Nú er mótmælt fyrir framan seðlabankann. Fólk sem æpti á leiðréttingu lána fyrir nokkrum vikum sættir sig ekki við leiðréttinguna. Það vill meira. það vill fá peninga að láni án verðtryggingar og vaxta. Og þessi krafa er réttlætt með óréttlætinu sem fólk varð fyrir.
Ég get ekki gert lítið úr óréttlætinu og hörmungunum en spyr hvort ekki sé réttlátt að fólk borgi af þessum lánum sem það tók og í sumum tilfellum taldi sig hafa dottið í lukkupottinn árum saman?
Talað hefur verið um sanngirni háum rómi og mér finnst að hún ætti að vera höfð að leiðarljósi. Verði samningsvextir ofan á er ljóst að fólk mun fá þessi lán að mestu afskrifuð. Var það uppleggið? Hvað með vesalingana sem tóku Íslensk lán og voru ekki með í gamblinu?
Það eru margar hliðar á þessu máli og mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að komast lifandi frá því. það gerist ekki með því að mismuna fólki og setja bankana á hausinn í leiðinni. Bílalán eru smámál í bókum bankanna miðað við fyrirtækjalán og lán til sveitarfélaga.
Finnum sanngjarna lausn sem skilar okkur fram veginn. Hún fellst í leiðréttingu þessara ólöglegu lána og að greiðslur af þeim verði færðar til þess sem er eðlilegt og sanngjarnt fyrir alla aðila.
Gylfi Magnússon stendur keikur í stafni og reynir að mínu mati við íllan leik að segja það sem þarf að segja. Það þarf kjarkmann í það en betur hefði farið ef Gylfi og aðgerðaleysisríkisstjórnin hefðu brugðist við þegar bankarnir voru í eigu og umsjá ríkissins.
Þá vantaði frumkvæði og kjark og nú er kannski of seint í rassinn gripið og kannski rétt mátulegt á Gylfa að vera sakaður um að vera í liðinu með vondu köllunum. það að gera ekki neitt var aldrei valkostur en hann var nú samt valinn.
Og því er mótmælt fyrir framan seðlabankann og reiðin er svo réttlát og sanngjörn.
Röggi
Rita ummæli