Mánudagur 14.05.2012 - 21:32 - 3 ummæli

Ögmundur og pólitískar ráðningar

Félagi Ögmundur hefur það umfram svo marga aðra stjórnmálamenn að segja oftar en ekki það sem hann meinar eða hugsar. Þetta er auðvitað til merkilegrar eftirbreytni en athyglisvert að karlinn nýtur þessara eðliskosta sinna takmarkað til vinsælda eða virðingar.


Það stafar ef mér skjöplast ekki af því að fólk metur þessa hreinskilni hans minna en þær skoðanir sem hann viðrar reglubundið án ritskoðunar eða hentugleikakönnunar þegar hugsað er um pólitískan skyndigróða.


Ögmundur er samviska VG. Hann rígheldur í flokkinn og þau gildi sem hann á að standa fyrir en formaðurinn hefur týnt í ráðherrastólnum. Enda reynist það svo að hann rekst illa og er með óþægindi. 


Ég kann hins vegar að meta hreinskilni hans og hann minnir mig á það ítrekað af hverju ég er hægri maður en ekki vinstri. 


Nú er það þannig að nöldrandi andstæðingar á þingi og stöku fjölmiðlamenn hafa verið að hafa skoðun á því að Guðbjartur Hannesson skipaði gamlan flokksbróðir og þingmann stjórnarformann íbúðarlánasjóðs. 


Staurblindir sjá að þessi ráðning er pólitík. Venjubundin viðbrögð þegar á slíkt er bent er að neita án afláts að málið sé þannig vaxið og til vara að aðrir hafi og séu ekki betri. 


Það er hinn hefðbundi skollaleikur sem okkur er boðið upp á og klassísk loforð úr gleymdum kosningabaráttum um gagnsæi og nýja tíma horfin í rykmekki. 


Þá kemur félagi Ögmundur til keppni strangheiðarlegur og lýsir því yfir kokhraustur mjög að svona eigi þetta að vera. Hann er trúr lífsskoðunum sínum og veit að allt er best þegar stjórnmálamenn eins og hann sjálfur fær að ráða án afskipta almennings sem veit svo fátt.


Auk þess trúir Ömmi okkur fyrir því að þessi tiltekni maður sé sérstakt valmenni og eigi því allt gott skilið og ívið meira en það jafnvel. Dreg ég það ekki í efa en það kemur umræðunni nákvæmlega ekkert við.


Það er eitthvað stórlega bogið við þessa nálgun Ögmundar. Þá hugsun að þó menn hafi skolast í gegnum kosningar og inn á þing eða lengra að þá séu skoðanir viðkomandi svo mikilvægar og sterkar að almenn viðmið um ráðningar eins og þessa séu í raun óþarfar.


Þetta er hættuleg hugsun og þó alltof margir nenni ekki að hafa skoðanir á því hver situr við borðendann á fundum í einhverjum sjóði er mikilvægt að reyna að átta sig á að það er einmitt þessi árátta sem við þurfum að losna við. 


Við þurfum ekki að úthluta stjórnmálamönnum meiri völd ef ég er spurður. Og við eigum að vera hvumsa þegar öndvegismenn eins og félagi Ögmundur hefur engan kinnroða þegar hann játar glæpinn…..


Röggi



Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Anonymous

    Samfylkingin sér um sína.Eftir að Samfylkingin komst í stjórn, hafa aldrei verið ráðnir eins margir pólitískir vinir og vandamenn á ríkisjötuna.Og hvernig verður þetta ef Ísland álpast í ESB?Það munu svona ca. 200-300 Euró-kratar úr Samfylkingunni fá þar feit embætti niður í Brussel á skattfrjálsum launum þar á jötunni.Já, Samfylkingin sér um sína.

  • Anonymous

    Takk fyrir ágætan og umhugsunarverðan pistil, Röggi.Ég á svolítið erfitt með að gera upp við mig að hve miklu leyti ég er þér sammála. Það er vandratað meðalhófið, var sagt í mínu ungdæmi. Mér dettur í hug að líta á málið frá annarri hlið. Horfum á sveitarstjórnastigið. Í öllum sveitarfélögum þar sem listakosningar eru viðhafðar, eru nefndir skipaðar pólitískt. Það gildir bæði um meiri- og minnihluta. Í stærstu sveitarfélögunum eru nefndastörf ágætlega launuð, en í þeim minnstu sinna pólitískt kjörnir fulltrúar nefndastörfum í sjálfboðavinnu.Á nefndum og ráðum, sem skipaðar eru af sveitarstjórnum er stigsmunur, en ekki eðlismunur. Það er þess vegna ekki sjálfgefið að öðrum aðferðum skuli beitt á efra stjórnsýslustigi en því neðra. Og hverjir skipa stjórn Íbúðalánasjóðs? Er Jóhann Ársælsson sá eini sem er pólitískt skipaður? Eru stjórnarmenn skipaðir ævilangt eða kemur ný stjórn eftir næstu Alþingiskosningar?Sjálfur er ég hiklaust andvígur pólitískum ráðningum. En hvað þýðir það? Jú, mér þykir beinlínis ruddalegt þegar ráðið er í starf eða embætti eftir flokksskírteini, Einkum þó ef hæfari umsækjandi er í boði. Ögmundur virðist draga línuna milli þess að ráða fólk til starfa og að skipa í nefnd eða ráð. Það má Ögmundur eiga að þessi lína er nokkuð skýr.Línuna má auðvitað draga á öðrum stað. Við gætum gert bæði ráðuneytum og sveitarstjórnum skylt að auglýsa öll sæti í nefndum og ráðum og skipað hæfnisnefndir til að velja hæfustu einstaklingana. Við gætum líka dregið línuna við formenn nefnda og ráða. En mestu skiptir, held ég, að línan sé skýr.Og eftir að hafa lesið yfir það sem ég hef hér að ofan „hugsað upphátt“ á lyklaborðið, sýnist mér að ég sé ívið fremur sammála Ögmundi en þér.Bestu kveðjur – Jón Daníelsson

  • Anonymous

    What else is new? geisp….

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur