Mánudagur 02.02.2009 - 09:45 - 1 ummæli

Upphaf kosingabaráttunnar.

Þá er ný stjórn tekin við. Verkefnaskráin er áhugaverð. Fullt af góðum hlutum sem hægt er að kvitta undir þar en eins og við mátti búast er kannski merkilegast hvað ekki er á dagskrá. Töfralausnirnar til bjargar heimilum og atvinnulífi. Nú heitir það að leitast við þetta og hitt. ESB er ekki til umræðu heldur. Enda kannski bara eðlilegt að vera ekki að láta ágreiningsmál þvælast fyrir. Myndun þessarar ríkisstjórnar er kannski ekki annað en sniðug byrjun á kosningabaráttu.

Mig grunar að bæði VG og Framsókn séu búin að átta sig á að það voru mistök að leysa Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk undan samstarfinu. Ég held að stjórnarandstaðan hafi trúað eigin orðum um að hægt væri að gera svo mikið betur en fyrri stjórn reyndi að gera. Ef eitthvað er að marka verkefnalistann góða er ljóst að Samfylkingin hefur gert mönnum ljóst að svo er ekki. Svigrúmið er og var verulega takmarkað. Fyrri stjórn var líka að leitast við að lækka vexti og bæta kjör.

Við verðum að vona að nú bretti þetta góða fólk upp ermar og láti verkin tala því trúin á Jóhönnu er sterk. Hún hefur þó sagt að tíminn sé naumur. Sæludagar stjórnarandstöðunnar eru á enda.

Rúmir 80 dagar eru líftíminn. Ég held að þeir dagar verði mun færri því flokkarnir þrír munu fyrr en seinna hefja slaginn um atkvæðin. VG mun þurfa að skerpa á ESB andstöðunni því við lestur verkefnalistans má sjá að ekki náðist neitt samkomulag þar. Samfylking mun að sama skapi þurfa að fara hina leiðina. Ekki gleyma því að ESB er svo miklvægt fyrir Samfylkinguna að hún hótaði Sjálfstæðisflokknum bannfæringu ef hann beygði ekki af snarlega og gengi sæluveginn inn í ESB.

Enduskoðun stjórnarskrárinnar er þjóðþrifamál. Stjórnlagaþing gæti verið málið og að fá sérfræðinga til umræðunnar. Þetta hljómar ekki alvitlaust en í því ljósi kemur á óvart að hin nýja stjórn þarf ekki að bíða eftir því þingi.

VG hefur að mestu hætt að úthúða IMF stofnuninni enda taktlaust að slá á einu hjálparhöndina sem í boði er, allavega á meðan setið er í stjórn. Fullkomlega er vonlaust að VG og Samfylking geti unnið saman til langs tíma eftir kosningar. Það held ég að forystumönnum þessara flokka hafi orðið ljóst nú undanfarna daga og því finnst mér líklegt að kosningabaráttan verði undarleg þetta vorið.

Framsókn ætlaði að safna prikum með því að verja stjórnina falli en stóðst ekki mátið og ber núna 100% ábyrgð á rekstri þessarar stjórnar. Vikulegir leyfisfundir þar sem Jóhanna og Steingrímur biðja um leyfi til að gera þetta eða hitt. Þetta er klaufaskapur hjá Framsókn sem hefur haft góð spil á hendi en leggur nú allt undir að óþörfu. Samfylking mun svo launa flokknum greiðan með því að reyna enn einu sinni að ganga milli bols og höfuðs á þeim því atkvæðin hafa verið að skila sér heim til Framsóknar aftur. Atkvæði sem Samfylking fékk þegar hún sótti inn á miðjuna. það var í þá daga að veiðileyfið á Framsókn var að fullu nýtt. Eitthvað verður flóknara núna að hefja veiðarnar. Til að bæta gráu ofan á svart rauk svo nýji formaðurinn til og færði flokkinn til vinstri svo nú verður enn þrengra þar.

Mér sýnist flest benda til þess að nú stefni í langvarandi ófrið og óróa á pólitíska sviðinu. Talað er um sveiflu til vinstri en geta flokkarnir til vinstri sameinast um það sem skiptir máli? Stóru málefni dagsins eru bara sett á hold þangað til búið er að telja upp úr kjörkössum.

Að aflokinni kosningabaráttu sem hófst með myndun þessarar ríkisstjórnar.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Anonymous

    Við skulum sannarlega vona það Röggi minn að þetta sé upphafið af löngu valdaskeiði þessara flokka. Það er alveg komin tími á að hvíla Íhaldið frá stjórn þessa lands. Það er ekki öfundsvert verkefni sem býður þeirra er taka við þar sem að frjálshyggja Sjálfstæðisflokksins er búin að sigla okkur nánast til andskotans. Og það er alveg með ólíkindum að enn sé til fólk sem ver þessa stefnu þeirra ja mikil má flokkshollustan vera. Kveðja Peðersen

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur