Þriðjudagur 23.08.2011 - 10:39 - Rita ummæli

Úrsögnin

Ég hef varla skilið hvað rekur Guðmund Steingrímsson í pólitík. Kannski hefur honum fundist hann þurfa að feta þann veg verandi sonur pabba síns. Guðmundur sem er skemmtilegur og áheyrilegur oft hefur ýtt undir þessar pælingar með flakki á milli flokka hægri vinstri.

Í gær skrifaði hann svo nýjan kafla þegar hann ákvað að vera ekki Framsóknarmaður lengur. Það er vissulega engin höfuðsynd en trúverðugleiki Guðmundar þolir bara svo illa fleiri stórtíðindi af þessum toga.

Við lifum skrýtna tíma í póitísku tilliti. Stjórnmálaflokkarnir sjálfir eiga fullt í fangi með að finna sér stöðu í heimi þar sem fátt er eins og það var. Stór grundvallarmál standa óútkljáð og skoðanir liggja þvers og kruss á milli flokka sem eru að reyna að koma sér upp afstöðu sem hentar öllum innanborðs með erfiðismunum oft. Í því ljósi er kannski ekki undarlegt að einhverjir falli fyrir borð og finni sig ekki….

Guðmundur er með skoðanir og sannfæringu fyrir þeim sem hann lætur ráða eins og síðast þegar hann færði sig til, og þar áður einnig. Mér finnst eins og ég hafi heyrt eitthvað svipað áður. Flokkarnir yfirgáfu Guðmund og hann er því á berangri með skoðanir sínar sem hann segir eiga hljómgrunn allsstaðar.

Guðmundur vonast til þess að geta leitt saman fólk úr öllum áttum sem hafa sömu sýn á pólitíkina og hann. Guðmundur virkar allt að því rómantískur þegar hann talar um væntanlegan flokk utan um þessar skoðanir. Og þessi flokkur verður öðruvísi en fjórflokkurinn auðvitað. Það hafa þeir allir verið…

Ekki vitlaus hugmynd kannski en spurning hvort ímynd Guðmundar sem hins ístöðulausa stjórnmálamanns mun draga að fólk og fylgi.

Þetta er þá kannski enn ein atlagan að fjórflokknum sem hingað til hefur staðið slíkt af sér.

Af hverju ætli það sé?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur