Mánudagur 19.12.2011 - 22:21 - 4 ummæli

Rýnt í bókina um Icesave afleikinn

Af einhverjum ástæðum hefur bók Sigurðar Más Jónssonar um Icesave ekki verið mikið til umræðu. Kannski vegna þess að við skömmumst okkar öll pínulítið. Þeir sem voru við völd árin fyrir hrun og Icesave og svo líka hinir sem tóku við og reyndu að leysa málið.

Bókin er frábærlega skrifuð og auðlesin og allt að því skemmtileg þó tilefni hennar sé hreint ekkert skemmtiefni. En eitt er þó víst að þessa bók les hver með sínum gleraugum og þeir sem eru í litla hópnum sem telur Steingrím og Svavar hafa haldið vel á málum munu væntanlega láta sér fátt um finnast í besta falli.

Bókin er ekki skáldsaga. Höfundur vísar í heimildir og samtöl, staðreyndir en dregur vissulega alyktanir sem allar eru á eina lund. En þær ályktanir eru rökstuddar skotheldri fagmennsku.

Með tilvitnunum leiðir höfundur okkur fyrir sjónir ítrekaðan brotavilja stjórnvalda gagnvart þjóð sinni þar sem Steingrímur og Jóhanna verða margsaga þvers og kruss um málið. Þar þarf ekki að týna til neinn skáldskap eða færa í stílinn. Sannleikurinn er þarna fyrir okkur öll að sjá.

Ég upplifði Svavar Gestsson eiginlega sem fórnarlamb við lestur bókarinnar. Þar fór algerlega vanhæfur samningamaður alveg eftir skipunarbréfi. Honum var ekki falið að semja um neitt annað en vexti og lufsaðist til þess. Ríkisstjórnin ætlaðist aldrei til neinnar varðstöðu um lagaleg atrði máls heldur vildi bara borga. Svavari var því allt að því vorkun og virðist enn þann dag í dag ekki skilja málið.

Bókin lýsir því vel hvernig pólitíkin fór með þetta mál. Þar sem gamlir samherjar urðu óvinir og öfugt. Hvernig ríkisstjórnin reyndi að afvegaleiða umræðuna og láta málið snúast um íslenska skítapólitík.

Hvernig ráðherrar gerðu lítið úr vilja þjóðar og ætluðu hvorki að spyrja kóng né prest. Á sama hátt er hérna sögð saga þjóðar sem hafði einbeitta ráðherra og meðreiðarsveina þeirra á þingi undir öllum til heilla þrátt fyrir stanslausar bölbænir og heimsendaspár.

Flestir eru líklega orðnir leiðir á sögunni og telja kannski óþarfa að ryfja þennan leiðindakafla upp. Jón Baldvin telur að bókin hefði átt að heita ofleikur aldarinnar en ekki afleikur því málið hafi ekki snúist um neitt.

Til að halda þeirri söguskýringu á lofti þarf að gleyma því að vegna baráttu fólks utan ríkisstjórnar er afar sennilegt að við sleppum með talsvert minni skrekk en ef Steingrímur, Indriði og Svavar hefðu keyrt kúrsinn alla leið óáreittir.

Þessi bók er nauðsynleg heimild. Hún er heimild um getu og viljaleysi fjölmiðla sem eru hálfgerð flokksblöð í felubúningi sem spyrja ekki þó bæði spurning og svar æpi á það.

Hver sem skoðun okkar er á atburðarás hlutanna og hvar sem við staðsetjum okkur í pólitík. Og hvernig sem við sjáum söguna fyrir og eftir Icesave þá er þessi bók heilsusamleg lesning og mjög læsileg.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Anonymous

    Ég hélt þegar ég sá fyrirsögnina að þú værir að skrifa um afleik Advice og Indefence hópana, en þeir aðilar sem þessa hópa mynda hafa mikið á samvisku sinni og ættu að skammast sín til að vera ekki að trufla skynsamt fólk við vinnu sína.

  • Anonymous

    nýjasti afleikurinn er óraunsæu sjálfspíningarhálfvitanna sem vildu ekki samþykkja seinasta icesave. EES dómstóllinn kremur okkur fyrir það, það er fyrirsjáanlegt.

  • Þvílíkir kjánar sem hér hafa svarað. Annað hvort börn eða trúgjarnir kjánar. Takk fyrir góða og skilmerkilega grein um bókina, ég er ákveðin í að kaupa hana.

  • Anonymous

    Var ekki verið að borga Bretum og Hollendingum um daginn þrátt fyrir að búið vær að fella í þjóðaratkvæðagreiðlu að við borguðum ekki krónu hvernig stendur á því?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur