Mánudagur 12.03.2012 - 20:53 - Rita ummæli

Það er afar áhugavert að fylgjst með viðbrögðum við landsdómi. Þessi hápólitísku réttarhöld eru að valda þeim miklum vonbrigðum sem héldu að Geir Haarde yrði þar leiddur til slátrunar. Ekkert slíkt er að gerast.

Álitsgjafar og bloggarar sem biðu eftir sprengjum hafa haft úr litlu að moða og hafa gripið til þess ráðs að tuða yfir formi og láta efnistök lönd og leið að mestu. Þessa dagana er slagkrafturinn í umfjöllun um landsdóm enginn og fjölmiðlamenn orðnir leiðir.

Lögfræðileg afstaða og ákæran sjálf er mörgum gleymd og alls konar málsmetandi fólk hikar ekki við að gruna landsdóm um að ætla að koma í veg fyrir það sem kallað er uppgjör við hrunið. Ég skil ekki þannig tal enda er það ekki hlutverk landsdóms.

Öll umræða um landsdóm einkennist af pólitík. Þeir sem styðja það að Geir verði sakfelldur grípa hvern þann vitnisburð traustataki sem styður ákæruna og gera að stórmáli og gildir þá einu hver talar þar. Talað er um að þeir sem vitna um sakleysi Geirs gagnvart ákærunni séu vart marktækir allra hluta vegna….

…en hinir sem hafa svo áberandi hag af því að bera sakir á hann frekar en bankana þykja nú skyndilega sérlega traustvekjandi. Öðruvísi mér áður brá.

Þeir sem bjuggust við því að fyrir landsdómi myndi hver reyna að bjarga sér sem betur getur með því að „framselja“ Haarde hafa orðið fyrir umtalsverðum vonbrigðum. Flestir hafa þvert á móti styrkt stöðu hans með framburði sínum.

Umræðan ber keim af þessu og hún snýst eiginlega ekkert um efnisatriði lengur og fáir búast við einhverju sem gæti verið túlkað sem sakfelling. Reyndar eru sumir ekkert að bíða eftir neinu í þessum efnum og hafa komist að niðurstöðu og vænta þess að landsdómur „standi“ sig.

Fólki finnst eiginlega leiðinlegt að ekkert nýtt bitastætt skuli koma fram og hafa misst áhuga. Það sem stendur upp úr núna er að annað hvort Össur eða Ingibjörg Sólrún eru að segja ósatt varðandi þátt fyrrverandi viðskiptaráðherra helgina þegar Glitnir var tekinn yfir.

Ég sá í kastljósi í kvöld að ritstjóri eyjunnar taldi slíka smámuni leiðinlegt innanhússvandamál Samfylkingar. Skemmtileg og nýstárleg nálgun og væri áhugavert að sjá ritstjórann máta þessa skoðun við fleiri þætti þessa máls.

Vissulega hefur þessi málatilbúnaður afhjúpað eitt og annað sem mikið gagn verður að í fyllingu tímans. Ég get auðvitað ekki sett mig upp á móti því að þjóðin vilji gera þessa sögu alla upp. Það er nauðsyn.

En að setja ákæru á hendur Geir Haarde í pólitískum tilgangi undir því yfirskyni er alger della. Og það er að renna upp fyrir flestum þessa dagana. Vissulega er það oft þannig að ef menn gætu vitað hvernig morgundagurinn liti út væri hægt að draga úr líkum á mistökum dagsins í dag.

Þannig er það ekki og málsmeðferð fyrir landsdómi sýnist mér helst staðfesta að flest þau mistök sem Geir Haarde kann að hafa gert voru heiðarleg mistök byggð á upplýsingum sem engum hvorki hérlendis né erlendis datt í hug að draga í efa þá.

Um þetta snýst málareksturinn og annað ekki. Nema fyrir þeim sem litu á þetta fyrirbrigði sem landsdómur er sem póltískt tæki.

Og umræða dagsins sannar svo að ekki er um að villast að þeir eru ekki fáir……

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur