Mánudagur 08.06.2009 - 10:18 - 5 ummæli

Icesafe, er tvístígandi….og þó.

Ég er að reyna að átta mig í Icesafe málinu. Spurningin um það hvort við eigum að borga eða ekki er nánast heimspekilegar vangaveltur þvi góð og gild rök virðast hníga til beggja átta. Auðvitað er gersamlega óþolandi að lenda í því að borga skuldir óreiðumanna erlendis….

Það held ég að enginn geri glaður í sinni. Mér sýnast afleiðingar þess að borga ekki verða afleitar og ekki fæ ég betur séð en að við getum varla borgað heldur! Af nokkrum ástæðum. Ég dauðöfunda ekki stjórnvöld af valkostunum í þessu máli.

Mér finnst samt eins og við höfum aldrei tekið til varna í málinu. Vissulega er það ekki fögur framtíðarmynd að einangrast ef við ekki borgum en hún er heldur ekki falleg myndin af okkur ofursett skuldum svo langt sem augað eygir þó við fáum fríspil til 7 ára.

Við erum auðvitað ekki þannig þjóð að okkur finnist par gott að láta svínbeygja okkur en það er nú tilfinningin sem ég fæ þegar samkomulagið er í höfn. Samninganefndin virðist ekki hafa verið að semja um eitt eða neitt heldur aðeins að útfæra tæknilega það sem viðsemjendurnir hafa ákveðið að okkur beri að greiða.

Það er megn óþefur af þessu máli öllu saman og kannski ekki öll kurl til grafar komin því aðrir erlendir kröfuhafar hljóta að bíða andaktugir eftir niðurstöðu í þessu máli því kröfuhafar eru jú alltaf kröfuhafar og þó við setum lög sem mismuna þeim er allsendis óvíst að þau lög haldi alþjóðlega. Þá fyrst væri fjandinn laus…

Kannski hafa allir rétt fyrir sér í þessu máli en það stendur upp á stjórnvöld að sannfæra þjóðina að fullu um nauðsyn þess að skrifa undir. Upp á það vantar stórlega og það þrátt fyrir að nú ríki flokkar sem lofuðu öllu fögru í upplýsingagjöf en hafa helst sérhæft sig í trúnaði og leynd. Um þetta stóra mál má ekki liggja nein leynd. Trúnaður stjórnvalda er við þjóðina en ekki fjandsamlega erlenda viðsemjendur.

Ég veit ekki með vissu í hvorn fótinn best er að stíga en hef á tilfinningunni að stjórnmálamenn hafi gefist upp og finnist ljómandi gott að ýta vandanum 7 ár fram í tímann. Þá er vandinn vandi annarra stjórnmálamanna en þjóðin situr alltaf upp með skuldina sem þessi bévítans óreiðumenn stofnuðu til.

Og ég þoli bara helst ekki að þurfa að láta neyða mig mig til að borga ósómann…..

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Anonymous

    Sammála þér Röggi, það eru akkúrat þessar tilfinningar sem bærast í mínu brjósti. Mér finnst ömurlegt að við skulum þurfa að skafa skítinn upp eftir þessa drengi, en á hinn bóginn var enginn góður kostur í stöðunni. Ef við hefðum ætlað að láta skera úr um ábyrgð okkar fyrir alþjóðlegum dómstólum, hvað hefði þá tekið langan tíma og hvað hefði eyðilagst á móti?Ég er ekki viss um að neinir aðrir stjórnmálamenn en þeir sem eru vil völd hefðu getað stýrt þessu betur. Þó Skallagrímur hafi talað öðruvísi áður en hann komst í stjórn, virðist raunveruleikinn hafa blasað við þegar hann tók við ráðuneytinu. Á hinn bóginn var það síðan Bjarni Ben sem ætlaði að leggja fram tillögu frá Allsherjarnefnd um niðurstöðuna sem þó var sínu verri en hún er í dag. En þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu, sér hann þessu öllu allt til foráttu.Engin leið var góð út úr þessu rugli, en þeir félagar sem settu okkur í þessa klemmu skulu eiga mig á fæti ef ég sé þá!Karl J

  • Anonymous

    Beindu reiði þinni að Sjálfstæðisflokknum. Bankinn var hluti af helmingaskiptum bankanna gagnvart Framsókn.Byrjaðu á að pústa á Kjartan Gunnarsson, stjórnarformann í bankanum og fyrrverandi Framkvæmdastóra Sjálfstæðisflokksins.Ef það losar ekki um spennuna og reiði þína, farðu þá næst á fund Davíðs Oddssonar og láttu hann heyra það líka.Hugleiddu síðan hvernig þú getur í framtíðinni komið í veg fyrir svona slys og kjóstu annan flokk en Sjálfstæðisflokkin.Þá værirðu búinn að gera allt sem þú getur og því ábyrgur einstaklingur.Gangi þér vel

  • Ég er sammála þér að við stöndum án góðra valkosta en að rjúfa samstöðu þings og þjóðar með svona samningi sem kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti er aðför að friðnum í landinu og ég get ekki samþykkt það.

  • Anonymous

    Ert þú ekki örugglega að tala um IcesaVe ?

  • Anonymous

    Það var maður sem var ráðinn í seðlabankann. Núverandi ríkisstjórn var mynduð í kringum það eitt að flæma manninn úr bankanum. Þegar það hafði tekist, þá lagði Hörður Torfason gítarnöglina upp á hillu og hefur ekki sést síðan. Heldur ekki ríkisstjórnin.Þessi seðlabankastjóri fyrrverandi lagði til:a) við myndum ekki borga skuldir óreiðumanna. Þá var hann að meina að við stæðum við að borga úr einhverjum ábyrgðasjóðum eins og reglur segja til um, en myndum ekki láta neinn kúga okkur til að borga meira nema einhverjir dómstólar myndu dæma okkur til þess. Við myndum einfaldlega láta á það reyna fyrir dómstólumb) mynduð yrði þjóðsstjórn. Hvorugt gekk eftir, líklega vegna þess að þeir sem kjósa framsókn, samfylkingu eða vinstri græna geta aldrei samþykkt neitt sem þessi maður segir. Ef hann stæði upp og segði jörðina hnöttótta, þá myndu hinir standa upp og segja í einum kór undir gítarspilli Harðar Torfa að jörðin væri flot og menn yrðu að passa sig að ganga ekki of langt til að detta ekki fram af.Kannski er of seint að gera hvorugt það sem þessi maður lagði til. Hitt er þó víst að í dag er berlega komið í ljós að það sem hann lagði til í frægu sjónvarpsviðtali er að rætast. Því miður sitjum við uppi með tvo „old boys“ spilara í fremstu víglínu í ríkisstjorninni. Slappa og lúna og lítið tilbúna í baráttu. Það er engin hætta á að nokkuð markvert gerist á næstunni nema hvað Ice Save skuldirnar virðast hækka um 3,5 milljónir á hverri mínútu þessa dagana. Að auki borgum við 100 milljónir á dag í vexti næstu 15 árin til að borga niður skuldir kokkteilpinnanna sem stjórnuðu bönkum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur