Ég hafði það af að hlusta á viðtal sem gamli gúanórokkarinn Bubbi Morthens lét taka við sig á rás 2 í morgun. Þar lét hann vaða á súðum eins og venjulega en innihaldið var óvenjurýrt og er þó langt til jafnað þegar laxveiðimaðurinn ástsæli á í hlut.
Bubbi er enn að reyna að selja gömlu hugmyndina um að þjófarnir sem stálu bönkunum okkar séu ekki sökudólgar heldur stjórnmálamaður einn að nafni Davíð Oddsson. Hann einn beri ábyrgð. Þessa þvælu reyndu menn að bera á borð fyrstu mánuðina en í dag er leitun að fólki sem nennir að hafa þessa skoðun. Tíminn hefur leitt ýmislegt í ljós en Bubbi nennir ekki að ferðast með okkur hinum fram veginn…
Rokkarinn eyðir mikilli orku í AMX sem hann telur klámvef í eigu LÍÚ en er auðvitað sléttsama um það hver á pressuna þar sem hann klæmist sjálfur allt of oft.
Ég hvet alla til að hlusta á þetta tímamótaviðtal við kónginn sem þarna afhjúpar sig þannig að ekki mun nokkur þörf á því að taka mark á honum framvegis. Samsæriskenningarnar svo mergjaðar að manni flýgur jafnvel í hug að ekki sé allt með felldu hjá Bubba kallinum.
Ég eiginlega vona að honum sé borgað fyrir þessar skoðanir. Mér finnst það skömminni skárra en að hann trúi því sem hann heyrir sig segja.
Röggi
Bubbi bullar margt og tíminn hefur leitt margt í ljós en ekkert sem dregur úr höfundarábyrgð Davíðs á því samfélagi sem lét bankana tífaldast á fjórum árum.
sammála þér
Sammála þér, þetta var eitthvað það mesta argarugl sem ég hef heyrt og er þá langt til jafnað.
Davíð ber ábyrgð á mjög miklu en það er út í hött hjá Bubba að benda bara á hann.
Bubbi Morthens baular háttBaugsmenn eru góðirÞó landsmenn hafi leikið gráttLán þeirra og sjóðirkv Hreinn Sigurðsson
Eins og börnin myndu orða það: „Like á vísuna hans Hreins“
Já hrunið má rekja til framkomu og framgöngu bankanna, en sjálfstæðisflokkurinn með Davíð Oddssyni sem formann mestan part var við stjórn frá einkavæðingu fram að hruni. Davíð Oddson ýmist lagði niður eða dró stórlega úr völdum þeirra sem áttu að hafa eftirlit með bönkunum, hann kom í veg fyrir að alvöru viðskiptamenn tækju yfir bankana og valdi frekar að afhenda þá flokksgæðingum síns flokks og samstarfsflokks í stjórn. Og svo gerði hann illt verra með ummælum sínum sem seðlabankastjóri í byrjun hruns. Svo vissulega er hrunið bönkunum að kenna en bankarnir voru sjálfstæðisflokknum og þ.a.l. Davíð Oddssyni að kenna.