Samfylkingin gæti varla verið óheppnari með tímasetningu og samstarfsflokk þegar draumurinn stóri um ESB virðist í sjónmáli. Hverjum einasta manni er augljóst að taugaveiklun flokksins er nú í hámarki og félagi Össur æðir um og reynir allt hvað af tekur á nýju hraðameti að koma málum þannig fyrir að umsókn okkar inn í draumalandið komist í einhvern þann farveg að ekki verði aftur snúið.
Ég hef margsagt það að andúð þjóðarinnar á ESB muni bara vaxa þegar fram líða stundir. Ekki endilega bara vegna þess að menn sannfærist málefnalega um að ESB sé ekki góður kostur heldur meira vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Hollendingar og Englendingar ætla sér að beita ekki bara sínum eigin aflsmunum í samskiptum sínum við okkur vegna Icesave heldur ætla þeir grímulaust að beita Samfylkinguna ESB þrýstingi. Fáir trúa eintóna málfutningi ráðherra sem þykjast hneykslaðir á tali um tengingu milli Icesave og inngöngu í ESB.
Enda hefur þetta blasað við lengi og verður augljósara með hverjum deginum. Og á meðan Samfylking er í ríkisstjórn með flokki þar sem andstaða við ESB er mest er staðan í besta falli flókin. Tíminn er að hlaupa frá ESB flokknum. Og enn eykst vandinn…
.. því VG mun líklega ekki ráða við Icesave samninginn. Kannski fer að renna upp fyrir Steingrími að ekki dugar að fórna flokknum til þess að gera Samfylkingu til geðs og sitja í ráðherrastólum. Ekki síst í því ljósi að hann er í grunninn algerlega á móti flestu því sem hann predikar af krafti daglega.
Hver sérfræðingurinn ofan í annan mælir eindregið gegn því að samþykkja Icesave dílinn frá Svavari Gestsyni og félögum og einu viðbrögðin sem boðið er upp á er hræðsluáróður um að við verðum sett út á gaddinn fyrir fullt og fast ef við kyngjum ekki hverju sem er.
Mér gengur illa að skilja hvernig hægt er að ætlast til þess að þjóðþing landa megi ekki hafa afstöðu til samnings eins og hér liggur fyrir. Með undirskriftinni erum við væntanlega búin að viðurkenna ábyrgð okkar en það er ekki þar með sagt að framkvæmdavaldið geti bara komið með hvaða samning sem er og heimtað sjálfkrafa stimplum löggjafans.
Samfylkingu tókst með þunga og hótunum að plata VG til að samþykkja aðildarviðræður við ESB. Nú er sami söngur hafinn aftur undir stjórn utanríkisráðherra og Bretar og Hollendingar sjá um undirspilið.
Mjög verður spennandi að sjá hvernig VG lætur að stjórn núna.
Röggi.
Rita ummæli