Föstudagur 02.09.2011 - 11:38 - 2 ummæli

Límið

Við vitum að það er stundum erfitt að vera í ríkisstjórn og líklega aldrei eins ferlega og að sitja í þeirri sem nú ræður. Óhemjuvandi fyrir höndum og hver höndin upp á móti annarri. Að vísu ríkir þar afar merkilegt ógnarjafnvægi.

Annar flokkurinn fær að reyna allt hvað af tekur að koma okkur inn í ESB á meðan hinn er því algerlega mótafallinn. Hinn flokkurinn fær svo sjálfdæmi í efnahagsmálum á meðan og er smátt og smátt að breyta okkur í lítið sovét þar sem allt er bannað og þjóðin er ekki marktæk.

Ástandið á stjórnarheimilinu er orðið þannig að óþol Samfylkingar til VG er ekki lengur top secret heldur blasir við öllum sem vilja sjá og hinum líka.

Nú þegar fylgið fer að hrynja af VG naglfestir það flokkana endanlega saman á hræðslunni við dóm kjósenda. Þeir geta ekki unnið saman um nokkurn skapaðan hlut en geta af hápólitískum ástæðum ekki hætt. Þetta liðónýta „samstarf“ heldur því líklega áfram þangað til leikreglurnar neyða flokkana til að mæta kjósendum sínum á kjördegi sem kemur alltof seint.

Við þessar fáránlegu aðstæður reyna svo flokkarnir að finna einhverja leið til þess að geta tekið sér frí frá því að úthúða hvor öðrum. Þá er oft sniðugt að benda á aðra og finna kröftum sínum loks sameiginlegan farveg

Og trixið í dag er að ráðast á stjórnarandstöðuna sem hefur það helst til saka unnið að vera á móti boðum, bönnum og skattaofbeldi ríkisstjórnar og lagðist svo af óskammfælni gegn Icesave sigri Steingríms Sigfússonar ofan á allt.

Úrræðaleysi og innanhússharmleikir ríkisstjórnar sem stefnir af festu og einurð gegn framförum og vexti atvinnulífs skrifast ekki á stjórnarandstöðuna.

Blindir menn eins og Björn Valur telja það afrek í sjálfu sér að ekki hefur tekist að knésetja allt hér og ég tek undir það með honum og öðrum að því ber að fagna og það sýnir okkur að sem betur fer þarf meira en eina afleita ríkisstjórn til að steypa öllu í glötun.

Í þröngri stöðu með tapað tafl er ekki úr vegi að reyna að grugga vatni og benda á stjórnarandstöðuna þegar bornar eru á ríkisstjórnina staðreyndirnar. Það kann að virka vel til heimabrúks en gerir ekkert gagn til lengri tíma.

VG veit að það er bara þessi eini séns næstu ótalin ár því ekki dettur nokkrum í hug að vinna með þeim á ný. Og Samfylking horfir fram að vera allt í einu ekki viss um að vera í næstu ríkisstjórn.

Þetta er límið gott fólk. Þetta heldur flokkunum saman og ekkert annað. Flokkarnir eru ekki sammála í neinum aðalatriðum og eru hættir að reyna að fela það. Nema um að vera ríkisstjórn sem ekki kann að vera til og getur ekki hætt.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Og hvað er svona rosalega bannað? Ekki nokkur skapaður hlutur sem var leyfilegur fyrir Hrun. Ríkið hefur hinsvegar kannski verið til í að ausa fjármunum sem það á ekki hægri og vinstri að óathuguðu máli til aðila sem segjast vilja fjárfest hérna. Og er það vel.Með þvi að hamra á þessu bulli um að Vinstri Grænir hafi „staðið í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu“ nógu oft eruð þið hægribullur kannski farnir að trúa því sjálfir? Atvinnuuppbygging hefur verið hæg af þvi að Sjálfstæðisflokkurinn gerði landið GJALDÞROTA. Tekur tíma að vinna sig út úr því eins og þeir sem það hafa reynt vita. Og aðrir ekki endilega áfjáðir í að eiga viðskpti við mann, nema á hrak kjörum.

  • Átti náttúrulega við „Ríkið hefur hinsvegar kannski EKKI verið til í að ausa fjármunum sem það á ekki hægri og vinstri að óathuguðu máli“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur