Miðvikudagur 07.03.2012 - 16:47 - Rita ummæli

Kannski er of snemmt að draga ályktanir af því sem þegar hefur komið fram fyrir landsdómi en það fer fyrir mér eins og mörgum öðrum að ég stenst ekki mátið. Þessi mál sér hver með sínum augum að vonum og ég vona að mér líðist það.

Mér finnst þeir sem hafa dæmt Geir sekan fyrirfram eiga verulega undir högg að sækja. Vissulega eru menn að henda fram orðum sem hljóma vel í fyrstu en fátt hefur enn komið fram sem styður við ákærur gegn Geir.

Öðru nær. Þeir sem hafa talað hafa meira og minna staðfest söguna eins og hún hefur blasað við að mínu mati.

Fyrst eftir hrunið var fundið að því að stjórnvöld hafi ekki upplýst þjóðina um stöðuna í upphafi árs 2008. Þær ásakanir voru strax út í hött og í dag skilja held ég allir að slíkt var auðvitað ekki möguleiki.

Ofurtrú sumra á stjórnmálamönnum lýsir sér svo í því að halda því fram að Geir Haarde hefði með einhverjum aðgerðum getað minnkað bankana. Hvernig það átti að gera er óljóst og einnig fullkomlega óvíst að þótt það hefði verið reynt hefði það staðist löggjöf og stjórnarskrá.

Það er alveg augljóst að ekki er sanngjarnt að leggja þær ákærur á einn mann að hann hefði bæði átt að vita að allt væri að fara fjandans til í bankakerfi heimsins þvert á mat þeirra sem hafa það verkefni að meta stöðu banka og svo að hann hefði átt að koma í veg fyrir hrun.

Þegar liðið hefur að þessum pólitísku réttarhöldum hafa menn enda slakað á í þessu og nú heitir það að hann hafi ekki gert nóg þó vitað sé að hann hefði ekki getað bjargað öllu. Gott og vel. Mér sýnist þeir sem talað hafa verið á einu máli um að hann hafi ekki haft nein spil á hendi.

Egill Helgason vitnar í Guðmund Ólafsson sem les það út úr því sem þegar hefur komið fram að svörin hafi í megin atriðum verið tvenns konar. Ég vissi ekki og gat ekki.

Ég er sammála þessu mati Guðmundar og tel að þetta sé stutta útgáfan af sögunni. Þegar stjórnmálamönnum varð ljóst hvernig í pottinn var búið varð ekki við neitt ráðið. Ég veit reyndar að þeir kumpánar eru ekki að meina þetta þannig en stundum ratast kjöftugum satt orð í munn.

Það er verkefni ákæruvaldsins að sýna fram á að ákæran standist. Eins og málin eru að þróast gengur það lítið ef nokkuð. Ég nánast finn til með þeim sem þurfa að reyna að reka þetta mál sem er pólitískt frá rótum.

Það er þó auðvitað ekki þannig að allt hafi verið fullkomið og aldrei hafi verið hægt að gera öðruvísi í ljósi sögunnar. Það er raunveruleiki sem ekki bara stjórnmálamenn búa við heldur gerum við það hvert og eitt i okkar lífi.

Ég er þess fullviss sem fyrr að það mun koma fram að þau mistök sem gerð voru voru heiðarleg mistök fólks sem sat skyndilega uppi með svarta pétur. Sem akkúrat enginn sá fyrr en of seint.

Nema ef vera kynni Arnór Sighvatsson sem situr sem fastast í bankanum eins og fyrr. En við erum ekki að reyna að eltast við embættismenn. Í þessu máli er einfaldlega verið að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur