Nú gerast þau undur og stórmerki að félagi Össur Skarphéðinsson talar um stjórnmál og tilefnið er vantrauststillaga á ríkisstjórnina sem hann tilheyrir. Það er kjaftur á kalli eins og venjulega og hann talar í fyrirsögnum.
Það er til marks um það hversu slæm sú ákvörðun er að koma með þessa tillögu nú að maður eins og Össur skuli telja sér óhætt upp úr holunni sem hann hefur grafið sig ofan í mánuðum saman og þagað á meðan ríkisstjórnin hans hefur engst til og frá í tilgangsleysi sínu.
Félagi Össur er nefnilega meiri klækjadýr en svo að hann snerti á neinu sem gæti talist óvinsælt eða snúið heldur lætur aðra um slíkt. Fyrir vikið er hann orðinn slíkur léttadrengur pólitískt að hans hlutverk er loftkenndara en alltaf áður.
Ég get tekið undir sumt af því sem hann segir um stjórnandstöðuna í palladómum sínum og skil ofnæmið sem hann af hentisemi nærir innra með sér til Sjálfstæðisflokksins alveg þangað til að hann myndar með honum næstu ríkisstjórn um leið og hinir pólitísku veðurguðir gera Samfylkingunni kleift að losna úr gildrunni með VG.
En ég get ekki skilið af hverju hann talar niður til þeirra þingmanna stjórnarnadstöðunnar sem velja að styðja vantraust á ríkisstjórn sem nýtur hvergi trausts nema hjá þeim sem hana mynda og varla það.
Össur þekkir auðvitað ekki þá tilfinningu lengur að geta tekið prinsippákvarðanir í pólitík svo gegnsósa er hann orðinn af spuna og klækjastjórnmálunum sínum. Þannig stjórnmál miða alltaf að því að hafa þá skoðun sem „skilar“ mestu í hina pólitísku hönd.
Össur þarf ekkert að hlusta á skýringar stjórnandstöðuþingmanna eða umræður um málefni. Össur skilur ekki slíkt tal. Hann heldur bara sínu liði nema þegar eitthvað þungt of leiðinlegt er að gerast…
..þá fer hann í felur.
Rita ummæli