Ég sá Jóhann Hauksson titra af geðshræringu í Silfri Egils í dag þegar hann reyndi að draga niðurstöðu hæstaréttar í stjórnlagaþingsmálinu niður á pólitískt svað þar sem hann er reyndar gjörkunnugur staðháttum blessaður.
Jóhann Hauksson er aftur á móti stundum ánægður með störf réttarins. Það er þegar hæstiréttur kemst að „réttri“ niðurstöðu. Málefnaleg gagnrýni á þennan tiltekna dóm og rökstuðninginn er látin lönd og leið. Það er afleitt og í þessu sérstaka tilfelli mjög dapurlegt því vel er til dómsins vandað þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skipað þá einhverja.
Ég sjálfur er algerlega mótfallinn því að ráðherrar skipi dómara með þeim hætti sem við höfum búið við lengi. Ég verð það alltaf alveg óháð niðurstöðum í einstaka gælumálum sem snúa að mér og gildir einu hvort ráðherra dómsmála er Sjálfstæðismaður eður ei.
Pólitískt ofstæki Jóhanns Haukssonar í þessu máli hjálpar ekki góðum málsstað. Enda er Jóhann Hauksson kannski ekkert endilega á móti systeminu. Hann vill bara að „réttir“ ráðherrar skipi í stöðurnar.
Rita ummæli