Miðvikudagur 17.08.2011 - 20:49 - 2 ummæli

Er Illugi traustsins verður?

Illugi Jökulsson sem sat í stjórnlagaráði ræðir í dag áhugaverðan punkt þegar hann bloggar um það hvort eðlilegt sé að þingmenn sem ekki njóta mælanlegs trausts séu að véla um tillögur ráðsins sem Illugi sat í.

Nú má vissulega velta því fyrir sér hvort vægi þings eigi almennt að minnka í hlutfalli við niðurstöður skoðanakannana og hvort ekki eigi hreinlega að aftengja löggjafarsamkomuna ef capacent mælir ekki traust yfir ákveðinni prósentutölu.

Við getum tekið þetta lengra og íhugað það hvort hæstirétt eigi ekki að svipta rétti til að dæma í málum mælist traust til hans minnkandi. Hvort fjölmiðill sem selst lítið eigi að fá að hafa skoðun. Þessi listi er endalaus….

Sumir myndu jafnvel velta því fyrir sér hvort stjórnlagaráðið sem Illugi sat í naut nægjanlegs trausts yfirleitt. Illugi fékk reyndar sæti í þessu ráði þegar meirihluti þingsins sem hann bendir nú á að nýtur ekki trausts sniðgékk lög og rétt með eftirminnilegum hætti.

Löggjafar og dómsvald er ekki til skraust eða notkunar eftir smekk eða pólitískum hentugleika þó núverandi ríkisstjórn hafi reyndar stundað þann leik.

Við búum við ákveðið stjórnarfar og til þess að það virki er best að halda sig við prinsippin svo ekki sé hætta á að ríkjandi valdhafar (framkvæmdavald) hverju sinni geti leikið sér með fjöreggið sem lýðræðið er allt eftir hentugleika.

Ætli Illugi hefði sérstakar áhyggjur af trausti þings ef hann hefði fulla sannfæringu fyrir því að þingið gerði eins og honum finnst rétt að gera?

Ó nei….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Illugi reyndi að koma eftirfarandi athugasemd við grein mína hingað en mistökst og mér er bæði ljúft og skylt setja hana hér inn;Heill og sæll. Þú misskilur mig svolítið, held ég. Ég er ekki að óska einhverju svindli eða barbabrellum framhjá núverandi lögum um hvernig stjórnarskrá skuli breytt.Alveg burtséð frá því hvernig stjórnlagaráð er til komið, þá hefur það nú gert það sem það var beðið um, samið frumvarp að stjórnarskrá.Vafalítið er plaggið ekki fullkomið, en þar er þó að finna margt gott og gagnlegt sem sjálfsagt er að fjalla um.Spurningin er bara, hver á að gera það, og þó einkum, í hvaða röð.Við vitum fullvel að Alþingi þarf að fjalla um málið. En við biðjum einungis um að áður en þingið (sem vissulega nýtur mjög lítils trausts) fari að krukka í smáatriði þess, þá fái þjóðin að segja álit sitt.Því þó það megi kannski hæðast að okkur fyrir bernskt hugarfar á okkar kaldhæðnu töffaratímum, þá litum við í fullri einlægni svo á að við værum að semja þetta fyrir þjóðina – ekki þingið.Við í stjórnlagaráði erum ekki heilagt fólk. En við erum heldur ekki vont fólk að reyna að svína einhverjum sora framhjá prúðum þingmönnum vorum.Við óskum einungis eftir því að þjóðin fái að segja álit sitt á undan þinginu. Vissulega bara ráðgefandi álit, við vitum það, en álit samt.Og það álit sem okkur finnst mikilvægast.Illugi Jökulsson

  • Sæll Illugi,Það var ekki ætlun mín að misskilja þig hafi ég gert það. Öfugt við það sem þú gætir haldið þá deildi ég ekki skoðun margra Sjálfstæðismanna sem lögðust gegn hugmyndinni um stjórnlagaþing. Mér fannst hugmyndin góð og rétt mátulegt á stjórmálastéttina sem hefur þumbast af veikum mætti við það að gera lagfæringar á stjórnaskrá nánast frá upphafi vega að fara þessa leið.Hvernig þing varð ráð fór aftur á móti í taugar mínar enda mjög upptekinn af því að þrískipting valds haldi og þar brást það. Það sannfærðist ég um á unglingsaldri þegar ég heyrði Vilmund tala fyrir bandalagi jafnaðarmanna að þar lægi okkar helsti vandi og fátt hefur breytt þeirri sýn minni. Ég bregst gjarnan við þegar mér sýnist menn ætla að fara styttri leiðina framhjá leikreglum þrískiptingar og það var nú þess vegna sem ég skrifaði þennan pistil. Við erum stundum hætt að taka eftir því þegar við sjálf viljum ganga á svig við þrískiptinguna og hvað þá þegar valdhafar „gleyma“ að þrískipting valds er ekki aukagrein í stjórnarskránni.Annars tek ég í þessum pistli hvorki afstöðu til fólksins sem sat í ráðinu né tillagnana.Röggi

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur