Ég hef eins og margir samúð með lögreglumönnum í þeirra kjarabaráttu. Óhemjuerfitt starf og mikilvægt að vel takist til og að þeir sem líklegastir eru til þess að standa sig fáist til starfans. Einn mikilvægur þáttur í því eru kjörin.
Lögreglumenn hafa mikinn meðbyr núna og slagkraftur í baráttunni. Ekki ósvipað og var með leikskólakennara. Þetta finna þeir auðvitað og hyggjast hamra járnið meðan það er heitt. Hver myndi ekki gera það?
Hundruðum saman fara þeir einkennisklæddir í göngu og þeir ætla ekki að standa heiðursverði. Stórir hópar segja sig frá sérsveitum. Kvefpestir gætu stungið sér niður…..Reiðin er réttlát og þjóðin horfir á og kinkar kolli í velþóknun og skilningi.
Ég held að rétta taktíkin núna væri að draga úrsagnir til baka og mæta hnarreystir sem aldrei fyrr og standa sinn heiðursvörð. Svona hlutir geta nefnilega snúist upp í andhverfu sína á augabragði eins og skáldið sagði.
Þeir sem geta og mega semja um betri kjör til handa lögreglumönnum finna auðvitað að ekki er um annað að velja. Eindrægni og samstaða hópsins er afgerandi og stuðningur þjóðarinnar einnig.
Nú væri rétt að standa með þjóðinni og starfinu þegar allt bendir til þess að vel muni fara og standa heiðursvörð og tryggja öryggi allra við setningu þingsins.
Það drægi ekki úr slagkrafti baráttunnar, öðru nær….
Röggi
Held að það sé ekki almennra lögreglumanna að ákveða hvort þeir standa heiðursvörð eða ekki. Ég held að það hafi komið fram að yfirstjórn lögreglunnar telji mannskapinn betur nýttan í öðrum verkefnum.
Í lögreglustjóratíð Sigurjóns hefðu löggurnar aldrei gengið í stíllausri þvögu, hver með sínum takti og göngulagi. Og trúlega hafa einhverjir gengið með hendur í vösum.Ömurlegt að sjá menn í þessari stöðu sýna slíkt agaleysi og virðingarleysi við einkennisbúninginn.
Það var ákvörðun lögreglustjóra, löngu áður en kjarabaráttan kom til að fella niður heiðursvörðinn. Það var gert af fjárhagsástæðum.