Föstudagur 13.4.2012 - 09:30 - 1 ummæli

Tilhneigingin

Jón Bjarnason er aftan úr grárri forneskju pólitískt séð. Maður sem sér ekki framrúðuna heldur miklu frekar pínkulítinn baksýnisspegilinn. Honum finnst allt sem var vera best af einhverjum ástæðum. Og honum finnst þeir sem kjörnir eru á þing vera þeir sem öllu eiga að ráða.
Svona líta margir á Jón Bjarnason og fussa. Kommaframsóknarafturhald segja sumir og ég kinka kolli. Jón Bjarnason er glæstur fulltrúi þeirra sem vilja að stjórnmálamenn ráði öllu.
Eitt nýjasta dæmið eru afskipti hans af sölu banka á svínabúum. Jóni finnast þetta eðlileg afskipti enda hann með góða hagsmuni að leiðarljósi. Þarna er honum rétt lýst og að líkindum hafa fæstir nennu til þess að láta þetta pirra sig. Hverjum er ekki sama hvað Jón Bjarnason er að dunda sér?
Mér er ekki sama. Og mér stendur ekki á sama þegar ég horfi á tilhneiginguna hjá núverandi stjórnvöldum. Smátt og smátt er verið að laumast nær og nær einstaklingnum og áður en við vitum má ekkert gera án þess að stjórnmálamenn og eða embættismenn segi go.
Þrískipting valds. Hvað er það? Í hugum Jóns Bjarnasonar allra flokka er bara eitt vald. Og það er valdið sem stjórnmálamenn geta tekið sér. Þeir sem nú sitja að kjötkötlum hafa áunna óbeit á frelsi einstaklingsins og telja slíkt í raun hættulegt heildarhagsmunum.
Og því sé þessu frelsi best fyrirkomið í höndum þeirra sjálfra. Hrunið kom óorði á frelsið og gamlir ríkisafskiptastjórmálamenn komust til valda í kjölfarið. Og una sér ekki hvíldar við að færa völdin frá kjósendum sínum og inn í myrkvuð herbergi stjórnmálanna. 
Smátt og smátt erum við hætt að taka eftir því hvernig ráðherrar eru hættir að nenna að þykjast skilja þriskiptinguna og hlutverk sitt. Jón Bjarnason væri enn ráðherra ef hann hefði bara asnast til þess að vera almennilegur gagnvart ESB. 
Og myndi viðurkenna það með sitt einstaka bros að vissulega hafi hann í nafni góðs málsstaðar hringt eitt og eitt símtal til að hafa áhrif fyrir þennan eða hinn á kostnað grundvallaratriða eins þriskiptingu valds og eðlilegra stjórnarhátta.
Og okkur væri sama um þessa tilneigingu. 
Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.3.2012 - 09:10 - Rita ummæli

Sjálfstæðismenn fundu upp málþófið. Sú saga gengur fjöllum hærra núna og sumir þingmenn fyllast sorg yfir þessari aðferðafræði. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af málþófi en minnir að allir flokkar hafi notað það eftir smekk sitt á hvað alla tíð.


Og alltaf kvartar meirihlutinn. Málþóf eru leiðindi sama hver beitir þeim

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.3.2012 - 23:12 - 6 ummæli

Jafnréttisorðræðan

Hvað ætli ég hafi verið gamall þegar ég heyrði orðið feministi fyrst? Kannski er ekki svo langt síðan þannig séð. Ég man heldur ekki nákvæmlega hvað ég var gamall þegar ég lærði þau eilífu sannindi að auðvitað á að vera fullt jafnrétti kynjanna. 
Ég skyldi það mætavel þá og alla tíð síðan en ég skil nú ekki allt sem sumir sem kalla sig feminista eru að reyna að gera góðum málsstað sínum til hagsbóta. 
Ég get auðvitað fabúlerað um allskonar í þessum samhengi. Í mínu umhverfi er ekki einn maður/kona sem vill ekki fullt jafnrétti. Við skiljum ekki hvar tappinn er en vitum þó að mikið hefur áunnist þó enn vanti.
Eins og með sum önnur ágæt mál hefur umræðan um jafnréttið mátt þola það að öfga fólk hefur tekið málið yfir og eignað sér. Það kann sumum að þykja undurfagurt enda öfgar stundum hreyfiafl breytinga. 
En í þessu tilfelli hefur það gerst að baráttuaðferðirnar snúast um að finna óvininn  sem reynast þá oftar en ekki vera öfga rugludallar karlkyns hinu megin á kvarðanum. Þessir hópar hafa svo dundað sér við að halda til haga og birta lista yfir vont fólk sem hatar hitt kynið.
Og meginþorri þjóðarinnar er í forundran að reyna að fatta hvað málið snýst orðið um. Fæstir hafa nennu til að taka þátt í svona ati og afleiðingin er sú að þörf  umræða kafnar og málefnin komast minna að.

En á meðan á þessari heldur kjánalegu orðræðu stendur heldur jafnréttið bara áfram að festa sig í sessi á sífellt fleiri sviðum og kærir sig kollótt um það hvernig hinn eða þessi hagar líkamshirðu sinni eða bölsóttast út í fólk á öndverðri skoðun.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.3.2012 - 19:01 - 1 ummæli

Afbrigðið

Það er ekki alltaf praktískt bannsett lýðræðið. Það getur verið svifaseint og þungt sér í lagi stjórnvöldum sem ekki mega vera að því að koma málum í gegnum afgreiðslustofnanir eins og alþingi.

Í dag gerðist það að ekki tókst að fá nægjanlegan stuðning við afbrigði á alþingi til þess að koma mjög mikilvægu máli, nefnilega stjórnarskrármálinu, áfram í gegnum þingið á styttri tíma en venjulega er ætlaður.

Það er einhver hroki í því að geta ekki þolað þinginu að vinna eftir þeim reglum sem löggjafinn kýs hverju sinni. Sumir þeirra sem hafa gagnrýnt þetta hástöfum telja sig alla jafna sérstaka boðbera aukins sjálfstæðis þings gagnvart framkvæmdavaldi og hafa talað um virðingu þings og hvatt til vandaðra vinnubragða.

Hvað varð um fagurgalann um að tryggja minnihlutanum rétt á löggjafarþinginu? Á það bara að vera stundum og þá kannski helst eftir pólitískum meginlínum?

Ég dett í ákveðnar stellingar þegar þingmeirihluti og eða stjórnvöld hafa ekki tíma til þess að bera virðingu fyrir lýðræðinu vegna þess að Fúsa liggur á að koma málum í gegn um löggjafann. Hvar stæðum við ef Steingrími og Birni Val hefði tekist að koma Icesave í gegnum þingið með flýtihnappnum?

Það er vissulega þreytandi þegar ekki tekst að fá það sem maður vill. Ekki síst ef maður hefur sterka tilfinningu fyrir mikilvægi þeirra mála sem barist er fyrir. En það er lítilsvirðing að hrakyrða þá sem ekki eru tilbúinir þegar hentar að vera á sama hraða og vilja nýta sér þann sjálfsagða rétt að fara fram á að þingið vinni eftir þeim meginreglum sem almennt gilda.

Við getum og megum vera ósammála um málin út og suður en helst ekki gleyma rétti kjörinna fulltrúa á löggjafarþinginu til þess að hafa skoðanir á vinnuferlinu.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.3.2012 - 13:12 - Rita ummæli

Sveinn Valfells hagfræðingur skrifar grein í Morgunblaðið í dag og fjallar þar um þátt Steingríms Sigfússonar og Svavars Gestssonar í Icesave klúðrinu. Sveinn dregur þá ályktun og rökstyður að þeir hljóti að mega eiga von á ákæru til landsdóms vegna þessa.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.3.2012 - 11:08 - 1 ummæli

Ekkert fútt í landsdómi

Landsdómsmálið er orðið leiðinlegt. Það gerist ekkert. Engar bombur ef ég reyni að gleyma því að forystumenn Samfylkingarinnar eru ýmist fullkomlega ósammála eða minnislaus í vitnastúkunni. Ritstjóri eyjunnar talar um að slíkt sé innanflokksmál. Nýstárleg nálgun það…

Flest vitnin styrkja málflutning ákærða í aðalatriðum og því hafa þeir sem héldu að Geir yrði leiddur til slátrunar tekið upp pirring yfir formi og aðstöðuleysi. Þorvaldur Gylfason skilur ekki af hverju Geir er ekki hafður í búri svo hann geti ekki rætt við vitnin og bloggarar og álitsgjafar semja brandara vopnaðir orðhengilshætti sem fengi hvaða landsdóm sem er til að skella upp úr.

Hvað héldu menn að þarna myndi eiga sér stað? Ég les allskonar ummæli sem benda til þess að ýmsir haldi í raun og veru að þessi dómur eigi að vera pólitískur. Landsdómur á að fjalla um þá ákæru sem borin er á Geir en ekki að vera tækifæri fyrir stjórnvöld og fylgsveina þeirra til þess að fá útrás fyrir óþol sitt gagnvart einstaka vitnum.

Það er nefnilega orðið þannig að ákæran og Geir sjálfur er eiginlega að gleymast. Því eins og einn sagði, og meinti það reyndar þannig að Geir væri sekur, það er að koma í ljós að Geir vissi ekki að allt var að fara til fjandans frekar en aðrir, ef frá er talinn Arnór Sighvatsson!, og þegar hann vissi það var ekki hægt að bregðast þannig við að hruni yrði forðað. Sem sagt; ekkert nýtt að koma fram í þeim efnum og þau mistök sem voru gerð virðast hafa verið heiðarleg mistök en ekki landráð.

Landsdómur afhjúpar reyndar mjög margt sem varð og verður að gera betur og veitir þeim sem fá sæti einhverja innsýn í það hvernig systemið virkar nú eða virkar ekki og að því er mikið gagn.

En landsdómur er ekki vetfangur fyrir eitthvert uppgjör við gamla pólitíska andstæðinga eins og margir virðast halda. Hann er ekkert leiktæki á róluvelli stjórnmálamanna dagsins sem vilja fá að drullumalla.

Það er lágmark að þeir sem um málið fjalla sýni bæði dómnum og Geir Haarde þá virðingu að gleyma ekki að heiður hans og æra er þarna til umfjöllunar og vitnaleiðslurnar eru til þess að reyna að varpa ljósi á það hvort ákærurnar eigi við rök að styðjast.

Það er hlutverk landsdóms og annað ekki. Landsdómur á að spyrja spurninga sem varða ákæruna en ekki pólitík og þá stundarhagsmuni sem sú tík nærist á.

Við megum ekki gleyma því að landsdómur er alls ekki pólitísk stofnun þó ákæran sjálf sé ekki annað en pólitísk brella.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.3.2012 - 20:53 - Rita ummæli

Það er afar áhugavert að fylgjst með viðbrögðum við landsdómi. Þessi hápólitísku réttarhöld eru að valda þeim miklum vonbrigðum sem héldu að Geir Haarde yrði þar leiddur til slátrunar. Ekkert slíkt er að gerast.

Álitsgjafar og bloggarar sem biðu eftir sprengjum hafa haft úr litlu að moða og hafa gripið til þess ráðs að tuða yfir formi og láta efnistök lönd og leið að mestu. Þessa dagana er slagkrafturinn í umfjöllun um landsdóm enginn og fjölmiðlamenn orðnir leiðir.

