Miðvikudagur 11.01.2012 - 08:48 - 5 ummæli

Róbert Spanó og landsdómsumræðan

Hver er þessi Róbert Spanó? Er það enn einn skælandi Sjálfstæðismaðurinn sem þolir ekki að Geir Haarde sæti ákæru fyrir landsdómi? Hvað er hann að vilja með skrifum sínum um landsdóm?

Róbert Spanó er ekki bara einhver venjulegur spaði. Hann er forseti lagadeildar HÍ og maður sem treyst hefur verið fyrir afar erfiðum úrlausnarefnum. Þar á meðal það verk að reyna að leysa úr og lesa í málefni kirkjunnar manna. Það gerir hann með eftirtektarverðum og faglega metnaðarfullum hætti og óumdeildum.

Kannski erum við orðin leið á umræðum um landsdóm og finnst þetta mál ekki skipta miklu lengur. Pólitíkin hefur í raun afskrifað Geir Haarde og léttvægir stjórnmálamenn nota hans persónu að vild í leit sinni að vinsældum sem skulu byggjast á andúð okkar allra á hruninu.

Fjölmiðlar sinna þessum skrifum Róberts í engu liggur mér við að segja. Reyndar sagði eyjan frá því að Róbert hafi með þessum skrifum gengið í berhögg við skoðanir helstu sérfræðinga sögunnar um málið, sérfæðinga sem eru fyrir löngu horfnir af sviðinu. Og þar við situr. Rökræðum lokið…

Af hverju hefur pólitíkin og umræðan ekki þrek til að ræða þessi mál? Skiptir það okkur í raun engu máli að ráðandi fylkingar á þingi geti stofnað til pólitískra réttarhalda eftir smekk? Og hefur það ekkert gildi þegar einn okkar helsti sérfæðingur í lögum kemst að þeirri niðurstöðu að alþingi geti enn bætt fyrir mistökin? Niðurstöðu sem virðist mjög vel ígrunduð og rökstudd.

Meirihlutinn á þingi hefur sagt að það komi vart til greina að grípa fram í fyrir löggjafanum með afskiptum af málinu héðan af. Ég ber mikla virðingu fyrir þrískiptingu valds og þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.

En þegar maður á borð við Róbert Spanó kemst að þeirri niðurstöðu að alþingi sé stefnandi í málinu og hafi til þess fullan rétt að draga ákæruna til baka er þeim rökum sem stjórnarliðar hafa beitt fyrir sig hingað til ýtt út af borðinu.

Þetta setur málið allt í nýja stöðu og tillaga Bjarna Ben fær nýtt líf og nýjan status. Og þá þurfum við þrek til að ræða málið. En til þess þarf að leggja til hliðar einhver lágkúrulegustu prinispp sögunnar sem réðu því að Geir var ákærður og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Ég er á móti pólitískum réttarhöldum og mun alltaf verða það hvort sem Geir Haarde situr ákærður eða ef einhverjum dytti nú í hug að ákæra einhvern núverandi ráðherra sem væri full ástæða til beiti menn sömu mælistiku og notuð var gegn Geir.

Það er prinsippsmál fyrir mér. Landsdómur er fyrir þá sem ákærðu Geir Haarde bara tæki sem nýttist vel til að lumbra á andstæðingi í pólitískum slag. Ég legg til að við tökum þetta vopn af stjórnmálamönnum sem hafa sýnt að þeir kunna ekki með slík réttindi að fara.

Og fyrsta skrefið og það besta væri að afturkalla ákæruna. Grein Róberts Spanó er afar gagnleg fyrir umræðuna og kærkomið tækifæri….

Röggi

Flokkar: http://www.blogger.com/img/blank.gif

«
»

Ummæli (5)

  • Anonymous

    Fyndnustu „rökin“ eru samt þau sem ganga út á að ekki megi láta af pólitískum ofsóknum/réttarhöldum, því það væri pólitískur gjörningur. Alveg stórkostlegt.

  • Anonymous

    Þú þagðir þegar 9menningarnir voru kærðir. Ég ætla að grjóthalda kjafti núna.Ég vona að Haarde fái harðan dóm!

  • Af hverju hefur þú ekkert nafn núna þegar þú ætlar að vona að Geir fái harðan dóm?Og það er rangt að ég hafi þagað þegar 9 menningarnir voru ákærðir. Telji saksóknari að menn hafi gerst brotlegir við hegningarlög er honum í lófa lagið að ákæra fyrir það og það gildir um 9 menningana eins og aðra er það ekki?Slíku er ekki til að dreifa í máli Geirs. Um það er ekki deilt.Röggi

  • Anonymous

    Kona á Selfossi sem eytt hefur 1,5 milljón í brjóstapúðavandamál segist á Stöð 2 muni gera það aftur og aftur þrátt fyrir heilsuleysi af völdum leka: „Maður lítur þá svo miklu betur út“. Sama segja kjósendur FLokksins sem þolað haafa hrun af hans völdum.Púðarnir verða væntanlega bannaðir – en FLokkurinn?

  • Anonymous

    Fyrst hinir sakborningarnir sluppu er bara best að sleppa höfuðpaurnum líka.Fyrst pólitíkusarnir sleppa ættum við einnig láta bankamennina sleppa.Corruptissima re publica plurimae legesAlli

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur