Þriðjudagur 17.01.2012 - 14:50 - 1 ummæli

Enn um landsdóm af gefnu tilefni

þeir eru margir angarnir af landsdómsmálinu. Tillaga Bjarna Ben um að draga ákæru á hendur Geir Haarde til baka er allt í einu ekki lengur tillaga um að draga ákæruna til baka heldur spurning um það hvort ríkisstjórn heldur velli. Það bjagar málið og gerir umfjöllun um tillöguna stórfurðulega.

Hæfustu menn í lögum hafa tekið af tvímæli um að alþingi er að fullu heimilt og eðlilegt ef vill að draga ákæruna til baka. Allur fyrri málflutningur þeirra sem hvorki hafa persónulegt né pólitískt hugrekki til þess er þar með ómarktækur og gagnslaus í umræðunni og því er þarf að finna henni annan farveg.

Stefán Stefánsson prófessor skrifar grein í Moggann í morgun þar sem hann reifar skoðanir sínar rökstutt um að ekki hafi verið eðlilega staðið að atkvæðagreiðslunni í grundvallaratriðum. Þar tekur Stefán auðvitað ekki inn í reikninginn pólitíkina sem öllu réði í málinu en það eru einu grundvallaratriðin sem þeir sem greiddu ákærunni atkvæði höfðu aðgang að.

Ögmundur Jónasson skrifar einnig merkilega grein í sama blað þar sem hann skýrir þá ákvörðun sína að styðja tillögun um að falla frá ákæru. Í þessari grein rekur hann hversu fáránlegt var að verða vitni að því hvernig sumir flokkar og einstaka þingmenn greiddu atkvæði eftir flokkslínum en þvert á öll prinsipp í málinu.

Umræður um tillögu Bjarna munu að líkindum ekki snúast um nein önnur prinsipp en þau hvort ríkisstjórn mun þola þá niðurstöðu sem málið ætti að fá. Sem er auðvitað að draga ákæruna til baka.

Viðbrögðin við grein Ögmundar benda eindregið til þess að stjórnarliðar hafi ekki þrek til þess að ræða það mál efnislega heldur skal barið á Ögmundi og ekki tekin málefnaleg afstaða til þess sem hann hefur fram að færa máli sínu til stuðning.

Álit færustu manna utan þings vegur einnig létt þegar kemur að þeirri íþrótt sem heitir Íslensk afdalapólitík. Þá gilda hvorki viðurkennd viðmið lögfræðileg né önnur heldur eingöngu innanflokksstaða hverju sinni.

Þetta dapurlega mál sem er áhugavert út frá öllum öðrum sjónarhornum en pólitískum rétttrúnaði og klækjum stundarhagsmunanna ætlar aftur og aftur að afhjúpa þá sem ekki kunna eða geta séð annað en sína eigin pólitíska stöðu til skemmri tíma.

Þessi saga er ekki öll sögð og því miður óttast ég að ef meirihluti þings þumbast við munum við sjá endurtekin pólitísk réttarhöld í þessu landi. Þau hafa flestrar þjóðir aflagt fyrir nokkru en vinstri menn á Íslandi halda að málið snúist um Geir Haarde og annað ekki.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Anonymous

    Þumbast á Geir,Baldri og nú á að fara að þumbast á Kjartani þetta gengur ekki lengur komum stjórninni í burtu sem fyrst.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur