Ofbeldi birtist með ýmsum hætti. Í gær ruddist maður inn á lögfræðistofu og réðist með hnífi að fólki sem þar vinnur. Þótt ótrúlegt megi virðast hef ég rekist á ummæli fólks sem tekst að sjá slíkt óhæfuverk sem rökrétta framvindu einhvers og að vissu leyti skiljanlega
Engar aðstæður og engin forsaga réttlætir svona nokkuð. Engu skiptir hvort kveikjan að þessu var skuld vegna mótorhjóls eða fjölbýlishúss. Allt annað en skilyrðislaus fordæming er fyrir neðan allar hellur og ekki boðleg. Engin málsstaður er svo göfugur eða skiljanlegur að réttlæta megi svona.
Nú um stundir þykja þeir flottir sem yfirbjóða duglega í umræðunni. Fólk er jafnvel hvatt til þess að sniðganga lög og rétt eftir hentugleika. Þeirri hugsun komið inn að telji menn óréttlætið nógu mikið sé í lagi að sniðganga lög og rétt eftir smekk hvers og eins.
Þeir sem stunda lánastarfsemi eru allir og alltaf glæpamenn og þeir sem skulda eru að jafnaði fórnarlömb. Lögmenn eru allir vondir og gráðugir starfsmenn slitastjórna sem gera sér mat úr hörmungum annarra.
Lögreglan beitir ofbeldi þegar hún sinnir lögbundnu hlutverki sínu. Öfgar eru allt í einu fínir og heimavarnarlið og stórar systur taka sér vald dómstóls og böðuls í nafni réttlætis sem er virðist ekki lúta prinsippum heldur miklu frekar óstöðugum tilfinningum.
Það er alvarlegt að vega að grunnstoðum samfélagsins eins og margir hafa gert frá hruninu. Að tala niður virðingu fyrir grundvallarreglum og þeim stofnunum sem halda utan um lög og rétt.
Við þurfum auðvitað ekki að vera sammála eða ánægð með alla hluti en við ættum að vera sammála um að breytingar eiga ekki að snúast um öfga og ofbeldi hvort heldur það er í orði eða verki.
Ég finn alls engan samhljóm með fólki sem reynir að setja þessa fyrirlitlegu árás á samfélagið í samhengi við þann mikla vanda sem alltof margir eru að reyna að koma sér í gegnum eftir hrunið.
Það er hverjum manni einfalt að setja sig í spor þeirra sem ekki sjá bjartan dag vegna skulda og að finna til samkenndar. Það ætti einnig að vera þeim sama sára einfalt að finna til samúðar með fórnarlambi þessarar árásar og að skilja að siðaðir menn geta ekki samþykkt eða litið undan þegar svo er komið að fólk gerir tilraun til að myrða í nafni óréttlætis.
Af því má ekki gefa neinn afslátt og ekki gleyma því að orð eru til alls fyrst og ofbeldið í umræðu dagsins getur svo sannarlega gert mikið ógagn.
Röggi