Fyrst hélt ég að þau undur og stórmerki væru að eiga sér stað að þingmenn meirihlutans á þingi væru að læra það að skattahækkanir og auknar álögur væru ekki leiðin.
Þetta hélt ég þegar ég las að Marshall og Guðmundur Steingrímsson ætli ekki að greiða atkvæði með fjárlögum vegna skattahækkana á ferðaiðnaðinn.
Þetta er svo auðvitað misskilningur. Auðvitað velja þeir hækka skattana, bara ekki núna. Saari og hans fólk vill meira að segja hækka þá meira en gert er ráð fyrir. Það var og.
Núverandi og fyrrverandi og einnig sá sem var þar áður ráðherra fjármála hafa í umræðum um þessa nýjustu skattadellu opinberað ekki bara skilmingsleysis sitt á áhrifum hækkunarinnar heldur einnig umfagnsmikinn og áuninn misskilning á því hvernig vaskur skilar sér til ríkissins.
Vaskur er lagður á viðskiptavininn og atvinnulífið innheimtir og skilar. Þetta er ekki flókið og hvert barn skilur. Þetta sama barn veit líka að atvinnulífið hefur möguleika á þvi að fá vask endurgreiddan t.d. vegna framkvæmda.
Ferðamannaiðnaðurinn er vaxandi grein og þar hafa menn staðið fyrir mikilli uppbyggingu. Sem getur þýtt endurgreiðslu á vaski. Það var alveg kostulegt að fylgjast með Oddný og hirðinni á netinu og allsstaðar fagna því þegar þau reiknuðu það út að vegna þessa skilaði greinin ekki vaski til samfélagsins.
Tökum hagnaðinn, gjarnan kallaður arðrán, af þeim og ráðstöfum honum sjálf úr ráðuneytum okkar eftir smekk. Þetta er grunnurinn. Þetta er hugsunin.
Færum völdin frá fólki til stjórnmálamanna, sem hafa sýnt það ítrekað að þeir eru ekki best til þess fallnir að fara með fjársjóðinn.
Nú er verið að fjármagna kosningaloforðin með arðgreiðslum úr ríkisfyrirtækjum. Milljarðar verða teknir út banka sem ætti miklu frekar að nota þá peninga í skuldalausnir.
Og skattar hækka út um allt. Steingrímur og fólkið hans þarf meira. Af því að ríkið skuldar svo mikið. Það er vissulega rétt, ríkið skuldar mikið. Og ríkið þarf meiri tekjur.
En sú tekjuaukning felst ekki í því að gera hagnað atvinnulífsins upptækan og færa í hendur stjórnmálamanna til ráðstöfunar. Tekjuaukningin felst meðal annars í því að styðja við bakið á atvinnulífinu.
Til þess að það blómstri og skapi atvinnu með betri laun. Og þar með meira í kassann hjá ríkinu.
Þessi afspyrnuvitlausa hækkun á virðisauka á ferðaiðnaðinn opinberar fullkomið skilningsleysi á því hvernig hagvöxtur verður til. Hann verður ekki til í ráðuneytum.
Hækkunin nú er eiginlega bæði aftur og framvirk. Hún gerir ekkert annað en að eyðileggja fyrir grein sem hefur byggt sig upp og er í örum vexti. Þetta sjá allir menn en þeir sem ráða kjósa að kunna ekki að viðurkenna þetta.
Þeir sjá skyndigróðann. Þeir sjá að þarna er skattstofn sem mun hækka. Strax og það kemur ríkissjóði vel. Hvað gerist svo þegar þetta strax móment skyndilausnastjórnmálamannsins er farið er svo seinni tíma vandi.
Þá finna þeir bara nýja grein sem blómstrar og byrja upp á nýtt. Ef við erum heppin stendur þannig á hjá sumum að henti að stöðva delluna eins og nú virðist vera.
Hættum að treysta á heppni í þessu. Veljum fólk sem skilur að þarfir fólks og atvinnulífs eru algerlega þær sömu. Hættum að velja kaldastríðs fólkið, fólkið sem ólst upp við vonda fólkið, arðræningjana, atvinnulífið, og svo launafólkið.
Rita ummæli