DV hælir sér af því í dag að hafa gómað barnaníðing. Ekki fjarri lagi að myndbirting þeirra hafi hjálpað til, í þessu tilfelli. Og þess vegna eru myndbirting alltaf í lagi er það ekki?
Ég efast stórlega um það. Almennt er ég á móti því að ritstjórar nýti sér upplýsingar sem þeir kunna að hafa um glæpamenn með því að birta myndir af þeim í stað þess að koma upplýsingunum til yfirvalda. Besta leiðin til þess að stöðva slíka aðila er að yfirvöld grípi inní.
Þarf ekki að hugsa um þau skipti sem myndir birtast af fólki sem haft er fyrir rangri sök? það gerist og skaðinn af því oft óbætanlegur. Man eftir nafntoguðum manni sem var á forsíðu þessa blaðs sagður raðnauðgari og flennistór mynd og nafn blasti við hverjum sem er.
Í því tilfelli hafði nafnlaus aðili sakað viðkomandi um þetta á spjallsíðu. Það dugði ritstjóranum þá. Ég er líka á móti dauðarefsingum. Mannorðsmorð eru mér einnig á móti skapi. Dómstólar og lögregla eiga að sjá um að handtaka menn og dæma.
Ég veit að svona forsíður selja blöð. En þetta er vandmeðfarið í meira lagi og skaðinn of mikill þegar ritstjórinn hefur ekki réttar upplýsingar eða nægar. Hvort menn vilja svo birta myndir af dæmdum mönnum er svo önnur umræða.
Röggi.
Var hann raðnauðgari?Kv. Valur Grettisson.
Ég veit ekkert um það. Þekki hvorki haus né sporð á manninum. Er ekki líklegt að í hugum margra sé hann það?
„Er ekki líklegt að í hugum margra sé hann það?“Það skiptir þá reginmáli hvort maðurinn sé sekur eða ekki. Ef hann var saklaus þá eru þetta ófyrirgefanleg mistök. Og þá er hann ekki nauðgari.En ef maðurinn hefur gerst sekur um nauðgun þá hlýtur dæmi að horfa öðruvísi við.Og ég veit um hvaða mann þú ert að tala, sem þú segir reyndar vera nafntogaðan – hann var einmitt dæmdur sekur fyrir nauðgun. En eins og þú segir, þá veistu svo sem ekkert um það. Það skiptir kannski engu máli. Fjölmiðlar eru bara vondir. Líka við nauðgara.Eða hvað?Kv. Valur
Mér finnst það frétt þegar til þess bærir fagaðilar hafa komist að því að ásakanir á hendur einhverjum séu þess eðlis að eðlilegt sé að ákæra. Hvort rétt sé að birta myndir af viðkomandi þá er umdeilanlegt örugglega en hættan á óbætanlegum mistökum er of mikil þegar myndir af mönnum eru birtar áður en mál eru rannsökuð. Get ég með því einu að bera nógu oft á þig sakir opinberlega komið andlitinu á þér á forsíðu DV? Jafnvel þó að lögregla teldi alls enga ástæðu til ákæru. það er gott að gleðjast þegar vel tekst til en hitt er aldrei rætt. Man einhver eftir Lúkasi?
Meira ruglið í þér Röggi. Í fyrsta lagi, dæmið sem þú tekur í þessari bloggfærslu ber átakanlegt vitni um það að þú ert ekki vel að þér.Raðnauðgarinn sem þú skrifar um var fyrst nafngreindur og myndbirtur í Fréttablaðinu. Það var eftir að hann hlaut tveggja ára dóm. Að reyna að halda því fram að ekkert sé rætt um hitt í fjölmiðlum er fásinna. Eða manstu ekki eftir Lúkasi?Hvað þessa spurningu varðar: „Get ég með því einu að bera nógu oft á þig sakir opinberlega komið andlitinu á þér á forsíðu DV?“Þá er svarið nei. Eða veistu um slíkt dæmi? Kv. Valur
Veist þú um hvaða mann ég er að tala? Er ekki viss um að við séum að tala um sama málið.Það sem ég er að tala um er hvenær, ef menn á annað borð vilja birta myndir, er rétt að gera það.Fyndist þér eðlilegt ef ég hefði upplýsingar um einhvern sem ég teldi varða við lög að ég birti myndir af honum á síðunni minni frekar en að koma þessum upplýsingum á framfæri við yfirvöld?Ég segi nei jafnvel þó ég teldi upplýsingarnar traustar.En ég er auðvitað ekki að selja blað…
Í fyrsta lagi þá hefur aðeins einn maður verið nefndur raðnauðgari á forsíðu DV. Svo best sem ég veit. Það var árið 2005 eftir að nafnlaus fjöldapóstur var sendur út um allan bæ og maðurinn sakaður um að herja á stúlkur á börum bæjarins. Egill Helgason vakti fyrst athygli á þeim pósti á bloggi sínu. Maðurinn var dæmdur í rúmlega tveggja ára fangelsi í kjölfarið. Ef þú ert að tala um annan raðnauðgara sem nafnlaus aðili á spjallsíðu vakti athygli á – þá ertu að segja mér fréttir. En þú skilur punktinn sem ég er að reyna segja. Þú segir að myndbirtingar séu slæmar vegna þess að raðnauðgari var í DV áður en hann var dæmdur.En hvað með Guðmund í Byrginu? Hann var ekki ákærður fyrr en í þar síðustu viku. Málið er búið að vera í rannsókn og í fjölmiðlum í rúmlega ár.Það hefði kannski verið betra að tala um ónefndan predikara og meðferðarfulltrúar.Hvað með Árna Johnsen? Hann var ekki dæmdur þegar fjallað var um þjófnaðinn hans í DV. Átti hann að vera ónefndur þingmaður sem lægi undir grun um þjófnað?Mér finnst fjölmiðlar ekki fara illa með nafn- og myndbirtingar. Þú vilt frekar halda einhverskonar hlífiskildi yfir raðnauðgara. Gott og vel. Það er þín skoðun. Kv. Valur
Þú þarft ekki að gera mér upp skoðanir þó þú teljir þig ekki vera á sama máli og ég.Ég er einfaldlega á móti því að menn séu teknir af lífi án dóms og laga hvort sem það er á heimasíðum eða á forsíðum dagblaða.það er vissulega frétt þegar menn eru handteknir en það þarf alls ekki að vera nauðsynlegt að birta myndir af fólki þó einhver beri á það sakir. það er í mínum huga of snemmt. Þarf ekki að skammast mín fyrir það viðhorf.Frábið mér barnalegar athugasemdir um að ég sé að verja framkomu glæpamanna með því. Eitt að lokum. Við erum ekki að tala um sama tilfellið.