Kristján verkalýðsleiðtogi af suðurnesjum var í viðtali í fréttum í kvöld, einhversstaðar. Hann er í fararbroddi í samningaviðræðunum sem nú standa yfir. Þær fara furðuhljótt. Enginn slagkraftur. Menn skella ekki einu sinni hurðum. Öðruvísi mér áður brá.
Hann er orðinn þreyttur á snakki um hluti sem hann segir ekki koma málinu við. Pælingar um gjaldmiðil og vexti og húsnæðisvanda og hvað þetta heitir allt saman. Þetta finnast honum vera aukaatriði og nú vill minn maður tala um beinharða peninga. Eitthvað sem fólk skilur. Þarna talar hann líklega fyrir munn margra.
Kannski er vinnuveitendum að takast að þreyta menn til samninga með röfli um hluti sem menn hvorki skilja né nenna að tala um. Það er langt síðan kjaraþras snérist eingöngu um krónur á launaseðli. Ég er ekki viss um að hægt sé að stytta sér leið þó þreytandi sé að standa í þessu.
Viðsemjandi Kristjáns er kannski heppinn með tímasetningar og ástand í þjóðmálum núna. Allt ískalt og neikvæðni í lofti. Þá er eins og allt loft fari úr fólki. Það er hugsanlega til marks um það hversu allir eru orðnir meðvitaðir. Kannski eru hlutir eins og vaxtahækkanir og verðbólga farin að hræða. Nú bara ætlar ekkert að verða úr neinum slag. Menn meira og minna allir á sömu blaðsíðunni. Ekki alveg á sama stað á blaðsíðunni en …
Kannski lognið á undan storminum.
Röggi.
Rita ummæli