Sunnudagur 02.09.2012 - 22:23 - Rita ummæli

Hvernig er málið alvarlegt Steingrímur?

Það er þannig að ráðherrar hér eru undanþegnir almennum ákvæðum er varðar löggjöf okkar. Ráðherrar eru þeir hinir sömu og setja lögin sem þeir hafa svo sjálfsvald um hvort þeir taka mark á þegar á bátinn gefur.

Þegar Ögmundur brýtur lög og er dæmdur fyrir hefur hann ekki sömu áhyggjur af slíku og þú og ég. Hann hafnar bara niðurstöðunni eindregið og kemur með sitt eigið mat og sýknar sjálfan sig í raun sem er kannski rökrétt niðurstaða manns sem alinn er upp í systemi þar sem þingmenn eru í senn löggjafi og framkvæmdavald og velur einnig dómara.

Einu áhyggjurnar sem Ögmundur hefur eru af því hvernig pólitískur styrkur hans stendur nú þegar hann situr dæmdur ráðherra. Hvort formaðurinn hans hefur heilsu og pólitíska hagsmuni af því að þvínga hann til afsagnar. 

Þetta er í raun hlægilegt en mun að líkindum ekki breytast fyrr en við komum okkur upp þeim eldveggjum sem þrískipting valdsins á að tryggja okkur.

Hið raunverulega dómsvald er í höndum Steingríms J. Hann einn getur fullnustað dóminn sem upp hefur verið kveðinn. 

Steingrímur leikur kunnuglegt stef og segir málið alvarlegt. Hvað þýða slík ummæli? Og hvaða afleiðingar hefur þessi tiltekni alvarleiki málsins fyrir Ögmund? 

Engan auðvitað og lífið heldur sinn vanagang og þjóðin annað hvort lætur sér fátt um finnast eða fer í skotgrafirnar þar sem við ýmist verjum „okkar“ fólk út yfir gröf og dauða eða bendum á dæmi um að aðrir hafi nú gert þetta áður. 

Og bíðum svo eftir því að eitthvað eða einhver muni innleiða fyrir okkur gagnlegt siðferði í pólitík. 

Að líkindum fer eins um þetta mál og önnur sömu tegundar áður og fyrr. Þau verða mögulega innanhúsvandamál hjá viðkomandi flokki og annað ekki. 

Þegar Steingrímur sér málið alvarlegt er hann einungis að hugsa pólitískt fyrir flokkinn sinn og ríkisstjórn. Hann er ekki að hugsa um önnur mun léttvægari prinsipp sem snúa að þjóðinni eða virðingu fyrir þeim lögum sem hér eru sett.

Þannig alvarleiki máls er fyrir okkur hin…

Röggi






Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur