Ég veit svosem ekki hverju ég get bætt við umræðuna um forsetakosningarnar sem ekki hefur verið sagt af öðrum áður svo mikið er skrifað og svo heit er baráttan.
Ég hef vart haft þrek til þess að fylgjast með því sem kallað er rökræður frambjóðenda í sjónvarpinu en það sem ég hef séð líkist ekkert sérstaklega rökræðum forsetaframbjóðenda heldur miklu frekar gamaldags þrasi stjórnmálamanna.
Ég sé ekki betur en að forsetanum hafi tekist fullkomlega upp í taktíkinni. Hann hefur að mestu verið hann sjálfur en þeir hinir sem eru í framboði hafa meira og minna staðið í skugganum.
Málefnum bregður reyndar fyrir af og til í þrasi um aukaatriði um það hver er hvað og segir hvað. Þar kennir margra grasa og ég hef mest gaman af því þegar fólk sem vill styrkja og efla þingið hyggst leggja fram lagafrumvörp frá Bessastöðum.
Þessu fagna margir og jafnvel þeir sem telja núverandi forseta of pólitískan og hafi beitt málskotsrétti óvarlega.
Einn frambjóðandinn hefur þá skoðun helsta að ætla ekki að vera Ólafur Ragnar heldur eitthvað sem heitir sameiningartákn. Auk þess ætlar þessi frambjóðandi að vera í góðu skapi og vera vinur allra og taka hlutlausar og góðar ákvarðanir.
Ari Trausti er skolli góður en hann geldur kannski fyrir það að snemma fóru af stað skoðanakannanir sem sýndu tvo langfremsta og stóri hópurinn heldur sig við þá tvo að mér virðist mest til þess að hinn fái ekki brautargengi.
Einhverjir halda að hægt sé að velja afturhvarf til tíma Vigdísar og Kristjáns. Það verður ekki enda fékk Ólafur vænan frið til að gera embættið pólitískt og því bera bæði hægri og vinstri ábyrgð.
Og stilla sér upp hver með sínum og kannski veikir það framboð Þóru að þræta fyrir það sem allir sjá og þekkja en það er að hún er Samfylkingar en þrasið í henni hefur gert það að skammaryrði og það eru mistök af hennar hálfu.
Rita ummæli