dugar ekki að segja bara eftir á „I told you so“.

  • Anonymous

    NB: Þetta er aðalatriðið varðandi Davíð Oddson og hæfni hans: Jón Daníelsson, dósent við London School of Economics.„Seðlabankinn á ekki að vara stjórnvöld við horfum í efnahagsmálum. Hann á sjálfur að bregðast við yfirvofandi hættumerkjum,“ segir Jón Daníelsson, dósent í fjármálafræði við London School of Economics í Bretlandi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur