Föstudagur 21.11.2008 - 17:05 - 10 ummæli

Óskynsamlegt að kjósa núna.

Nú rísa hárin á Samfylkingarfólki vegna þess að Ingibjörg Sólrún lýsir því yfir að ekki sé tímabært að kjósa. Ég heyrði hana ekki segja að ekki yrði kosið áður en kjörtímabilinu lýkur. Bara að þetta væri ekki tíminn.

Enda er þetta ekki tíminn. Öfugt við það sem mætir menn halda fram þá þarf hér ríkisstjórn. Þeir sem halda að við þurfum núna að fara í nokkurra vikna kosningabaráttu og slag á meðan Róm brennur hugsa þetta ekki í botn.

Vissulega er freistandi fyrir Samfylkingarfólk að innleysa fylgisaukningu núna en það má varla kosta hvað sem er. Núna syttist að krónan verði sett á flot og þá gengur hreinlega ekki að vera í kosningabaráttu.

Einhverjir munu nú koma með tugguna um að við viljum ekki að ÞETTA fólk taki þessar ákvarðanir heldur eitthvað óskilgreint annað fólk. Hvaða fólk er það? Er einhver von til þess að flokkarnir umpólist bara allir og fyllist af glænýju fólki einn tveir og þrír.

Miklu líklegra er að ef kosið er síðar að þá muni flokkunum gefast ráðrúm til að endurmeta alla hluti. Það gerist ekki á tveimur mánuðum. Eina „nýja“ fólkið sem í boði er eru frjálslyndir og svo „nýja“ fólkið sem stýrir VG. Rétt upp hendi sem vill að Steingrímur J komist að til að skila lánunum sem við erum að fá.

Svo er hinn möguleikinn auðvitað. Demba sér í kosningar til að kjósa sama fólkið aftur en bara í nýjum hlutföllum og sleppa því að setja krónuna á flot á meðan. Gera eins og VG vill hafa það, sumsé ekki neitt. Þá erum við alveg örugg um að fyrirtækin fara öll á hliðina. Hver græðir á því?

Kosningar núna eru út í hött. Efast ekki um fólk sem ekki hefur neitt málefnalegt til málanna að leggja telur að ég segi þetta vegna þess að ég er Sjálfstæðismaður. Ég held því fram að margir af þeim sem leggja þetta til séu Samfylkingarfók sem sér fylgisaukingu í kosningum í hyllingum.

Ég geri mér stútfulla grein fyrir því að kosningar fyrir timann eru eðlilegur hlutur. það verður þó að vera síðar en fyrr þvi nú er verk að vinna fyrir stjórnvöld. Þau stjórnvöld sem nú eru við völd eru örugglega ekki verr til þess fallin en fólkið sem er á hliðarlínunni.

Þar eru engar lausnir. Bara róið á reiðina og óánægjuna. Hún kann að vera réttlát en skilar okkur engu.

Röggi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Anonymous

    Sæll RöggiMikið er gaman að geta verið sammála þér svona einstaka sinnum.Það er ég varðandi það að kjósa núna eða á næstunni.Sjálfur tel ég að enginn eigi lengur, og alls ekki á þessum tímum, að taka ákvarðanir út frá flokkshollustu heldur því sem er best fyrir heildina. ISG er að sýna gífurlegan styrk núna því það eru hægt að slá margar pólitískar keilur núna með því að sprengja upp þetta samstarf og knýja fram kosningar. Þannig væri hægt að láta Sjálfstæðisflokkinn taka við afleiðingum 17 ára efnahagstjórn landsins og gjaldþroti þeirra stefnu, allavega framkvæmd hennar. Ingibjör metur stöðuna, með réttu, það alvarlega að slíkt væri glapræði og myndi tefja endurreisnina sem þegar er hafin.Ég er fullkomlega sammála þér að hvorki fyrirtækin né fólkið í landinu má við slíku. Fleiri gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja og meira atvinnuleysi og örvænting kæmi í beinu framhaldi. Nóg er það samt. Einnig er ekkert annað stjórnarsamstarf í boði því að V.G. lifa í öðrum veruleika en við hin og eru ekki stjórntækur flokkur með núverandi forystu, viðhorf og stefnu. Ingibjörg Sólrún metur hagsmuni þjóðarinnar meiri en bæði sjálf síns og flokksins. Óskandi væri að fleiri gerðu það, almenningur einnig, því við þurfum á fleira fólki að halda sem gerir það sama.Muna svo Gleðina:)

  • Anonymous

    Þetta er nú meiri rökleysan og vitleysan. Bjánahátturinn lekur úr þessum skrifum. Einungis fífl láta svona bull út úr sér og það er svo sannarlega ekki skortur á ykkur á Íslandi í dag.

  • Anonymous

    Þetta er tómt bull, lýsir miklu reynsluleysi. Ég hef mikla reynslu af því að koma að stjórnum fyrirtækja sem hafa lent í vanda. Aðal reglan er að skipta um alla stjórnendur, nýjar hugmyndir og nýtt fólk, út með þá sem hafa komið fyrirtækinu í þá stöðu sem það er í.Það snýr ekki að hæfni fólksins, þetta kann að vera vænsta fólk, en hópurinn er vitlaus eða það sem það er að gera gengur ekki upp.Þetta með að skipta um fólk í miðri á er líka bara bull enda á það ekki við þegar viðkomandi komu okkur þangað.Sýnist Jón Sig hjá Össur og allir reyndir stjórnendur vera að segja það sama. Það er nákvæmlega ekkert traust til þessa fólks.og hlustaðu nú – við þetta fólk höfum án efa verði öflugustu stuðningsmenn amk annars þess flokks sem nú er við völd, en treystum þeim ekki lengur.Kjósa strax, hlusta á þá sem hafa reynsluna.

  • Anonymous

    Eg rétti upp hendi! Skallagrímur getur alls ekki verið verri kostur en þeir fávitar sem nú eru við völd, með þeim afleiðingum sem blasa við!

  • Sérkennileg þessi árátta sumra skoðanaandstæðinga Rögga að ráðast á hann með skítkasti, sem að vísu hittir þá sjálfa verst fyrir. Segir meira um þá en hann, og ekki síst hversu illa þeim svíður undan skrifunum.Reyndi krísufyrirtækjastjórnandinn gerir sér augljóslega ekki grein fyrir að sennilega finnst enginn í heiminum sem hefur nokkra reynslu af því að ráðast í jafn stórt og vandasamt verk og ríkisstjórnin stendur framí fyrir.Leyfi mér að efast um þá vinnureglu að það eigi að skipta út öllum stjórnendum fyrirtækja sem eiga í vanda.

  • Anonymous

    Að glapræðisfólkið rannsaki eigin afglöp – mikil er skynsemi þín, drengur.

  • Nafnlaus. – Sé hvergi minnst á að einn né neinn eigi að rannska sig sjálfur, ef þú ert að vitna í minn texta eða Rögga?

  • Anonymous

    Það er mikið um hróp og köll hér sem annars staðar.En staðreyndin er sú að ef það þarf að kjósa næsta vor þá verður kosið næsta vor.Þessi umræða er ótímabær þannig enda hefur ríkisstjórnin næg verkefni og menn mega ekki rugla saman ólíkum hlutum og verkefnum.Sjálfum líst mér ekkert á tal um kosningar á næstunni enda getur ekkert komið því nema enn meira stjórnleysi og óvissa.Leyfum stjórnvöldum að gera sitt besta nú og stöndum við bakið á þeim á meðan það er gert.Annað er bara ávísun á frekari ringuleið og tap almennings. Sammála þér Röggi.

  • Anonymous

    hættu nú að skalla bolta. ekki gott fyrir hausinn. sjálfstæðismenn eru eins og öfgatrúamenn. þeir missa ekki trú á leiðtoga sínum fyrr en þeir hafa misst alleigu og nokkra fjölskyldumeðlimi, á vakt leiðtoga sinna. svo lengi sem sjálfstæðisflokkurinn gengur ekki um og bókstaflega kálar fólki, hafa þeir alltaf marga fylgjendur. svona er þetta fólk bara byggt. það þarf sjálsmorðsbylgju innan fjölskyldna þeirra til að fá þá til að endurskoða afstöðu sína. það er það sorglega við þá.

  • Er nú verið að drulla yfir aðra flokka fyrir að vilja „Haardera“?Hvaðan er það orð aftur komið?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur