Miðvikudagur 30.12.2009 - 12:41 - 1 ummæli

Ögurstundirnar

Nú líður að ögurstund í Icesave málinu. Flestir eru líklega hættir að nenna að setja sig inn í það mál lengur og vona bara að það hverfi einn daginn. það gerist því miður ekki og málflutingur þeirra sem klúðruðu því máli verður lengi í minnum hafður.

Allt frá því að félagi Steingrímur sagði þjóðinni að von væri á glæstri niðurstöðu samninga hefur málinu verið klúðrað og klúðrað svo aðeins meira. Málið er erfitt og snúið en við höfum ekki haft stjórnmálamenn með styrk og þor til að horfa framan í viðsemjendur okkar og því er staðan eins og hún er.

Góðir menn á þingi settust niður og náðu að lemja inn í klúðrið fyrirvara sem hver einasti maður virtist skilja að væru algerlega nauðsynlegir. Stjórnmálamaðurinn á Bessastöðum þurfti meira að segja að reyna að eigna sér umbæturnar með blaðri um að undir engum kringumstæðum mætti hvika frá fyrirvörunum.

það verður súrrealískt að fylgjast með Ólafi reyna að þvaðra sig i gegnum undirskriftina. Óafur er ólíkindatól og ég hef hugsað hvort honum gæti dottið í hug að skrifa ekki undir til þess að vera sjálfum sér samkvæmur og marktækur og ekki síður til að reyna að hífa upp löngu horfnar og óverðskuldaðar vinsældir. Ekki miklar líkur ha…..

Vesalings Þráinn Bertelsson ætlar að hafa það sitt eina verk á þingi að henda út fyrirvörunum góðu. Hvernig hann hefur týnt sér sjálfum eftir að hann settist á þing er ótrúlegt. En ekki kannski svo ófyrirséð…

Og það var algerlega ófyrirséð hvernig Steingrímur hefur umpólast. Hann hefur ekki einu sinni styrk til að reyna að verja fyrirvarana sjálfa. Maðurinn hlýtur reyndar að vera orðinn örmagna enda einn með málið í fanginu og samstarfsflokkurinn lamaður og á fullu stími í sínum eigin málum sem ganga reyndar þvert á það sem VG getur sett stafi sína undir.

Helstu rök ríkisstjórnarinnar virðast þau að nú sé verið að þrífa upp eftir aðra og því sé fullkomlega eðlilegt að klúðra málinu duglega! Steingrímur tekur síðan upp á því núna að ryfja upp afstöðu sína til inngöngu í ESB til að friða baklandið í flokknum en nýleg saga segir okkur að slíkar yfirlýsingar af hendi formanns VG halda hvorki vatni né vindi þegar á reynir.

Mér er eiginlega hulin ráðgáta hvað heldur þessari ríkisstjórn saman og það þrátt fyrir að ég taki með í reikninginn þrána eftir ráðherrabílum. Hún er þrotin að kröftum og hugmyndum enda þessir tveir flokkar eins langt frá hvor öðrum í stórum málum og hægt er.

Líf þessarar rikisstjórnar er ein stór ögurstund….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Anonymous

    jú það er eitt. báðir flokkar kenna sig við vinstri. alltaf gott þegar eitt orð getur sameinað menn og flokka. -fannarh

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur