Fimmtudagur 12.01.2012 - 10:19 - Rita ummæli

Már í mál

Ekki er nú öll vitleysan eins. Már Guðmundsson klæðskerasaumaður seðlabankastjóri Jóhönnu forsætisráðherra hefur stefnt vinnuveitanda sínum og krefst þess að samningar um kjör og kaup standi.

Og þó það nú væri segi ég og velti því fyrir mér af hverju Már hefur beðið með að fara fram á þetta þar til nú. Ráðning hans á sínum tíma var magnað skuespil og í raun engin munur á ráðningu hans og annarra pólitískra ráðninga stjórnenda þessa banka.

Már varð svo á endanum fórnarlamb lýðskrums Jóhönnu þegar hún ákvað að enginn skyldi fá betri laun en hún sjálf. Laun forsætisráðherra eru reyndar til skammar eins og allir vita. Már sem var með fína og vel launaða vinnu erlendis var fenginn heim til að halda utan um peningamálastefnu bankans sem hann sjálfur kom á og hefur verið fylgt allar götur síðan með æði misjöfnum árangri leyfi ég mér að segja.

Þá var farið í sjónhverfingar í því augnamiði að reyna að láta laun Más hverfa sjónum launasveltra Íslendinga og skattpíndra. Og nú er svo komið að Már nennir ekki lengur að taka þátt í þessum leik og vill að samningar standi.

Hugmyndin um að engin megi vera með hærri laun en Jóhanna var og er andvana fædd. Byggð á misskilningi í besta falli og gert til þess að afla tímabundinna vinsælda í kröppum sjó.

Hvurslags vinnuveitandi er það sem svíkur samninga við forstjóra sinn sem sér þann kost bestan og vænstan að fara dómstólaleiðina? Og hvernig getur Már Guðmundsson haldið áfram að gegna starfi sínu eftir þetta? Á hvorn veg sem málið fer…..

Ég hvet menn til þess að gera upp við Má og kveðja hann svo. Þeim peningum yrði ekki betur varið í annað.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur