Við erum auðvitað hálfgerðir villimenn, Íslendingar. Það er doldið skemmtilegt stundum en æ oftar dapurlegt. Við erum t.d. allmörg þannig að telja dómstóla og lög tæki til þess að fá það sem við viljum fyrir okkur og okkar málsstað.
Við grobbum okkur af elsta löggjafarþingi veraldar en kunnum svo ekki að umgangnast þing og dómstóla af nokkurri virðingu og reisn þegar útlendingarnir líta undan.
Dómstólar sem komast að „rangri“ niðurstöðu sitja óhemjuoft undir ámæli fólk sem eingöngu getur hugsað út frá þröngum eiginhagsmunum eða þá pólitískum. Sem er því miður ótrúlega algengt.
Fólk með réttlætið að vopni vill ráðast inn dómssali til að koma í veg fyrir að ein af mikilvægustu og merkustu stofnunum siðara manna fái dæmt í ágreiningsmálum.
Í þeim tilfellum og mörgum öðrum er öllum eðlilegum og rökréttum prinsippum hent og persónuleg sett inn í staðinn. Þá gleymist stundum að það erum við sjálf sem ráðum því hvernig lög og reglum við ákveðum að fylgja.
Það var aldrei díllinn að hver og einn mætti bara ákveða eftir á að þessi eða hinn lagabókstafurinn gilti bara um aðra. Samt er fullt af fólki sem trúir því statt og stöðugt að lögin gildi ekki um þá. Einungis hina, nema hinir séu með í liðinu.
Svarar Halldórsson fréttamaður er dæmdur til greiðslu miskabóta og ummæli hans dauð og ómerk, eins og það sé nú hægt! En jæja…
Svavar er ekki alveg ókunnugur svona löguðu en viðbrögð hans við dómnum eru mér umhugsunarefni. Hann gerir eins og svo margir gera í þessari stöðu.
Hann fer að hafa skoðun á niðurstöðunni sem hefur ekkert með efnisatriði niðurstöðunnar að gera. Í stuttu máli þá finnst honum að ákærandnaum hafi ekki tekist að afsanna áburðinn.
Ég skil að málið er snúið og fréttamenn ljóstra ekki upp um heimildir sínar en það gefur Svarari vonandi ekki ótakmarkað skjól til að bera hvað sem er á menn.
Viðbrögð annarra eru einnig áhugaverð. Þau taka mið af þvi með hverjum er haldið í málinu. Hinn hugprúði fréttamaður og útrásarvíkingurinn. Þetta mál snýst ekkert um þessar persónur tvær.
Þetta snýst um prinsipp, prinsipp sem ekkert okkar vill láta hreyfa við. Við erum saklaus uns sekt er sönnuð. Ekkert flóknara en það.
Samt er ég þess fullviss að ýmsir þeir sem taka sér stöðu gegn niðurstöðu réttarins yrðu ekki í vandræðum með að hafa allt aðra skoðun á alveg eins máli efrir hálfan mánuð.
Bara ef það væri rétt fólk með réttan málsstað. Þessi hegðun er afleit og hættuleg, en landlæg hér. Við tökum ekki mark á niðurstöðum dómstóla nema það henti okkur og okkar málsstað.
Þetta er afdalamennska og heigulsháttur. Dómstólar og löggjafinn geta því miður ekki gert ráð fyrir því að tekið sé tillit til þess hvort það er „gott“ fólk eða „vont“ sem villist af leið.
Eða hvort fólk „ætlaði“ að meiða. Við erum hins vegar sammála um að það er réttur hvers manns að skjóta málum til dómstóla. Þeim réttindum fylgja skyldur.
Nefnilega skyldan um að hlýta niðurstöðunum. Og ekki er verra að gera það með reisn og stæl. Í tilfelli Svavars er enginn að segja að hann sé vondur maður eða illviljaður.
Hann bara fór ekki rétt að gagnvart lögunum og sá sem var órétti beittur á þá kröfu á hann að hann beri virðingu fyrir niðurstöðunni.
Fyrir mér er þetta svo einfalt. Höfum reglurnar eins fyrir alla og tryggjum öllum rétt til þess að skjóta málum til dómstóla.
Rita ummæli