Laugardagur 21.01.2012 - 11:37 - 3 ummæli

Sigur þings og kögunarhóll Þorsteins

Það hefur verið magnað að fylgjast með því hvernig fólk sem telur sig fylgjendur upplýstrar umræðu og réttlætis og umbóta á umræðuhefðinni tjá sig í kringum landsdómsmálið. Langfæstir þeirra sem vilja halda áfram með málið í þeim farvegi sem það er núna hafa ekki gert neina tilraun til að rökræða það sem um er að ræða.

Á sama tíma og fólk masar um virðingu fyrir alþingi vill það í raun halda áfram að nota þessa mikilvægu stofnun sem tæki í pólitískum hanaslag þar sem allt snýst um lumbra á andstæðingum. Öllu er snúið á haus og Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir og Björn Valur Gíslason sem tala statt og stöðugt um virðingu alþingis skilja ekki og hafa ekki þrek til að rökræða það að virðingu alþingis var einmitt bjargað í gær, en ekki öfugt.

Lögfræðin í málinu kemst ekki að fyrir pólitísku hagsmunamálunum og allt í einu man enginn að alþingi er ekki afgreiðslustofnun fyrir lýðskrumara í pólitík heldur löggjafarsamkoma. Margir þeirra sem harðast hafa barist gegn því að ágætlega rökstuddar og framsettar efasemdir um málið séu ræddar af ákærandanum í málinu, alþingi, á þeim forsendum að málið sé komið of langt hefur sjálft hamast í því að fá áratuga gömul mál tekin upp fyrir almennum dómstólum og ekki sparað þar stóryrðin.

Framkvæmdavaldið hefur með augljósum hætti ruglað þingið og baráttaufólkið fyrir auknu lýðræði og þrískiptingu valdsins gleymir öllu slíku þegar afdalastjórnmálin þurfa framgang. Fólkið sem móðgast út í Lilju Mósesdóttur skilur ekkert hvað hún er að segja og telur hana hafa svikið lit vegna þess að hún gleymdi rétttrúnaði sem snýst um að þola ekki hægri menn. Lilja var með afstöðu sinni að verja þingið, lýðræðið og umræðuna algerlega án þess að breyta um afstöðu til ákærunnar. Af hverju vill fólk ekki skilja svo augljósan hlut?

Hvernig það getur verið ósigur að fjalla um efnisatriði þeirra efasemda sem um málið standa er mér hulin ráðgáta. Og það er í raun ótrúlegt að sjá fólk sem hefur gargað á torgum um vandaða umræðu og bætt þing berjast af krafti gegn góðum grundvallarhagsmunum sínum í þessu máli.

Grein Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu um þetta mál er svo vel orðuð og vönduð greining á málinu að ekki verður betur gert. Gaman væri ef fólk utan þings og innan hefði þor og dug til rökræða efnislega um málið og láta ekki pólitíkina binda sig á klafa gamallar umræðuhefðar sem snýst eingöngu um að hafa andstæðinga undir.

Fylgismenn þess að vísa tillögunni frá eru í raun fylgismenn gamla tímans þar sem afdankað framkvæmdavald ræður því hvað er rætt á alþingi og hvað ekki. Ólýðræðislega þenkjandi fólk því miður.

Og mér sýnist margir hávaðasömustu fulltrúar byltingarinnar með búsáhöldunum hafa gengið í lið með gamla tímanum fyrir tóman misskilning og í raun látið draga sig á asnaeyrunum af fólki sem skilur ekkert um hvað málið snýst.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Hvaða lögfræði ertu að tala um? Það er akkúrat lögfræðin sem skautað er framhjá þegar alþingi tekur málið til sín á þessu stigi. Að benda á Spanó og Stefán Má sem einhverja lögspekinga hér nú eða Þorstein Pálsson er algjörlega galið. Spanó og Stefán Már fengu peninga fyrir að gera greinargerðir í hrunavörnum og Þorsteinn Pálsson er auðvitað innan úr kjarnanum.

  • Sæll Grímur,Hvaða lögfræði er skautað hjá? Hefur þú getað haft upp á einhverjum sem heldur því fram að alþingi sé ekki stefnandi í málinu.Hitt er að sönnu rétt hjá þér að lagaprófessorar hafa alltaf fengið greitt fyrir greinargerðir sínar hægri vinstri og kannski ekki að marka neinn þeirra af þeim sökum. Ég hef reyndar ekki nennt að afgreiða Þorvald Gylfason með vísan í það hver greiddi honum laun lengi fyrir skrif og finnst mun meira varið í að rífast um það sem hann hefur fram að færa.Enn sem komið er hefur enginn haft fyrir því að efast um það sem þeir segja og þegar Atli Gíslason sem ekki fær greitt frá neinum tekur undir lögfræði þeirra þá finnst mér það styrkja málið.Kannski ekkert að marka hann heldur. Sé þó alls ekki hvar annarlegir hagsmunir hans í málinu liggja.

  • Anonymous

    Sæll Röggi,Gaman að lesa pistil þinn:-)Ég verð að að fá að taka þátt í þessum skemmtilegu umræðum. Að mínu mati er það eina sem segja þarf, er það ef einhver tekur að sér ákæruvald er sá hin sami með það vald þangað til að dómur gengur í garð. Og bara til að bæta við þá hefur SPANÓ frekar verið hliðhollur samfylkingunni ……..ef hann á þá að vera tengdur við einhvern?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur