Mánudagur 30.05.2011 - 09:01 - 1 ummæli

Og Jóhanna talar…

Það er auðvitað í mikið ráðist að ætla sér að reyna að lesa í orð og hegðun Samfylkingarinnar þessi misserin. Flokkurinn er kengfastur í gildru sem hann gékk glaðbeittur í þegar samstarfið við VG var innsiglað. Smátt og smátt hefur það svo runnið upp fyrir Samfylkingunni að með VG er ekki hægt að starfa af öllum ástæðum mögulegum.

Lengi lét Samfylkingin eins og ekkert væri enda var sigurinn fólginn í því einu að komast að kjötkötlunum og taka þetta með vinstri. Þann „sigur“ þarf nú að endurskilgreina þrátt fyrir að forystumenn flokksins tali stórt hvar sem þeir komast í tæri við sviðsljós. Öllum er ljóst að Samfylkingin engist af pólitískum kvölum í samstarfinu.

Jóhanna Sigurðardóttir heldur áfram kaldastríðstali sem allir eru löngu hættir að stunda eða taka nokkurt mark á. Hún er umborin af því að annað er ekki í stöðunni en orð hennar vega sífellt minna. Hún slær um sig með skammaryrðum eins og frjálshyggju en hún hefur þó margsýnt að hún veit ekkert hvað frjálshyggja snýst um. Eina frjálshyggjan sem hún skilur til fullnustu er sú ríkisfrjálshyggja sem nú dynur á okkur þar sem ráðherrar eiga allt og alla til ráðstöfunar eftir hentugleika.

Samfylkingin hefur eitt mál á sinni stefnuskrá en er að öðru leiti ekki með stórar áhyggjur. Aðild að ESB knýr flokkinn og allt gott um það að segja ef skiptimyntin væri ekki að leyfa VG að slátra hagkerfi okkar á meðan.

Nýjustu æfingar flokksins eru að tala um stofnun flokks utan um ESB aðildina. Í og með pólitísk reykbomba en líka neyðaróp flokks sem þarf svo mikið að losna frá VG. Samfylkingunni er svo mikið í mun að sverja sig frá þeirri ríkisstjórn sem hún situr í að allt er leyfilegt.

Leiðtogar flokksins slá um sig með orðum eins og frjálshyggjusukk og forréttindahópar eða hálaunfólk og telja sig fara fremst í baráttunni gegn slíkri óárann. Þessi ríkisstjórn vill gera okkur öll að láglaunafólki og stjórrnmálamenn að forréttindahópum með bitlinga að smekk. Og svo er fabúlerað um að vandinn sé ekki þeim að kenna eins og það lini þjáningar þeirra sem eru að verða fyrir barðinu á „lausnunum“.

Vissulega verðum við að læra af fortíðinni en við getum ekki sífellt skotið okkur á bak við hana þegar okkur tekst ekki að leysa verkefni í nútíð og framtíð. Og pólitískar morfísæfingar eins og þær sem Jóhanna stundar í hvert mál eru í besta falli barnalegar.

Það mun enginn skera Samfylkinguna úr snörunni sem hún hefur um hálsinn í samstarfinu við VG. Næstu kosningar munu og eiga að snúast um efnahagsmál og þar verða engar þægilegar útgönguleiðir fyrir Samfylkinguna.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Anonymous

    Eins og Samfylking hafi bara alls ekki verið til áður en bankarnir fóru á hausinn. Í litla söguhorninu stendur nefninlega að Samfylking hafi verið í ríkisstjórn á árunum 2007-2009, einmitt á þeim sem Jóhanna er að gagnrýna hvað mest. Þáttur Jóhönnu er ekki lítill. Hún var ráðherra í þessari ríkisstjórn. Hún varð öskuill þegar t.d. niðurstaðan í Baugsmálinu var fengin. Hún þakkaði ekki þeim sem fengu niðurstöðuna, heldur vildi hún láta rannsaka hvernig það gat gerst að Baugsmenn hafi verið dæmdir. Í dag eru þessir sömu menn orðnir óvinir NO 1 á lista kellu. Hvað breyttist? Hentistefnan á sér engin endimörk.Í litla söguhorninu stendur líka að yfirmaður bankanna hafi verið Björgvin nokkur G. Sigurðsson. Sá hinn sami og var kosinn endurtekið inn á þing eftir að ríkisstjorn Samfó sprakk, hann sagði af sér, en tímabundið að sjálsögðu. Nú talar hann eins og ekkert hafi ískorist.Össur Skarphéðinsson talar klofinni tungu, það fer bara eftir því hvort hann sé að verja bróður sinn vegna brottreksturs hjá baugi, sjálfan sig fyrir að selja stofnbréf sin sem hann aldrei borgaði fyrir á gráa markaðinum me ðgríðarlegum hagnaði, þrátt fyrir að vera vitleysingur í fjármálum eins og hann sjálfur sagði í yfirheyrslum. Þáttur Össurar í bankahruninu þarf að rannsaka. Jóhanna ætlar greinilega að stinga því undir stól.Ingibjörg Sólrún, flokkssystir Jóhönnu var að þengjast um heiminn þveran og endilangan í einkaþotum að fullvissa menn um að allt væri í góðu lagi á íslandi, og það gerði hún sem utanríkisráðherra samfylkingar.Litla Söguhornið man líka þegar framsalið var endanlega tryggt í sessi innan fiskveiðistjórnunarkerfis. Það var gert á vakt vinstristjórnarinnar í kringum 1987. Gott ef Jóhanna sat ekki líka í þeirri stjórn. af hverju vill hún núna að framsalið eigi bara að eiga sér stað inni í ráðuneytum og bæjarskrifstofum, en ekki hjá þeim sem eru að nota fiskveiðistjórnunarkerfið? Það var nú skautað létt framhjá þessu á fundinum á laugardaginn.Af hverju nefnir Johanna aldrei eigin verk og flokkssystkyna sinna? Af hverju er kíkirinn alltaf settur fyrir blinda augað?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur