Þá er fólk tekið til við mótmæli á ný og samkvæmt venju verður lögreglan fljótt vandamálið. Það skal aldrei vanta að þegar mótmælendur komast upp á kannt við laganna verði eru lögin og verðir þeirra vandinn.
Núna er því mótmælt að dómur hæstaréttar skuli ekki túlkaður á þann hátt að þeir sem tóku gengistryggð lán skuli fá þau lán að mestu felld niður. Fólkið krafist leiðréttingar og sanngirni en þegar hún er í boði dugar það lítt. Á þessu eru margar hliðar og ekki búið að skera úr um ágreiningsefnin öll. Eftir því er erfitt að bíða og þolinmæðin á þrotum og það er eðlilegt en í þessari stöðu finnst mér erfitt að koma á eitthvert eitt réttlæti.
Af hverju mótmælti fólk ekki fullkomnu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar þegar bankarnir voru í ríkiseign? Margir urðu til þess að benda á að dómstólaleiðin myndi flækja stöðuna og fátt leysa. Ef engin breyting verður á munu þeir sem tóku áhættu og græddu sumir í nokkur ár fá lausn sinna mála en aðrir ekki. Er það sanngjarnt? Verður friður um það?
Auðvitað ekki en það er kannski ekki mál þeirra sem ekki tóku verðtryggðu lánin með seðlabankavöxtunum en er samt hluti af vandannum núna sama hvað hver segir. Stjórnvöld áttu og gátu tekið á málinu en gerðu ekki enda upptekin við að banna okkur að stunda ljósabekki og nektardans.
það kann að vera löglegt að skella á fólk verðtryggingu og okurvöxtum og að þau lán snarhækki og það gerir lítið fyrir það fólk að horfa upp á hina sem tóku hagstæð gengistryggð lán á sínum tíma fá sig nánast leysta undan því að borga þau til baka.
Þetta er einn vandinn og hann áttu stjórnvöld að reyna að leysa. Nú situr seðlabankinn í súpunni sem stjórnvöld elduðu með rolugangi sínum og hugleysi. Fyrirséð er að fleiri dómsmál þarf til að leiða þetta mál endanlega til lykta og á meðan er gripið til þess ráðs að setja alla undir sama hatt.
Stóra vandamálið hér eru kannski ekki bílalán eða húnsæðis heldur miklu frekar lán til sveitarfélaga og fyrirtækja. Dæmist þau öll ólögleg og ónýt er vandséð hvernig bankakerfið lifir það af. Þá sitjum við kannski í verri súpu en við höfum séð áður og allir tapa öllu endanlega.
Ég kannski tek það fram hér að ég er með bílalán sjálfur og reiknaði hvorki með því að það hækkaði um 100% né að ég gæti fengið óverðtryggt lán með engum vöxtum…..
Röggi
Rita ummæli