Miðvikudagur 20.04.2011 - 15:31 - Rita ummæli

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Davíðs Oddssonar og man og veit hversu mikil og góð áhrif hann og hans hugmyndafræði hafði þegar við hurfum frá þjóðfélagi hafta og banna. Yfirburðamaður lengst af og söguskrifarar framtíðarinnar munu fara mun betri orðum um hann en andstæðingar hans gera í dag.

Það er eins með Davíð og aðra menn að kostir hans geta einnig verið gallarnir. Ég þekki manninn reyndar ekki persónulega og hef aldrei nennt að trúa því sem mestu þjófar og ribbaldar sögunnar hafa kosið að segja um hann í fjölmiðlum sínum áralangt. En í því efni hefur dropinn holað steininn og margir hafa komið að máli við mig og trúað mér fyrir því að hann sé hreinlega geðveikur og allt haft frá fyrstu hendi, eða annarri til vara….

Davíð hefur stillt sér upp á vísum stað í póitíkinni og gefur fjandakornið ekkert eftir frekar en fyrri daginn. Hann hefur að vísu tapað nokkur af sínum baneitraða húmor og það er miður og kemur á köflum niður á honum. Harðskeyttur sem aldrei fyrr og ekki ætla ég að halda því gegn honum en finnst stíllinn orðinn nokkuð brattur og umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra á hröðu undanhaldi.

Ég veit ekki hverju það skilar að nefna þá nöfnum sem ekki sjá hlutina sömu litum og maður gerir sjálfur. Það hjálpar umræðunni ekki og varla skilar það miklu til lengdar litið.

Sjálfstæðisflokkurinn rúmar fólk með ýmiskonar sýn á lífið. Fátt er algott eða alvont og ég er ekkert viss um að heimurinn sé annað hvort alhvítur eða kolsvartur. Í stórum málum er tekist á innan flokksins og það bara má en þá reynir á styrkinn.

Davíð hefur látið eftir sér að slást við þá Sjálfstæðismenn sem vilja inn í ESB og allt er það gott og blessað. Hann er líka að nudda okkur sem sögðum já við Icesave upp úr því að hafa tekið þá afstöðu. Davíð kemst að mér sýnist að þeirri niðurstöðu að þeir sem sögðu já við Icesave hljóti að hafa gert það til þess eins að liðka fyrir inngöngu okkar í ESB.

Og vandar slíku fólki ekki kveðjurnar. Ég tel mig ekki verri Sjálfstæðismann en aðra þó ég hafi af praktískum ástæðum sagt já og hafna því að niðurstaða mín tengist andstöðu minni við inngöngu í ESB á nokkurn hátt.

Og velti því fyrir mér hvort þeir sem tengja þetta já við ESB með þessum hætti hafi einmitt sagt nei á þeim forsendum að halda úti leiðindum milli ESB og Íslands. Þessi rök virka nefnilega í báðar áttir…

Núna eru tímar gerjunar á mörgum sviðum og ekki síst í pólitík. Samherjar takast á um grundvallarmál framtíðarinnar og þá er mikilvægt að framverðir umræðunnar haldi sjó en missi sig síður í stóryrði og persónulega meiðandi ummæli þó ekki rói allir alveg sama sjó um tíma.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur