Mánudagur 22.08.2011 - 10:36 - 4 ummæli

Magnús Orri og markmiðin

Magnús Ori Schram skrifar pistil á eyjuna í dag af því tilefni að formaður Sjálfstæðisflokksins veldur honum vonbrigðum með afstöðu sinni til viðræðnanna við ESB. Allt gott um þau vonbrigði að segja og ég skil þau svo mætavel og mikilvægt fyrir Samfylkinguna að reyna að finna einhversstaðar einhverja viðspyrnu í linnulausum mótbyrnum sem flokkurinn gengur í gegnum.

Það sem vekur furðu við lestur pistilsins er upptalning Magnúsar á þeim atriðum sem hann telur að Samfylking eigi að standa að þjóðinni til heilla. Þar kennir margra grasa og eitt og annað skynsamlegt sem þingmaðurinn telur fram;

„Mikilvægt er að ríkisstjórnin undir forsæti Samfylkingar leggi nú megináherslu á verðmætasköpun og markvissa atvinnusókn. Um leið og gætt er að þeim sem verst standa í samfélaginu á að stefna að nauðsynlegu aðhaldi í ríkisútgjöldum, hófsemi í skattlagningu, ábyrgri sókn í orkumálum í anda verndaráætlunar, réttlátri skiptingu arðs af auðlindum og endurskoðun landbúnaðarkerfisins svo auka megi nýsköpun og arðsemi til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. “

Svo mörg voru þau orð og þingmaðurinn hefur verið undrafljótur að læra að setja saman bragðmikinn texta sem hæfir atvinnustjórnmálamanni sem vill leiða umræðuna frá því sem hann er að gera til þess sem hann ætti að vera að gera en gerir þó alls ekki.

Auðvitað geta allmargir tekið undir þessi orð þingmannsins, nema þeir sem styðja þá ríkisstjórn sem Magnús Orri Schram styður. Það fólk hefur ekki leyfi til að halda þessum skoðunum uppi á meðan unnið er gegn þessum ágætu markmiðum af jafn mikilli einbeitingu og einurð og ríkisstjórn VG og Samfylkingar gerir.

Samfylkingin getur ekki látið eins og hún sé ekki í þessari ríkisstjórn. Hvorki Magnús Orri né neinn annar þingmaður í meirihlutanum getur skrifað á sig fjarvistarsönnun þegar kemur að því að gera upp þetta hörmungarkjörtímabil í næstu kosningum.

Enda er það rétt hjá þingmanninum að þetta gerist allt undir forsæti Samfylkingarinnar og við skulum öll muna það. Samfylkingin er akkúrat sá flokkur sem hann er í dag og ekki nokkurt mark takandi á mönnum sem reyna að halda öðru fram.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Anonymous

    Samfylkingin er eins máls hentustefnuflokkur uppfullur af vinstrisinnuðum menntasnobburum.Svo segir Magnús Orri; „Það er með hreinum ólíkindum að formaðurinn vilji taka af þjóðinni möguleikann til upplýstrar ákvörðunar um aðild að ESB,“Það var nefnilega það.Það er bara engin upplýst stefna í þessu ESB brölti. Það er ekkert uppi á borðum og þjóðin fær ekki að vita neitt hvað er í gangi í þessum viðræðum.Meiri hluti þjóðarinnar vill ekki fara í hið sökkvandi skip sem ESB er.Þetta skilur ekki Magnús Orri frekar en aðrir blindir ESB-sinnar.Og svo segir hann:“Afstaða formannsins er líka mikil vonbrigði fyrir heimilin sem hafa vænst lægri vaxta, afnáms verðtryggingar og lægra matarverðs með aðild að ESB.“Við þurfum ekki að gangi í ESB til að fá lægri vexti, afnema verðtryggingu og njóta lægra matarverðs. Við getum gert þetta sjálf ef við viljum.Meira bullið í þessum Samfylkingar-rindli.

  • Anonymous

    Þetta voru orð í tíma töluð vel mælt Röggi. Afhverju segir þá bara Samfó ekki Vg upp og boða til kosninga?

  • Anonymous

    Einmitt.Grein Magnúsar Orra er ágæt.En hann er að tala um einhverja aðra ríkisstjórn.Hvers vegna getur Samfylkingin aldrei tekið á sig nokkra ábyrgð.Núverandi ríkisstjórn er ríkisstjórn öfga og afturhalds.Á henni bera ábyrgð kjósendur Samfylkingarinnar og þingmenn flokksins.Tal um frjálslyndi og víðsýni er algjörlega út í bláinn.

  • Anonymous

    Það er athyglisvert að á meðan Samfylkingin berst fyrir frjálsum viðskiptum þá leggst formaður Sjálfstæðisflokksins gegn frjálsum viðskiputm. Samfylkingin stendur vörð um opið lýðræðislegt samfélag í nánu samstarfi við aðrar þjóðir. Munu þjóðernis-íhaldsflokkarnir gera það?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur