Nú er það svart lagsmaður. Forstjóri landspítala fékk launahækkun rétt sísvona. Það var einhliða ákvörðun ráðherra velferðarmála sem vildi ekki missa manninn til annarra vinnuveitenda.
Ég hef á þessu mikinn skilning og fagna því að ráðherra skuli vilja hafa hæfa menn í vinnu. Í þessu tilfelli hefur forstjórinn verið afar farsæll í starfi sem fáir öfunduðu hann af þegar hann tók við á tímum niðurskurðar og vandræða.
Nú er viðbúið að hljóð heyrist úr horni því velferðarstjórnin hefur haft þá fáránlegu stefnu allavega í orði að línan sé dregin við alltof lág laun forsætisráðherra.
Sú ákvörðun var heimsmet í populisma nema takmarkið hafi verið að ríkið hefði ekki möguleika á að hafa hæfasta fólkið í vinnu. Slíkur sparnaður skilar ekki miklu og er forstjórinn sem hér um ræðir prýðilegt dæmi um slíkt.
Annar ríkissforstjóri, nefnilega seðlabankstjóri, stendur svo í málaferlum við ríkið til að fá þau laun sem forsætisráðherra lofaði honum þegar hann brást við klæðskerasaumuðu auglýsingunni hér um árið.
Ég veit að mörgum ofbýður þau laun sem forstjórinn fær og finnst samanburðurinn við eigin laun heldur óhagstæður. Veit líka að margir telja að þeirra eigin hagur hljóti að velta á því að lækka hæstu laun frekar en að hækka þau lægri.
Ég skora á þá sem geta ekki unað við þessa ákvörðun að þrýsta á ráðherra um að draga hana til baka. Þá getum við fundið einhvern annan í starfið og þá auðvitað einhvern sem hefur það helst til brunns að bera að fara ekki fram á markaðslaun fyrir vinnu sína.
Rita ummæli