Mánudagur 08.11.2010 - 13:02 - 1 ummæli

Saari, lýðskrum og heildarlausnir

Nú er tími lýðskrumaranna. Og handónýtir fjölmiðlar halda áfram að gera lítið sem ekkert gagn. Nú ræður ríkisstjórn sem veit hvorki upp né niður og man ekki lengur hvert hún er að fara eða hverju var lofað. Skjaldborgin um heimilin lætur á sér standa og því andrúmslofti lifa menn eins og Þór Saari góðu lífi.

Þór hlýtur að vera einn afkastamesti lýðskrumari þingsögunnar. Hann heldur því eiginlega fram að ef ekki væru fyrir vondir stjórnmálamenn væri hægt að leysa skuldavanda heimilanna á einu augabragði. Þingmaðurinn rær svo í þessu fram og til baka og grunnir fjölmiðlar taka honum opnum örmum og telja hann mestan og góðastann….

Mér dettur ekki í hug að svona sé um þennan vanda farið. Lausnin sem lofað var er líklegast bara ekki til. Skuldir hverfa ekki af yfirborðinu því miður og það er sérlega dapurlegt því sumir peningar virðast geta horfið sporlaust ofan í hyldjúpa vasa bankaræningja sem sumir reyndar njóta þess enn að eiga fjölmiðla og annað sem þeim hentar.

Skjaldborgin um heimilin átti að snúast um að tryggja kaupmátt og störf. Þetta skilur þessi ríkisstjórn alls ekki og hefur leitað allsherjarlausna byggða á óraunsæi. Lausna sem eiga að „redda“ málinu á íslenska vegu í snarhasti. Þetta mun ekki gerast….

Vinstri menn margir hafa alla trú á því að ríkisvaldið og það fólk sem þar velst til starfa sé til allra hluta best. Og í rökréttu framhaldi er reynt að koma okkur öllum undir algóðann verndarvæng Steingríms og Indriða með skattaofbeldi. Einkaframtakið kæft á meðan skatttekjur af allri neyslu dragast saman. Hvernig þetta á að ganga upp er mér hulin ráðgáta.

„Eitthvað annað“ stefnan í atvinnumálum er keyrð áfram af festu og styrk og Björk segir okkur að við þurfum alls ekkert að nýta neinar auðlindir. Við þurfum einungis að hugsa grænt og auka svo framlög til lista og menningar. Allt raus um nýtingu auðlinda og störf í iðnaði séu frá vondu hægri fólki komið.

Hvernig væri að liðið sem stýrir aðgerðaleysisríkisstjórninni safnaði nú kjarki og segði okkur eins og er. Það voru engar lausnir í þá átt sem lýðskrumarar utan og innan ríkisstórnar standa fyrir uppi í erminni hjá Samfylkingu og VG. Röfl Jóhönnu um samráð og samvinnu er innantómt leikrit ætlað til að þyrla ryki og flestum fjölmiðlamönnum líður vel í rykmekkinum og mótmælendur eru í fríi.

Og mitt í allri þessari sögu þrífst Þór Saari á öllu saman bara af því að hann segir það sem fólk vill heyra þó vissulega sé hann á stundum einungis að enduróma það sem þjóðinni var lofað.

Hættum lýðskrumi og leitum frekar að mönnum með kjark til að segja það sem segja þarf en ekki bara það sem hljómar best og þægilegast er að heyra. Þá mun snöggkólna um stjórnmálamenn eins og Þór Saari. Og reyndar fleiri….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur