Mánudagur 05.09.2011 - 09:39 - Rita ummæli

Forsetinn hennar Álfheiðar Ingadóttur

Ég sé það í snöggri yfirferð minni að hver einasti skrifandi vinstri maður hefur látið það eftir sér að fjargviðrast út í forsetann sinn vegna ummæla hans um Icesave málið. Krampakennd viðbrögð og órökrétt sé litið til sögunnar.

Nú er það bara þannig alveg sama hvað Álfheiði Ingadóttur og félögum hennar kann að finnast að orð forsetans um Icesave deiluna eru dágóð greining á því sem gerðist. Reyndar er rétt að halda því skilmerkilega til haga að fulltrúar andstöðuhóps forsetans hafa ekki reynt að andæfa innihaldi þess sem forsetinn er að ræða og er þar um vissa framför að ræða….

Ég hef hreint enga samúð með Álfheiði Ingadóttur og hennar klíku sem réði sér ekki fyrir kæti þegar forsetinn gerðist stjórnmálamaðurinn á Bessastöðum. Það var þegar hann gékk erinda vinstri manna á alþingi til að koma í veg fyrir innleiðingu fjölmiðlalaganna hafi einhver gleymt því.

Það verk átti ekki lítinn þátt í því að eigendur bankanna sem voru fyrir undarlega tilviljun einnig eigendur fjölmiðlanna gátu stýrt almenningsálitinu á meðan þeir unnu sitt verk. Og það gerðu þeir og fulltrúar forsetans á þingi horfðu á með velþóknun og héldu að málið snérist um Davíð Oddsson.

Þessari atburðarás var miðstýrt frá Bessastöðum þar sem forsetinn hennar Álfheiðar sat makindalega og þótti vera að vinna þjóðþrifaverk okkur til heilla. Sagan hefur kennt þeim sem eitthvað geta séð að þar hefði betra verið heima setið en af stað farið.

Og sagan er enn að kenna þeim sem eitthvað geta lært. Sagan hefur nefnilega kennt okkur að ef ekki hefði komið til stjórnarandstaða á þingi og svo forsetinn hennnar Álfheiðar værum við pikkföst í skuldasúpunni sem Jóhanna og Steingrímur voru að sjóða með Gordon Brown og Hollenskum stjórnvöldum. Um þetta deilir enginn sem vill vera láta taka sig alvarlega…

Nú er full ástæða til þess að ræða hlutverk forseta Íslands til framtíðar og ekki síst hvernig við viljum sjá málskotsréttinum beitt. Þar verður hlutur Álfheiðar Ingadóttur enginn enda hefur hún sýnt það að hún getur ekki haft prinsippafstöðu til málsins.

Forsetinn hennar Álfheiðar er nefnilega bara forsetinn hennar þegar hann er að gera það sem Álheiður telur rétt og gott óháð grundvallarreglum. Slíkur er hennar styrkur…

Og svo mér sýnist að við Álfheiður verðum seint sammála um það hvenær hann er að gera gott mót og hvenær ekki.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur