Þriðjudagur 3.7.2012 - 18:56 - Rita ummæli

Það er með mig eins og marga að þessa dagana verður manni mjög hugsað um fjölmiðla. Fagmennsku þeirra og eftir atvikum hlutleysi. Eða öllu heldur skort á fagmennsku og hlutleysi.


Hér áður voru blöðin flokksblöð og því ekki gerð hlutleysiskrafa til þeirra. Í dag þykjast blöðin vera hlutlaus nema ef vera skyldi Mogginn sem kannast við oft sjálfan sig.


Fjórða valdið. Fjölmiðlar eru fjórða valdið að mér skilst en ég hef reyndar grun um að þeir séu eitthvað ofar í röðinni á stundum. Að fara með slíkt vald er ekki öllum gefið. 


Stundum er talað um að stjórnmálamenn sitji of lengi og að völd spilli ekki síst þegar menn sitja lengi að þeim. Er ekki hægt að setja fleirri starfstéttir inn í þessa jöfnu? 












Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.7.2012 - 14:39 - 2 ummæli

Viðbrögðin

Auðvitað sýnist hverjum sitt þegar rætt er um úrslit kosninganna í gær. Við reynum að lesa út úr stöðunni og niðurstöðurnar eftir smekk. Þar er ég varla betri en aðrir…..


Sumt er áhugaverðara en annað eins og gengur en eitt er eins víst og að morgundagurinn rennur upp að embættið er orðið stórpólitískt og verður það líklega héðan af. Það skrifast þó ekki eingöngu á forsetann.


Viðbrögð andstæðinga Ólafs Ragnars af vinstri kanntinum eru nefnilega eingöngu pólitísk og einkennast af súrri og langlífri heift. Enginn er kampakátur nema Þóra…


Allt er týnt til. Sumir eru að horfa í það að mælingar segja að fylgi Ólafs komi helst frá þjóð sem ekki hafi langskólamenntum að baki og þannig fylgi sé verðminna en hitt.


Hugsanlega þykir mönnum þetta tal léttvægt en ekki mér. Við höfum fram til þessa verið laus við svona hroka og ekki þótt þau lönd smart sem skipta þjóð sinni upp í tvær mismikilvægar fylkingar eftir þessum mælikvarða miðjum. 


Annað er þusið um dræma kjörsókn. Vissulega er dræm kjörsókn verra en góð  og ég veit að skýringar geta verið margar. Ég hef almennt talað haft fyrirvara við það að senda helstu mál og jafnvel fleirri í atkvæði til þjóðarinnar.


Undanfarin ár höfum við haft nokkuð af slíku og áhugi á þeim farið dvínandi í réttu hlutfalli við fjölda þeirra. Er það ekki saga þessara aðferða?


Sumir lögðust í prósentureikninginn í nótt og reiknuðu sig niður á það að nýkjörinn forseti hefði svo og svo lítinn stuðning þjóðarinnar. Þeir hinir sömu ættu kannski að hafa þá skoðun fyrirfram að kosningar séu ekki gildar nema ákveðinn hluti þjóðarinnar mæti.


Ég man nefnilega eftir kosningum nýlegum þar sem „þjóðin“ valdi sér fulltrúa til setu í stjórnlagaráði. Kannski ryfjar einhver upp hversu margir tóku þátt í þeim kosningum og setur vægi tillagna þeirra sem þar sitja í þetta sama samhengi. 


Fjölmiðlamenn og aðrir hafa svo reynt að gera það að sérstöku máli að Ólafur Ragnar situr lengur en margir aðrir í embætti. Og hvað? Framdi hann valdarán? Stal hann embættinu frá andstæðingum sínum með aðstoð þjóðar sem kaus hann? Þessi vísindi eru merkingarlaust hjal um ekki neitt.


Og merkilegt hvernig virðing fyrir úrslitum atkvæðagreiðslna hjá þjóðinni er valkvæð hjá sumum. Allt eftir smekk.

Pólitískum smekk eins og svo oft áður



Röggi


Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.7.2012 - 01:35 - Rita ummæli

Við kjósum hann

Í dag kusum við okkur forseta.


Það sem tryggði Ólafi embættið nú öðru fremur var, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, framganga hans í Icesave með 98% þjóðarinnar að baki og sú aðferð hans að nota málskotsréttinn og þjóðaratkvæðagreiðslur.


Frábært að fylgjast með krampakenndum viðbrögðum andstæðinga Ólafs sem flestir ef ekki allir hafa á „réttum“ stundum og þegar „réttur“ málsstaður fyrir „rétt“ stjórnvöld var í boði einmitt viljað nota þessar aðferðir. 


Og skreytt allt saman með lýðræðisástinni. Stundum er fínt að forseti beiti sér gegn löggjafar og framkvæmdavaldi en þá valkvætt…. 


Hægri menn eru svo ekkert betri þegar að þessu kemur og Ólafur Ragnar spilar á allt klabbið af mikilli íþrótt. 


Ég sé engan mun á prinsippafstöðu andstæðinga hans nú eða fyrr. Þar ráða fá önnur sjónarmið en pólitísk. Enda er nánast leitun að alvöru umræðu um embættið heldur miklu frekur sérhönnuð kosningabarátta sem miðar að því einu að koma óhentugum einstaklingi frá Bessastöðum.


Ef bara auglýsingastofan hennar Þóru hefði ekki sagt henni að afneita pólitíkinni í sér og sett hana þar með í viðstöðulausa og vonlausa vörn hefði hugsanlega verið hægt að láta kosningarnar snúast um eitthvað bitastætt.


Hlutverk forseta í stjórnskipaninni skiptir máli en það mál komst ekki á dagskrá af neinu viti. Og þá sjaldan þá var það þannig að frambjóðendur töluðu um það sem þeim finnst endilega að forseti skuli gera óháð því hvað stjórnarskrá gerir ráð fyrir.


Ólafur Ragnar hlýtur að vera snillingur. Hann spilar á þjóðina hægri vinstri og við dönsum dansinn glöð í bragði þegar hantar. Nú háttar þannig til að vinstri mönnum líður ömurlega yfir því að hafa nært kamelljónið og komið því til valda. 


Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta getur allt snúist á einu augabragði eins og maðurinn sagði. Helsta huggun vinstri manna harmi gegn er tilhugsunin um hægri stjórnina sem Ólafur mun þvælast fyrir sé það hentugt þá stundina.


Af hverju halda menn að Ólafur Ragnar sé forseti en ekki einhver annar? Af því að við kjósum hann auðvitað. Af því að við viljum hafa svona forseta, hvað annað?


Og þá þýðir ekkert að fara í fýlu undir falsyfirskyni. 


Röggi







Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.7.2012 - 00:26 - Rita ummæli

Nú vitum við það sem við vissum allan tímann að félagi Ólafur Ragnar fer hvergi. Þessi umdeildi stjórnmálamaður hafði lítið fyrir því að halda veikum frambjóðendum fyrir aftan sig.


Þá sjaldan að málefni komust á dagskrá baráttunnar opinberuðist skýrt hversu yfirborðskenndar skoðanir frambjóðendur höfðu á embættinu. Skoðanir sem byggðust mest á þvi hvað frambjóðendur töldu söluvænt en minna um það hvað stjórnarskrá og stjórnskipan segir. 
Þóra Arnórsdóttir fékk fljúgandi start áður en baráttan hófst og þá lék allt í lyndi. Svo brast á flótti og hún kepptist við það að finna sér skoðanir sem gætu skilað atkvæðum. 

Hún reyndi að höfða til þeirra sem ekki vilja pólitík á Bessastaði um leið og hún hamaðist við að afneita sjálfri sér í fortíð og nútíð.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.6.2012 - 22:24 - Rita ummæli

Ég veit svosem ekki hverju ég get bætt við umræðuna um forsetakosningarnar sem ekki hefur verið sagt af öðrum áður svo mikið er skrifað og svo heit er baráttan. 


Ég hef vart haft þrek til þess að fylgjast með því sem kallað er rökræður frambjóðenda í sjónvarpinu en það sem ég hef séð líkist ekkert sérstaklega rökræðum forsetaframbjóðenda heldur miklu frekar gamaldags þrasi stjórnmálamanna.


Ég sé ekki betur en að forsetanum hafi tekist fullkomlega upp í taktíkinni. Hann hefur að mestu verið hann sjálfur en þeir hinir sem eru í framboði hafa meira og minna staðið í skugganum.


Málefnum bregður reyndar fyrir af og til í þrasi um aukaatriði um það hver er hvað og segir hvað. Þar kennir margra grasa og ég hef mest gaman af því þegar fólk sem vill styrkja og efla þingið hyggst leggja fram lagafrumvörp frá Bessastöðum. 


