Miðvikudagur 02.09.2009 - 20:08 - 2 ummæli

Ólafur Ragnar

Þá er blessaður forseti vor búinn að setja stafina undir lögin um Icesave. það var viðbúið og gott og rétt hjá honum enda á forsetinn ekki að taka fram fyrir hendur þingsins, að mínu viti. Sá forseti sem nú situr hefur sýnt okkar það svo að sífellt færri efast um það lengur að ákvæðið um málskotsrétt forseta er óþarft ef ekki hreinlega varasamt þegar verst lætur.

Ég er í prinsippinu á móti því að einn maður hafi þann rétt sem málskotsrétturinn er og það jafnvel þó embættið væri betur skipað en nú er. það er lýðræðislegt að þingið fjalli um mál og komist að meirihlutaniðurstöðu.

Kannski finnst mörgum málskotsrétturinn alger snilld og nauðsynlegur öryggisventill ef svo bagalega vildi til að rúmlega 30 þingmenn yrðu allt í einu óvenju bilaðir og settu yfir okkur slík ólög að ekki yrði undan því vikist að neita að skrifa undir. Ég er bara ósammála samt og tel að embættisfærslur Ólafs Ragnars í málskotsréttarmálum sanni mitt mál.

Mér er í raun nákvæmlega sama hvort það var vegna pólitískrar fötlunar eða af einhverjum öðrum annarlegum hvötum sem hann taldi sig þurfa að neita undirskrift fjölmiðlalaganna á sínum tíma. Þá notaði han rök sem eiga betur við núna auk þess sem það sem nú var til undirskiftar er sennilega eitt stærsta mál sem til undirritunar hefur komið frá upphafi vega.

Af hverju forsetinn skrifar undir núna en ekki þá er óútskýrt og óskiljanlegt með öllu ef hann hefur á annað borð minnsta áhuga á að láta taka sig alvarlega. Ólafur Ragnar tók rétta ákvörðun núna í grundvallaratriðum en það gerði hann alls ekki þegar hann neitaði fjölmiðlalögunum. Og í hvorugt skiptið eru ákvarðanirnar byggðar á sannfærandi rökum.

Hann var ekki kosinn til pólitískrar varðgæslu eða undanlátsemi við kaupahéðna sem létu hann og hans fólk fljóta með í einkafarkostum sínum veðsettum í framtíð barna okkar.
Ólafur Ragnar er að fara langt með að eyðileggja embættið og líklega hefur fylgi við að leggja það niður aldrei verið sterkara. Það verður arfleifð Ólafs Ragnars…

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Anonymous

    ORG eggjaði þá sem fara með stjórnina í þessu landi til að mynda ríkisstjórn. „þetta er einstakt tækifæri til að mynda tveggja flokka vinstristjórn“sagði þessi svokallaði forseti í votta viðurvist. auðvitað vill hann ekki fara að reka fleyg inn í þessa draumastöðu sína. Forsetinn er ekki á góðri leið með að eyðileggja embættið. Hann er fyrir löngu búinn að því. Maðurinn hefur enn ekki náð almennilegri kosningu, jafnvel þó einhver viðundur hafi eingöngu verið í kjöri gegn honum. Þá hefur fólk kosið að sitja heima, eða jafnvel ljá mönnum á borð við Ástþór Magg. atkvæði sitt. Ólafur Ragnar Grímsson hefur ekki haft meirihluta kosningabærra Íslendinga á bakvið sig lengi, ef þá nokkurn tíma. Hann er ekki forseti fólksins. Þetta er flokksdindill sem þrífst á andstöðu sinni við sjálfstæðisflokkinn. Það er líklega það eina sem hefur sameinað þá sem styðja manninn í embætti, andstaða hans við Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn. Líklega er forsetinn ekki búinn að segja sitt síðasta orð, „you ain´t seen nothing yet“ eins og hann myndi kannski segja það á degi íslenskrar tungu. Það var víst eina medalían sem forsetinn deilir út og hefur ekki verið hengt í kjólföt útrásarmannanna, það eru verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Það er þjóðarskömm að ORG skuli enn fá að rækja skyldur sem hefð er fyrir og var borin virðing fyrir. Burtu með þennan mann af bessastöðum og það strax.

  • Anonymous

    Fjölmiðlafrumvarpið snerist um að ákveðnar valdablokkir í þjóðfélaginu voru að misnota ríkisvaldið til að leysa upp eina fyrirtækjasamsteypu sem þeim var ekki að skapi. Það var því hárrétt hjá forseta að beita neitunarvaldi þar. Ég varð reyndar á sínum tíma fyrir vonbrigðum með þessa „gjá milli þings og þjóðar“ skýringu forsetans. Hann átti einfaldlega að segja sem var, að forseti gæti ekki liðið uppgang semí-fasisma í viðskiptalífi eins og Davíð & Co voru að reyna að innleiða hér. Aðstæður eru allt aðrar núna. Núverandi vesen er reyndar að mestu fyrrnefndri valdablokk að kenna, en það er þjóðinni lífsnauðsyn að úr því sé leyst.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur