Það eru vissulega tíðindi þegar fólk segir sig úr þingflokkum en úrsögn Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur í morgun kemur þó engum á óvart og í raun ætti Jón Bjarnason að fara líka en hann fæst ekki til að yfirgefa ráðherrabílinn og gefur því prinsippum sínum frí rétt á meðan þó hann sé ekki sammála neinu sem ríkisstjórnin hans gerir.
Upp er komin merkileg staða því lengi vel hélt Samfylkingin að hún ætti útgönguleið úr gildrunni sem VG hefur læsta hana í. Nú þegar meirihlutinn er orðin afar naumur og óstöðugur hlýtur ókyrrð Samfylkingar að ná áður óþekktum hæðum. Útgönguleiðin var að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi og leysti VG af.
En ég fæ ekki betur séð en að Bjarni Ben hafi loks ákveðið að fyrr skuli kosið áður en flokkurinn komi að ríkisstjórn. Ekki er langt síðan Sjálfstæðisflokkurinn mátti ekki heyra minnst á kosningar af ótta við óánægjuframboð hugsanleg. Nú hefur þetta breyst að sjá og er það vel.
Það setur Samfylkinguna í fáránlega stöðu. Þar er foringjavandinn óleystur og lausn ekki í sjónmáli svo langt sem augað eygir og því eru kosningar ekki hagstæðar. Að ég nefni ekki hvernig staða flokksins er í skoðanakönnnum og hvernig vont getur enn versnað ef þjóðin neitar að borga Icasave.
Ég hef spáð því oftar en ég kæri mig um að muna að þessi guðsvolaða ríkisstjórn muni fara frá en hef nú komist að þeirri niðurstöðu að engin lögmál áður kunn í stjórnmálum dugi þegar um hana er fjallað. Það hentar VG alveg ágætlega að sitja sem fastast og hafa samstarfsflokkinn í spennitreyju eins og nú er og geta þá í friði lagt landið í efnahagslegar rústir haldandi á lofti grunngildum VG um að allt skuli skattlagt og bannað og allt skuli vera ríkis.
Ég ætla rétt að vona að Sjálfstæðislokkurinn haldi haus í þessu og gefi ekki minnsta ádrátt um ríkisstjórnarsetu án kosninga.
Röggi
Rita ummæli