Lögfræðileg afstaða og ákæran sjálf er mörgum gleymd og alls konar málsmetandi fólk hikar ekki við að gruna landsdóm um að ætla að koma í veg fyrir það sem kallað er uppgjör við hrunið. Ég skil ekki þannig tal enda er það ekki hlutverk landsdóms.

Öll umræða um landsdóm einkennist af pólitík. Þeir sem styðja það að Geir verði sakfelldur grípa hvern þann vitnisburð traustataki sem styður ákæruna og gera að stórmáli og gildir þá einu hver talar þar. Talað er um að þeir sem vitna um sakleysi Geirs gagnvart ákærunni séu vart marktækir allra hluta vegna….

…en hinir sem hafa svo áberandi hag af því að bera sakir á hann frekar en bankana þykja nú skyndilega sérlega traustvekjandi. Öðruvísi mér áður brá.

Þeir sem bjuggust við því að fyrir landsdómi myndi hver reyna að bjarga sér sem betur getur með því að „framselja“ Haarde hafa orðið fyrir umtalsverðum vonbrigðum. Flestir hafa þvert á móti styrkt stöðu hans með framburði sínum.

Umræðan ber keim af þessu og hún snýst eiginlega ekkert um efnisatriði lengur og fáir búast við einhverju sem gæti verið túlkað sem sakfelling. Reyndar eru sumir ekkert að bíða eftir neinu í þessum efnum og hafa komist að niðurstöðu og vænta þess að landsdómur „standi“ sig.

Fólki finnst eiginlega leiðinlegt að ekkert nýtt bitastætt skuli koma fram og hafa misst áhuga. Það sem stendur upp úr núna er að annað hvort Össur eða Ingibjörg Sólrún eru að segja ósatt varðandi þátt fyrrverandi viðskiptaráðherra helgina þegar Glitnir var tekinn yfir.

Ég sá í kastljósi í kvöld að ritstjóri eyjunnar taldi slíka smámuni leiðinlegt innanhússvandamál Samfylkingar. Skemmtileg og nýstárleg nálgun og væri áhugavert að sjá ritstjórann máta þessa skoðun við fleiri þætti þessa máls.

Vissulega hefur þessi málatilbúnaður afhjúpað eitt og annað sem mikið gagn verður að í fyllingu tímans. Ég get auðvitað ekki sett mig upp á móti því að þjóðin vilji gera þessa sögu alla upp. Það er nauðsyn.

En að setja ákæru á hendur Geir Haarde í pólitískum tilgangi undir því yfirskyni er alger della. Og það er að renna upp fyrir flestum þessa dagana. Vissulega er það oft þannig að ef menn gætu vitað hvernig morgundagurinn liti út væri hægt að draga úr líkum á mistökum dagsins í dag.

Þannig er það ekki og málsmeðferð fyrir landsdómi sýnist mér helst staðfesta að flest þau mistök sem Geir Haarde kann að hafa gert voru heiðarleg mistök byggð á upplýsingum sem engum hvorki hérlendis né erlendis datt í hug að draga í efa þá.

Um þetta snýst málareksturinn og annað ekki. Nema fyrir þeim sem litu á þetta fyrirbrigði sem landsdómur er sem póltískt tæki.

Og umræða dagsins sannar svo að ekki er um að villast að þeir eru ekki fáir……

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.3.2012 - 12:12 - Rita ummæli

Vonbrigði margra með framvindu málsins gegn Geir Haarde fyrir landsdómi eru illa dulin. Sér í lagi þeirra sem héldu í raun að þessi pólitísku réttarhöld myndu leiða það í ljós að Geir væri einn til ábyrgðar fyrir hruninu.

Gagnrýnin sem fram hefur komið snýst að mestu um form en minna um það sem þar er að koma fram. Fyrir mér er augljóst að sumir töldu að þarna yrði um pólitískt uppgjör að ræða en það var í grunninn misskilningur.

Landsdómur er ekki og á ekki að vera tæki ríkjandi stjórnvalda hverju sinni til að berja á hinu liðinu. Þegar þessum kafla lýkur mun löggafinn væntanlega taka til við að breyta lögum um dóminn enda leyndu þeir sem vildu ákæra Geir því alls ekki eftir atkvæðagreiðsluna að á því væri brún þörf, en bara ekki fyrr en eftir að Geir var ákærður.

Hinir rétttrúuðu virðast hafa gleymt ákæruatriðum og lögfræðilegum prinsippum sem um landsdóm gilda. Fram til þessa hefur saksóknara ekki tekist að renna sterkum stoðum undir ákæruna en vissulega hafa þeir sem höfðu fyrirframskoðun á sekt Geirs getað kroppað ein og ein ummæli og sett í umferð í pólitískum tilgangi.

Því hefur fókusinn færst yfir á gamallt stig sem er óbeit á sumum vitnanna miklu frekar en að því sé velt upp hvað viðkomandi hafa haft efnislega að segja. Þetta var viðbúið og hefur afhjúpað hvernig ýmsir málsmetandi menn líta þennan blessaða landsdóm.

Ef ekki tekst að negla Geir telur þetta fólk án efa að eitthvað hafi verið athugavert við þá vinnu sem saksóknari lagði í málið. Jafnvel fólk sem taldi ákærurnar skotheldar fyrir nokkrum dögum.

Bloggarar og álitsgjafar hafa snarlega skipt um skoðun og trúa nú hverjum því vitni sem fæst til þess að ýta undir efann um Geir. Menn sem hafa átt mjög undir högg að sækja hafa skyndilega breyst úr bankaræningjum í sannleikselskandi sagnfræðinga. Magnað að fylgjast með þessu….

Landsdómur hefur fram til þessa staðfest það í stórum dráttum að varla verður hægt með neinni sanngirni að halda Geir ábyrgum. Það var hlutverk landsdóms og annað ekki og í því ljósi verður að meta það hvernig til tekst en ekki hvort pólitískum fylkingum líkar við niðurstöðurnar.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.3.2012 - 16:47 - Rita ummæli

Kannski er of snemmt að draga ályktanir af því sem þegar hefur komið fram fyrir landsdómi en það fer fyrir mér eins og mörgum öðrum að ég stenst ekki mátið. Þessi mál sér hver með sínum augum að vonum og ég vona að mér líðist það.

Mér finnst þeir sem hafa dæmt Geir sekan fyrirfram eiga verulega undir högg að sækja. Vissulega eru menn að henda fram orðum sem hljóma vel í fyrstu en fátt hefur enn komið fram sem styður við ákærur gegn Geir.

Öðru nær. Þeir sem hafa talað hafa meira og minna staðfest söguna eins og hún hefur blasað við að mínu mati.

Fyrst eftir hrunið var fundið að því að stjórnvöld hafi ekki upplýst þjóðina um stöðuna í upphafi árs 2008. Þær ásakanir voru strax út í hött og í dag skilja held ég allir að slíkt var auðvitað ekki möguleiki.

Ofurtrú sumra á stjórnmálamönnum lýsir sér svo í því að halda því fram að Geir Haarde hefði með einhverjum aðgerðum getað minnkað bankana. Hvernig það átti að gera er óljóst og einnig fullkomlega óvíst að þótt það hefði verið reynt hefði það staðist löggjöf og stjórnarskrá.

Það er alveg augljóst að ekki er sanngjarnt að leggja þær ákærur á einn mann að hann hefði bæði átt að vita að allt væri að fara fjandans til í bankakerfi heimsins þvert á mat þeirra sem hafa það verkefni að meta stöðu banka og svo að hann hefði átt að koma í veg fyrir hrun.

Þegar liðið hefur að þessum pólitísku réttarhöldum hafa menn enda slakað á í þessu og nú heitir það að hann hafi ekki gert nóg þó vitað sé að hann hefði ekki getað bjargað öllu. Gott og vel. Mér sýnist þeir sem talað hafa verið á einu máli um að hann hafi ekki haft nein spil á hendi.

Egill Helgason vitnar í Guðmund Ólafsson sem les það út úr því sem þegar hefur komið fram að svörin hafi í megin atriðum verið tvenns konar. Ég vissi ekki og gat ekki.

Ég er sammála þessu mati Guðmundar og tel að þetta sé stutta útgáfan af sögunni. Þegar stjórnmálamönnum varð ljóst hvernig í pottinn var búið varð ekki við neitt ráðið. Ég veit reyndar að þeir kumpánar eru ekki að meina þetta þannig en stundum ratast kjöftugum satt orð í munn.

Það er verkefni ákæruvaldsins að sýna fram á að ákæran standist. Eins og málin eru að þróast gengur það lítið ef nokkuð. Ég nánast finn til með þeim sem þurfa að reyna að reka þetta mál sem er pólitískt frá rótum.

Það er þó auðvitað ekki þannig að allt hafi verið fullkomið og aldrei hafi verið hægt að gera öðruvísi í ljósi sögunnar. Það er raunveruleiki sem ekki bara stjórnmálamenn búa við heldur gerum við það hvert og eitt i okkar lífi.

Ég er þess fullviss sem fyrr að það mun koma fram að þau mistök sem gerð voru voru heiðarleg mistök fólks sem sat skyndilega uppi með svarta pétur. Sem akkúrat enginn sá fyrr en of seint.

Nema ef vera kynni Arnór Sighvatsson sem situr sem fastast í bankanum eins og fyrr. En við erum ekki að reyna að eltast við embættismenn. Í þessu máli er einfaldlega verið að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.3.2012 - 08:22 - 3 ummæli

Hroki Þórs Saari

Þau draga dilk á eftir sér ummælin sem Þór Saari viðhafði eftir árásina á lögmanninn. Saari er skilgetið afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar. Honum skolaði inn á þing og hefur heldur betur látið til sín taka og er með lausnir á öllum vanda okkar en af einhverjum ástæðum hlusta fáir.

Þór Saari tekur stundum stórt upp í sig og slær í báðar og ég ætla ekki að gagnrýna hann fyrir það. Það sem hann skortir hins vegar er færni í skoðanaskiptum þegar að honum er sótt. Þá verður þessi stíll hans allt að því barnalegur og inntakið í rökræðunni víkur fyrir ólund sem engum dylst.

Saari sparar þeim ekki orðin sem hann segir ekki kunna að lesa þessa grein hans en það myndi vera meginþorri þjóðarinnar ef mér skjátlast ekki þeim mun meira um Íslenska þjóð.

Ég heyrði á tal afbrotafræðings í útvarpi allra landsmanna í morgun. Ég held að Þór Saari ætti að finna tíma í að hlusta á það tal. Þar talar sérfræðingurinn um að tilraunir til þess að finna svona atburðum rökréttar skýringar séu beinlínis hættulegar og geti ýtt undir andfélagslega hegðun af því tagi sem þetta ofbeldisverk er sannarlega.

Við eigum að fordæma þennan atburð án skilyrða og ég verð að segja að ég skil ekki hvernig fólk getur sagt að við þessu hefði kannski mátt búast. Þannig umræðu er erfitt að misskilja og ég held að menn eins og Þór Saari ættu að staldra við og velta því upp innra með sér hvort sú umræðuhefð sem hefur skapast hér og fylgdi í kjölfar hrunsins sé ekki kominn út fyrir alla almenna skynsemi.

Einnig væri gagn að því að hann hjálpaði okkur sem ekki kunnum að lesa greinar sem hann skrifar. Hann þarf að vera okkur innanhandar sem ekki kunnum að lesa hann í stað þess að atyrða.

Hroki þess sem allt veit lekur af stjórnmálamanninum í þessu máli og hann lætur okkur fara í taugar sínar. Mér finnst sá eiginleiki ekki gera mikið fyrir hann.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur