Föstudagur 20.01.2012 - 10:53 - Rita ummæli

Björn Valur og landsdómsklækirnir

Hún birtist manni stundum undarlega lýðræðisástin. Núna vilja sumir þingmenn visa frá tillögu um að fella niður ákæru á hendur Geir Haarde fyrir landsdómi. Hvað er fallegt við þá hugmynd?

Björn Valur Gíslason hefur ekki fundið tilfinningum sínum betri farveg frá því að hann barðist með kjafti og klóm fyrir Iscsave samningi Steingríms og Svavars bæði innan flokks og utan en þann að halda til streitu ákæru á hendur Geir Haarde.

Björn Valur var svo auðvitað í þeim hópi sértrúar sem missti trú á þjóðaratkvæðagreiðslum þegar þær hentuðu ekki og hafði svo engan dug til að bera virðingu fyrir eins afgerandi niðurstöðu og mögulegt var að hugsa sér að atkvæðagreiðslunni lokinni. Hver man ekki eftir þeim Birni Val?

Og hvernig hafa þingmenn Samfylkingar pólitíska og tilfinningalega getu til að halda til streitu ákæru á Geir eftir að hafa sleppt sínum eigin flokksmönnum við ákæru á flokkspólitískum forsendum einum? Ákæru sem nefndin lagði til að fjórir fengju en ekki bara einn. Hvernig fólk er slíkt fólk?

Ég veit að í pólitík er enginn annars bróðir í leik en í þessu máli hafa menn eins og Björn Valur og fleiri reyndar þó fáir standist Birni Val snúning traðkað á persónu eins manns og sumir jafnvel leyft sér að halda því á lofti að það væri gott fyrir Geir að taka bara slaginn frekar en að lifa án hans. Lágt geta menn lagst þegar málefnin þorna upp.

Menn verða háfleygir og telja þetta mál snúast um uppgjörið stóra. Það standi og falli með ákæru á hendur einum manni. Þeir sem vilji fella hana niður séu á móti uppgjöri og vilji halda í gamla tíma.

Einn þeirra sem svona tala er Björn Valur. Hann tilheyrir ríkisstjórn hinna nýju tíma. Ríkisstjórn upplýstrar umræðu og ákvarðanatöku. Björn Valur situr til borðs með ráðherrum úr ríkisstjórn Geirs Haarde alla daga og makkar um pólitík sem allir vita að snýst eingöngu um að halda völdum og annað ekki.

það er þó eitthvað rökrétt vit í hugmyndum Hreyfingarinnar sem vill ákæra alla ráðherrana eins og nefndin sem rannsakaði. Björn Valur er örugglega sömu skoðunar og Hreyfingin í þessu máli en það bara hentar honum ekki pólitískt að vera það. Hann þarf nefnilega að halda völdum….

….og gerir það sem þarf til þess og ýmist tekur í gagnið handhæg prinsipp eða hendir eftir þörfum. Og spilar á fullkomlega eðlilegar tilfinningar þjóðar sem fór flatt í hruninu.

Þeir sem halda að Björn Valur sé glæstur fulltrúi nýrra tíma í pólitík og hafa ekki séð að hann er einmitt skilgetið afkvæmi gamla tímans eiga eftir að verða fyrir vonbrigðum. Stutt saga hans á þingi er löðrandi í klækjum og hagnýtum skoðunum sem allar miða að því einu að halda völdum.

Og nú er landsdómsmálið sem er mjög áhugavert prinsippmál orðið enn eitt málið sem snýst ekkert um aðalatriði og rökræður heldur lýtur eingöngu lögmálinu um það hvort ríkisstjórn Björns Vals Gíslasonar þolir að ákæra verði felld niður.

Allur fagurgali um háleyt markmið og uppgjör eru gagnslausar umbúðir utan um akkúart það og ekkert annað.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur