Föstudagur 08.05.2009 - 09:52 - 1 ummæli

Blaðrið í Brown í víðu samhengi.

Gordon Brown kemur enn einu sinni af stað titringi hjá okkur Íslendingum með ummælum sínum. Nú segist hann vera að semja við IMF um skuldir okkar vegna Icesafe og allt verður vitlaust og enginn vill kannast við samningaviðræðurnar þegar nánar er spurt.

Þetta fer allt mjög í taugarnar á ESB sinnum því með þessu blaðri sínu minnir Brown okkur á að ESB er með fulltingi IMF að þvinga okkur til að borga skuldir óreiðumanna erlendis eins og það var orðað forðum. Vel getur verið að við eigum og verðum að borga en þá vilja margir gera það á okkar forsendum en ekki undir þvíngandi og níðþungum hælnum á ESB og Bretum.

Í mínum huga eru þessi mál öll í biðstöðu núna. Þau eru ekki rædd. Þjóðin er að reyna að átta sig á því hvernig henni muni reiða af næstu mánaðarmót og má bara ekki vera að því að velta því fyrir sér hvernig Brown og ESB líður þessa stundina.

Mín tilfinning er sú að andstaðan við ESB eigi eftir að aukast næstu mánuði. Við höfum verið upptekin af því að kjósa og flokkarnir sem nú eru við stjórn hugsuðu einna helst um að innheimta útistandandi fylgisaukningu en nú er komið því að standa við stóru orðin og koma með bjargráðin eins og lofað var. Þar verða ESB aðildarviðræður ekki til neins næstu mánaðarmót eða þar næstu.

Ég veit ekki hvert Samfylking stefnir ef ekki tekst að koma af stað viðræðum við ESB um aðild. Ég er í grunninn hrifinn af því að Alþingi ákveði hvert við förum í þessu efni. Þetta á að vera mál löggjafans ekki síður en framkvæmdavaldsins. En við búum ekki við neina skiptingu milli þessara aðila og því eru öll viðmið eðlilegrar stjórnsýslu í þessum efnum ónýt.

Nú vill ósamstíga ríkisstjórn fá umboð fyrir annan flokkinn til að sinna þessu verkefni. Tæknilega er trúlega hægt að troða þessu í gegnum þingið en hvað tekur svo við virðist óljóst. Hver á að ákveða samningsmarkmið? Hvernig verður farið með ágreining í ferlinu og áfanganiðurstöðum? Er hægt að fara í svona stórt mál án breiðarar samstöðu á þingi að ég tali nú ekki um einingu í ríkisstjórn? Kannski er það hægt en varla mjög skynsamlegt.

Samfylkingin berst nú af lífi og sál fyrir ESB enda er það eina mál flokksins. Í því máli er kálið enn langt frá ausunni og það jafnvel þó takist að koma málinu í gegnum þingið. Þjóðin er mjög viðkvæm núna og því eru svona upphlaup eins og hjá Brown ekki þægileg því þau minna okkur á ógreidda reikninga og þrýsting þeirra sem eiga að heita vinir okkar.

Á meðan okkur blæðir út innanlands að stjórnvöldum ásjáandi og aðgerðalitlum er ekki víst að það sé ESB sinnum sérlega hagfellt að við séum minnt á að okkur verða engin grið gefin þegar kemur að samskiptum við stóru apparötin úti í heimi hverju nafni sem þau nefnast.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Anonymous

    Röggi!!!Þetta eru ein bestu skrif þín hingað til, ég er hreinlega ánægður með þig og ekki er ég lítið búin að hamra þig hér eins og þú hefur séð á skrifum og ip#. annars góður og skemmtilegur lestur, þú ert greinilega að lagast með íhaldstalíbanatrúnna.gangi þér vel á annars breiðum vegi ef þú getur haldið þig við kannské smá hægri jafnaðar hugsanagang.Fínt skeyti frá þér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur