Miðvikudagur 04.05.2011 - 08:46 - Rita ummæli

Við Íslendingar fögnum ekki dauða fólks. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson í tilefni þess að Osama Bin Laden var veginn. Diplomatískt svar hjá stjórnmálamanninum og vísast rétt hjá honum. Ég hef verið að skoða hug minn í þessu efni og hef komist að því að ég fagnaði því ekki sérstaklega að þessi maður skyldi vera til og ekki gladdi ævistarf hans mig heldur.

Viðbrögð manna við drápinu á Osama eru mismerkileg. Sölvi Tryggvason fann enn einu sinni fáránlegan útgangspunkt þegar hann vildi bera saman hausafjölda þeirra sem Osama hefði fellt og þeirra sem hefðu fallið í baráttunni við að kveða niður hryðjuverk. Ég hef hreinlega ekki heilsufar í að reyna að skilja þessa nálgun stjörnubloggarans…

Benedikt Erlingsson var í útvarpinu í morgun og eins og við var að búast reyndi hann að halda því fram að kannski hefðum við vesturlönd, og reyndar sérstaklega Bandaríkjamenn, eiginlega knúið þennan mann til verka í einhverskonar sjálfsvörn. Osama hafi í raun verið að senda táknræn skilaboð með því að færa vettfang átaka inn í borgir vesturlanda. Benedikt er bráðskemmtilegur og greindur með afbrigðum en seilist langt hér…

Í fullkomnum heimi eru allir góðir. Engar styrjaldir og engin heimska. Allir á einu máli um einn Guð og vopnaframleiðendur ekki til. Ágreiningur leystur með samræðustjórnmálum og hagsmunir allra manna renna fallega saman í einum góðum alheim.

Benedikt spyr hvaðan reiðin sé runnin. Hvaða reiði ætli hann sé þar að tala um? Reiði Osama eða reiði þeirra sem vildu hann feigann. Ég get skrifað langa sögu um það sem gerist fyrir botni miðjarðarahafs og í Asíu og afskiptasemi vesturlanda af málum þar og reynt að skilja af hverju menn eins og Osama verða til.

Líkast til er ekkert skrýtið að upp úr þeim jarðvegi sem sáð hefur verið til þar spretti skrattar eins og Osama Bin Laden þó vísbendingar séu kannski að koma fram um að fólk þar sé að uppgötva aðra aðferð til að koma sínu fram en með ofbeldi hugar og handa.

Allt fínar og góðar heimspekilegar og pólitískar vangaveltur. Þeir eru líka til sem segja að meira að segja í skítugum styrjöldum verði að vera siðferði og regla og menn sem kunna ekki að feta þann veg eru hundeltir sem stríðsglæpamenn. Verri glæpur fyrirfinnst víst ekki en stríðsglæpur.

Sumir segjast ekki sjá meginmun á Osama og þeim andskotum sem hann barðist gegn. Kannski er eitthvað að mér en fyrir mér er munurinn þar allur. Ég hef ekki skýra mynd af því í höfðinu hvaða hagsmuni ég tel verðskulda blóðuga baráttu enda bý ég í vernduðu umhverfi þar sem allt ætlar af göflum að ganga ef stórhættuleg rándýr eru felld nærri mannabyggð.

það er svo auðvelt að setja fram þær skoðanir að ekki megi drepa svona fólk og gott að þetta gerist allt lengst í burtu. Mannskepnan er ferleg stundum og sumir eru ferlegri en aðrir og Osama Bin Laden var djöfullega ferlegur.

Kannski ég taki bara hentugu leiðin á þetta eins og Sölvi og Benedikt og hafi snyrtilega og „þægilega“ skoðun á dauða Osama. Hvernig hann bar að og hvað var gert við líkið. Við þrír vitum að heimurinn er betri staður án hans og grefilli gott að „vondu“ kallarnir taka skellinn fyrir drápið.

Þá getum við tekið þá óábyrgðu afstöðu að eltingarleikurinn við þennan fjöldamorðingja hafi snúist um það að klappa honum á kinnina og biðja hann um að drepa ekki fleiri saklausa borgara….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur