Miðvikudagur 08.02.2012 - 15:54 - Rita ummæli

Ég rakst fyrir tilviljun á facebook status hjá Jóni Þórissyni sem ég held örugglega að sé arkitektinn sem varð aðstoðarmaður Evu Joly. Þar spyr hann hvort vinir hans á fésinu muni ekki eftir því hvernig mokað hafi verið yfir verðsamráð olíufélaganna með því einu að þröngva Þórólfi Árnasyni út úr pólitík.

Þeir dúkka upp lukkuriddararnir núna hver um annan þveran og skrifa söguna upp á nýtt eftir smekk. Þessi söguskýring var vinsæl um tíma og þótti pólitískt hentug og hér reynir Jón að endurnýta hana og treystir á að fólk muni einmitt alls ekki eftir málinu.

Það er nefnilega þannig ef mig misminnir ekki gróflega að löggjöfin okkar gerir ekki ráð fyrir því að eigendum fyrirtækja eða starfsmönnum sé refsað fyrir ólöglegt verðsamráð þeirra fyrirtækja sem þeir jafnvel stýra og eða eiga.

Þetta er ekkert nýtt og við sjáum eigendur og forstjóra símafyrirtækja eða matvörurisa dæmda fyrir ólöglegt samráð og viðskiptahætti og kennitölunni er refsað með fjársektum sem fyrirtækin sækja svo samviskusamlega í vasa neytenda sem er þar með refsað öðru sinni.

Fælingarmáttur slíkra refsinga virðist enginn vera en þrátt fyrir það má ekki breyta þessari löggjöf. Í sumum löndum eru forstjórar settir í járn en hér er það kennitala sem hlýtur refsingu eins og kennitölur taki ákvarðanir.

Ég hef oft áður lýst þeirri skoðun minni að þessu eigi að breyta og kannski Jón Þórisson gauki því að samflokksmönnum sínum sem ráða á löggjafarþinginu úr því þetta er honum hugleikið.

Saga Þórólfs var þannig að hans sekt í málinu var hið minnsta allnokkur og mig minnir að hann hafi haft verðsamráð á sínu verksviði. Eftir þetta varð Þórólfur að gefa frá sér pólitíska drauma sína og fannst ýmsum eins og honum væri þar með einum gerð refsing.

Það er í besta falli áunninn misskilningur. Eigendum og starfsmönnum var ekki gerð refsing persónulega og það kom þeim víst ekki á óvart sem þekkja til þeirra laga sem um málið gilda.

Þórólfi var því ekki gerð refsing fyrir lögum frekar en öðrum þó hann hafi haft lifibrauð sitt af svínaríinu en af eðlilegum ástæðum varð snöggt um pólitíska drauma hans. Ég hef fulla sannfæringu fyrir því að eins hefði farið fyrir hinum stjórnendum olíufélaganna hefðu þeir gengið með stjórnmálamann í mallanum þarna.

Þetta er einmitt prýðilegt dæmi um það að þó löggjafinn refsi einstaklingum sem gerast brotlegir við hegningarlög ekki getur almenningur og siðferðisþrek þjóðar gert það. Þetta ætti að vera heilbrigðisvottorð til handa þjóðinni en Jón Þórisson sér þetta ekki þannig af einhverjum ástæðum.

Þessum lögum þarf að breyta á þann veg að þeir aðilar sem taka ákvarðanir og hafa af því atvinnu að stunda verðsamráð sé refsað en ekki kennitölunni og þar með neytendum upp á nýtt.

En kannski finnst Jóni Þórissyni að fyrrum stjórnendur verðsamráðsolíufélagnna ættu að eiga bjarta og skæra framtíð fyrir sér í pólitík. Öðruvísi er ekki hægt að skilja söguskýringar hans.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur