Það er þetta með meiðyrðalöggjöfina. Er hún kannski óþörf með öllu? Eða ætti kannski að skilyrða hana með einhverjum hætti? Við gætum stofnað nefnd góðra manna sem leggur mat á það hverjir eru nógu góðir einstaklingar til þess að mega höfða mál byggð á þessari löggjöf.
Björn Valur Gíslason settist niður og skrifaði grein þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að valdir aðilar eigi ekki að hafa aðgang að þeim rétti sem þessi löggjöf veitir þegnum þessa þjóðfélags.
Hrunverjar og mótorhjólagengi eru þeir sem Björn Valur telur að ekki hafi rétt til þess að höfða mál. Og svo þeir sem eiga peninga almennt. Þeir mega ekki verja mannorð sitt sér í lagi ef auralaus maður hefur viðhaft orð um þá.
Slíkt kallar Björn Valur tilraun til þöggunar. Rétttrúnaður þingmannsins ríður ekki við einteyming frekar en fyrr. Sem betur fer búum við ekki í landi þar sem lög og réttur eru bara fyrir suma en ekki aðra.
Ég get haft ýmsar skoðanir á sumum þeim sem höfða meiðyrðamál og ég má það. Ég get meira að segja átt það til að bomba dálítið á hina og þessa opinberlega. Sumir þeirra eiga jafnvel peninga sem ég mun þurfa að borga fyrir þá og aðrir eitthvað minna af þeim.
Þeim orðum mínum fylgir ábyrgð og hún fellur ekki úr gildi þó viðkomandi séu að mati margra vondir menn.
Þetta ætti fulltrúi VG á löggjafarþinginu að skilja öðrum fremur.
Röggi
Mér finnst ávalt sorglegt að vera minntur á það aftur og aftur hve það fólk, sem af öllum telur sig vera lýðræðislegasta og heiðarlegasta fólk á jarðríki, vanvirðir í raun lýðræðið ítrekað og sýnir af sér hræsni. VG hefur sýnt það og sannað margoft að lög, reglur, stjórnarskrá, prinsipp, og lýðræði er eitthvað sem maður mærir og gerir hátt undir höfði. Þegar hentar. Ef það hentar ekki, þá er þessum gildum hent út í hafsauga med det samme.Merkilegt hvað VG virðist ítrekað sanna oft að George Orwell hitti naglann þráðbeint á höfuðið þegar hann skrifaði í Animal Farm: „All animals are equal but some animals are more equal than others.“Reglur eiga að gilda um alla nema um VG, stundum.
Það blasir við að þessar málsóknir og hótanir um hið sama, eru í miklum mæli notaðar til að stöðva umfjöllun. Það er ekkert nýtt og í raun bara eðlileg niðurstaða. Þetta hljóta menn að geta horfst í augu við. Auðvitað eru fleiri ástæður á bakvið meiðyrðalöggjöf. Menn telja sig væntanlega hafa fengið óréttláta umfjöllun og óska eftir leiðréttingu á henni.