Þessu fagna margir og jafnvel þeir sem telja núverandi forseta of pólitískan og hafi beitt málskotsrétti óvarlega. 


Einn frambjóðandinn hefur þá skoðun helsta að ætla ekki að vera Ólafur Ragnar heldur eitthvað sem heitir sameiningartákn. Auk þess ætlar þessi frambjóðandi að vera í góðu skapi og vera vinur allra og taka hlutlausar og góðar ákvarðanir.


Ari Trausti er skolli góður en hann geldur kannski fyrir það að snemma fóru af stað skoðanakannanir sem sýndu tvo langfremsta og stóri hópurinn heldur sig við þá tvo að mér virðist mest til þess að hinn fái ekki brautargengi. 


Einhverjir halda að hægt sé að velja afturhvarf til tíma Vigdísar og Kristjáns. Það verður ekki enda fékk Ólafur vænan frið til að gera embættið pólitískt og því bera bæði hægri og vinstri ábyrgð.


Og stilla sér upp hver með sínum og kannski veikir það framboð Þóru að þræta fyrir það sem allir sjá og þekkja en það er að hún er Samfylkingar en þrasið í henni hefur gert það að skammaryrði og það eru mistök af hennar hálfu.







Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.6.2012 - 20:04 - 14 ummæli

Er frávísun ekki sýkna?

Hvað er hún þá?


Ég sá það á skilti einu fyrir utan héraðsdóm í dag að einhver telur svo ekki vera. Hvernig geta menn hlotið sýknu ef ekki þegar rannsókn leiðir í ljós að ekki verður ákært?


Er það kannski meiri sýkna að vera ákærður og leiddur fyrir dóm en ekki sakfelldur? 


Hvernig system viljum við hafa ef ekki dugar að notast við rannsókn hlutlausra og regluverk samið af þeim sem kjörnir eru af þjóðinni sjálfri til að handa dómstólum?


Hvað varð um gömlu sannindin um að hver maður sé saklaus uns sekt er sönnuð? Má gefa afslátt af þeim eftir smekk? 


Þegar ég kæri einhvern og þar til bærir aðilar komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til meðferðar fyrir dómstólum verður að líta svo á að viðkomandi sé saklaus.


Annað er umtalsverð rökleysa


Röggi



Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.6.2012 - 19:37 - Rita ummæli

„Frávísun er ekki sýkna“


Ég var á röltinu í miðborg höfuðstaðarins í dag og sá hvar skilin höfðu verið eftir skilti við hús héraðsdóms. Druslugangan hugsaði ég og las á skiltin og rak augun í þetta. Frávísun er ekki sýkna.


Ég velti því fyrir mér hvernig land þeir vilja byggja sem trúa þessu. Hvað er frávísun ef ekki sýkna? Hvernig viljum við leggja mat á það hvenær menn eru sekir eða sýknir? Er það minni sýkna að vera ekki ákærður heldur en að vera sýknaður eftir ákæru? Eða er það kannski bara þannig að ef tiltekinn hópur trúir því að einhver sekur er ekki nokkur leið fyrir viðkomandi að teljast saklaus?


Að mínu viti eru ekki til mjög margar leiðir fyrir okkur til þess að skera úr um sekt eða sakleysi. Besta leiðin til þess er að fá hlutlausa rannsóknaraðila til að kanna hvort tilefni er til ákæru. Komi til hennar er fínt að fá dómstóla til þess að fjalla um málið og dæma út frá þeim lögum sem löggjafinn hefur útbúið.


Hvaða system annað er betra? Sumir tala þannig að ekkert sé að marka niðurstöður dómsstóla í vissum málaflokkum og því sé ekki hægt að styðjast við þá og vilja frekar halda úti dómstól götunnar sem ýmsir halda af óskiljanlegum ástæðum að sé óskeikull og sanngjarn. Það eru einhver mestu öfugmæli sem ég man eftir.


Frávísun er auðvitað sýkna og menn eru klárlega saklausir uns sekt sannast. Þetta gildir um alla alltaf of allsstaðar og ekki nokkur ástæða til þess að gefa afslátt af þessum sannindum. 


Ég ber líka virðingu fyrir því grundvallaratriði að betra sé að tveir sekir gangi lausir en einn saklaus sitji inni. 





Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.6.2012 - 21:52 - 1 ummæli

Enn um flotta Englendinga

Sko Englendinga. Þeir unnu bara riðilinn sinn á EM og sérfræðingarnir skilja eiginlega ekkert í þessu. Þeir halda helst með liðum sem spila samba við öll tækifæri. 


Englendingar verjast víst of mikið og of aftarlega og þeir sækja eiginlega ekkert af viti. Og þeir eru leiðinlegir. 


En þeir tapa ekki leikjum og vinna riðilinn sinn um leið og þeir skora í hverjum leik. Þeir eru lið sem missti þjálfarann sinn rétt fyrir mót og við tók maður sem enginn átti von á að væri til skoðunar.


Mér finnst þeir fínir og þeir sýndu það gegn Svíum að þeir hafa líka öll tök á því að spila hratt og sækja stíft. 


Ég veit ekkert hvort þeir komast í gegnum næsta andstæðing enda Ítalir vel sjóaðir í árangurstengdri taktík í fótbolta. En ég veit að Englendingar hafa í þessu móti valið sér taktík eftir stöðu sinni og andstæðingi hverju sinni.


Spilað á styrkleikum sínum en ekki andstæðinganna. Og náð árangri….


Hvað vilja menn meira?


Röggi



Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.6.2012 - 16:14 - Rita ummæli

Málþófið

Ég les hér og þar að þingið þvælist fyrir stjórnvöldum sem þurfa að koma málum í gegn með meiri hraði en þingið kýs. Slíkt er hin mesta óhæfa og lýðræðiselskandi menn um borg og bæ tala um það án kinnroða að nú verði að aftengja þá sem ekki eru réttrar skoðunar.

Það sem tefur er kallað málþóf minnihlutans en málþóf þetta hefur alltaf verið í vopnabúri minnihluta þings og notað eftir smekk innan þeirra umferðarreglna sem gilda á þingi. 

Ég veit ekki hvort mér á að finnast þetta vont eða gott en meirihlutinn hefur alltaf kvartað þegar minnihlutinn nýtir sér rétt sinn til þess að masa út í eitt um hluti. 

Þetta er vandmeðfarið allt saman enda viðurkenna allir á fínum stundum að tryggja verði rétt minnihlutans við vinnu löggjafans. 

Hvernig það er best gert er líklega ekki bráðeinfalt mál en ég er viss um að lausnin verður ekki fundin af pirruðum meirihlutanum þegar hann þarf að troða stærstu og umdeildustu málum sínum í gegn seint og um síðir á lokaspretti þings. 

Þetta er prinsippmál sem ekki má snúast um það með hverjum við höldum. Ég fer nokkuð nærri um það að Björn Valur mun ekki hika við að nota þann rétt og þann tíma sem reglur þingsins veita honum á næsta þingi þegar hann verður í minnihluta standi honum svo hugur til.

Og það má hann.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.6.2012 - 18:36 - Rita ummæli

Gott stig hjá Englandi

Grefilli gott stig hjá Englendingum gegn Frökkum. Víðáttuleiðinlegur leikur og það skrifast á tjallann. Leikurinn varð svo extra leiðinlegur í meðförum Dolla en kannski má segja að þau leiðindi hafi visst skemmtanagildi í sjálfu sér.


Ég hef  vissa samúð með leikaðferð Hodgson. Hann er nýtekinn við löskuðu liði og þarf fyrst og fremst úrslit. Jafntefli við gríðarvel skipað og nær ósigrandi franskt lið er smart fyrir England þó stíllinn fái ekki fegurðarverðlaun.


Hversu oft hafa Englendingar ekki farið snemma heim frá svona móti eftir þrjá gullfallega leiki sem skiluðu engu eða litlu í stigum talið? 


Góð úrslit geta gefið liðum sjálfstraust en ósanngjarnir tapleikir skila litlu og kannski mun þetta harðsótta stig gefa þessum miðlungsmannskap sem Hodgson hefur úr að spila aukið sjálfstraust.


Ég man eftir nokkrum útgáfum af landsliðum Ítala í gegnum tíðina sem hafa komið inn í svona túrneringu og spilað sig alla leið til lokaleiks. Ég hef reyndar ekki heillsufar í að spá Englandi þannig árangri…..


En kannski verður þetta einmitt stígið sem gerir einhvern gæfumun fyrir þá þegar upp er staðið og þá spyr enginn hvernig það kom til.


Röggi



Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur