Mánudagur 5.3.2012 - 14:36 - 2 ummæli

Ofbeldi umræðunnar

Ofbeldi birtist með ýmsum hætti. Í gær ruddist maður inn á lögfræðistofu og réðist með hnífi að fólki sem þar vinnur. Þótt ótrúlegt megi virðast hef ég rekist á ummæli fólks sem tekst að sjá slíkt óhæfuverk sem rökrétta framvindu einhvers og að vissu leyti skiljanlega

Engar aðstæður og engin forsaga réttlætir svona nokkuð. Engu skiptir hvort kveikjan að þessu var skuld vegna mótorhjóls eða fjölbýlishúss. Allt annað en skilyrðislaus fordæming er fyrir neðan allar hellur og ekki boðleg. Engin málsstaður er svo göfugur eða skiljanlegur að réttlæta megi svona.

Nú um stundir þykja þeir flottir sem yfirbjóða duglega í umræðunni. Fólk er jafnvel hvatt til þess að sniðganga lög og rétt eftir hentugleika. Þeirri hugsun komið inn að telji menn óréttlætið nógu mikið sé í lagi að sniðganga lög og rétt eftir smekk hvers og eins.

Þeir sem stunda lánastarfsemi eru allir og alltaf glæpamenn og þeir sem skulda eru að jafnaði fórnarlömb. Lögmenn eru allir vondir og gráðugir starfsmenn slitastjórna sem gera sér mat úr hörmungum annarra.

Lögreglan beitir ofbeldi þegar hún sinnir lögbundnu hlutverki sínu. Öfgar eru allt í einu fínir og heimavarnarlið og stórar systur taka sér vald dómstóls og böðuls í nafni réttlætis sem er virðist ekki lúta prinsippum heldur miklu frekar óstöðugum tilfinningum.

Það er alvarlegt að vega að grunnstoðum samfélagsins eins og margir hafa gert frá hruninu. Að tala niður virðingu fyrir grundvallarreglum og þeim stofnunum sem halda utan um lög og rétt.

Við þurfum auðvitað ekki að vera sammála eða ánægð með alla hluti en við ættum að vera sammála um að breytingar eiga ekki að snúast um öfga og ofbeldi hvort heldur það er í orði eða verki.

Ég finn alls engan samhljóm með fólki sem reynir að setja þessa fyrirlitlegu árás á samfélagið í samhengi við þann mikla vanda sem alltof margir eru að reyna að koma sér í gegnum eftir hrunið.

Það er hverjum manni einfalt að setja sig í spor þeirra sem ekki sjá bjartan dag vegna skulda og að finna til samkenndar. Það ætti einnig að vera þeim sama sára einfalt að finna til samúðar með fórnarlambi þessarar árásar og að skilja að siðaðir menn geta ekki samþykkt eða litið undan þegar svo er komið að fólk gerir tilraun til að myrða í nafni óréttlætis.

Af því má ekki gefa neinn afslátt og ekki gleyma því að orð eru til alls fyrst og ofbeldið í umræðu dagsins getur svo sannarlega gert mikið ógagn.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.3.2012 - 13:21 - 5 ummæli

Landsdómur í felum

Styrmir Gunnarsson hittir naglann rækilega á höfuðið þegar hann talar um afdalaháttinn sem ræður þeirri ákvörðun að sýna hvorki beint frá landsdómi né útvarpa.

Hvað er verið að sýsla við þar sem er varasamt að þjóðin fái að hlusta á? Lítill vafi er að fjölmiðlar margir munu týna út þá bita sem hentar hverju sinni allt eftir smekk og túlka á þann hátt sem fyrirframskoðunum hentar.

Mitt í þeirri ótrúlega skömm sem þetta mál er þeim vesalings stjórnmálamönnum sem greiddu þessum pólitísku réttarhöldum atkvæði sitt bundir af hentistefnuhjarðeðli hefðu verið snefill af manndómi af standa þó fyrir því að réttarhöldin og það sem þar kemur fram sé ekki í einkaeigu fjölmiðla og stjórnmálamanna og háð þeirra túlkun.

Það er fjandakornið ekkert að óttast. Varla getur verið að þarna muni koma fram upplýsingar sem koma öðrum illa en hinum ákærða. Ákærunni hefur verið komið með afgerandi hætti til þjóðarinnar en nú þegar réttað verður og sakborningur tekur til varna um mál sem búið er að tala um lengi og matreiða eftir stórpólitískri matarlyst þá má ekki koma því til þjóðarinnar með beinum hætti.

Þetta er svo sannarlega afdalamennska og reyndar er erfitt að verjast þeirri hugsun að þetta sé annað og meira en bara afdalamennska.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.3.2012 - 15:27 - Rita ummæli

Nú veit ég ekki hvort ég á að vera að skrifa um málefni þar sem orðið feministi er er nefnt. Miklir andans menn og merkilegri en ég hafa farið flatt þegar þeir hafa reynt að hafa „rangar“ skoðanir. Í dag er afar gott veður fyrir öfga.

Auðvitað er til eitthvað af fólki sem kann alls ekki að taka þátt í rökræðum um nokkurn skapaðann hlut og bætir sér það upp með stóryrðum sem smellpassa í fyrirsagnir. Það gerir ekkert gagn til lengdar en kann að virðast sexý í hita leiksins.

Ég er ekkert viss um að ég sé feministi og er þá líklega sjálfkrafa karlrembusvín og á móti jafnrétti.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.3.2012 - 16:05 - 1 ummæli

Andersen og FME

Því er eins farið með mig og marga aðra að ég er ekki alveg með það á hreinu hvað gengur á hjá
Gunnari Andersen og FME. Það er eitthvað ósagt í málinu og Gunnar rær á þær öldur að stjórn FME hafi óhreint mjöl í poka gagnvart sér.

Ég sjálfur skil illa hvaða hagsmuni stjórn stofnunarinnar gæti haft í því að vikja forstjóranum úr starfi aðra en að viðhalda trúverðugleika hennar.

Gunnar hefur reynt að koma málinu í þann farveg að vondir menn sem hann hafi verið að skoða standi á bak við allt saman. Þetta virkar kannski ekki ósennilegt við fyrstu sýn séu menn þannig innstilltir en þetta er þó ekki stutt rökum.

Gunnari hefur tekist að fá stuðning þeirra sem vilja þessa tengingu og svo líka hinna sem sjá pólitík í málinu. Margir taka svo afstöðu með eða á móti forstjóranum fyrrverandi eftir því hvernig hin pólitíska mælistika liggur.

Lögmaður Gunnars ber sig illa eðlilega og fær enda borgað fyrir það. Hann kvartar undan því að sinn maður viti ekki hvers vegna honum er sagt upp störfum og þjóðin dansar með og dundar sér við að næra sitt helsta tómstundargaman sem er að smíða samsæriskenningar.

Auðvitað veit lögmaðurinn um hvað málið snýst enda breytti hann skyndilega um takt og fór að berjast fyrir því að ekki hafi verið löglega að málinu staðið. Þá var ekki verið að rökræða málsatvikin.

Þjóðin heimtar að fá að vita í smáatriðum hvað hér er um að vera. Hversu sanngjarnt er það? Er víst að stjórn FME geti rekið málið í fjölmiðlum eins og forstjórinn hefur gert?

Ég er að hugsa um að hinkra eftir málsmeðferðinni og láta ekki eftir mér að hafa hentuga skoðun á málinu.

Ég vona að allir séu að vinna vinnuna og áskil mér rétt til þess að vera óánægður sé svo ekki. Þangað til allt verður uppi á borðum í málinu er best að anda rólega.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.2.2012 - 15:09 - 2 ummæli

Búsáhaldabyltingin finnur sér óvin

Spaugilegt að fylgjast með því hvernig „eigendur“ búsáhaldabyltingarinnar eru að bregðast við því að lögreglumaðurinn Geir Jón ætlar að segja okkur sögur af því hvernig afstaða og framkoma bæði þeirra sem voru fyrir utan þinghús og innan þegar mest lét var.

Nú er Geir Jón ekki lengur hinn járntrausti og mikilsvirti lögreglumaður sem hann hefur alltaf verið heldur skilgreindur óvinur sem ekki er mark á takandi. Öfugt við suma aðra sem þykjast geta boðið söguriturum upp á hlutlaust mat á öllu sem snýr að þeirri atburðarás sem varð á endanum til þess að flestu sómakæru fólki var ofboðið að fylgjast með fólki lumbra á lögreglumönnum sem höfðu það til saka unnið að gera það sem þeim ber að gera og munu alltaf gera þegar fólk vill beita ofbeldi í baráttu fyrir málsstað sinn.

Af hverju slyldu þeir sem stóðu í farabroddi slagsmálanna telja sig eina þess bæra að segja söguna? Hver gefur fólki einkaréttinn í þeim efnum?

Ég sé ekki betur en að byltingarfullttrúar sumir hafi tekið til við að neita því sem Geir Jón hefur að segja og það áður en hann hefur talað. Hvað óttast fólk að hann hafi fram að færa?

Lögreglumenn eru með ýmsar pólitiskar skoðanir en ég þori að veðja að þeir hafa ekki haft tíma til þess að stilla þær af þessa daga. Fyrir mér er það ruddalegt í meira lagi að neita að taka mark á því sem forystumenn lögreglunnar hafa um þessa daga að segja af því að Geir Jón er ekki í „réttum“ flokki. Hversu langt nennir fólk að ganga í pólitískum rétttrúnaði?

Þessi bylting hefur auðvitað étið börnin sín fyrir nokkru og nú vilja þessi börn ekki að aðrir en rétthugsandi menn fá að tala.

Ekki finnst mér mikil reisn yfir þessu….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.2.2012 - 22:00 - Rita ummæli

Mörður Árnason hæðist að tillögum um að ríkið taki þátt í því að lækka bensínverð. Meginrök Marðar og þeirra sem trúa því að hagvöxtur verði helst til með því að ráðherrra hafi sem mest af launum okkar að segja og sem fyrst eftir að við fáum þau er að ríkið eigi ekki til þá peninga sem það á eftir að ná inn.

Þetta er áunnin hugsanavilla enda skilur Mörður ekki að aukin neysla og auknar ráðstöfunartekjur fyrirtækja og einstaklinga skila ríkinu auknum tekjum og hefur í leiðinni margvísleg önnur jákvæð áhrif.

Mörður gefur sér það að ef ríkið lækki skatta hljóti tekjur ríkissins að hrapa. Þessi heimspeki hefur Mörður fengið í arf frá Indriða H. sem sér ofsjónum yfir hverri krónu sem launafólk fær að ráðstafa.

Þegar VG er ekki að afsaka hlut ríkissins í bensínverðinu með því að skatturinn sé umhverfismál er jaxl eins og Mörður að notast við handónýta speki sem gengur út á það að ríkið verði af tekjum ef skatturinn getur ekki tekið þær af okkur glóðvolgar úr launaumslaginu og fært þær til stjórnmálamanna til ráðstöfunar án þess að þeim sé velt í gegnum hagkerfið af fólki og fyrirtækjum með tilheyrandi auknum skatttekjum til ríkissins.

Nei. Við tökum aurinn strax af ykkur enda vita allir að engir kunna betur með fé að fara en einmitt Mörður og hinir stjórnmálamennirnir……

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.2.2012 - 08:41 - 2 ummæli

…og ráðherrann fagnar.

Það er ekki auðvelt hlutskipti að vera hluti af þeim þingmeirihluta sem samþykkti ólögin hans Árna Páls. Ég reyndar les það í Fréttablaðinu i morgun að ráðherrann fyrrverandi fagnar niðurstöðu hæstaréttar.

Árni Páll er ekki fæddur í gær og reynir að sið atvinnumanna í pólitík að snúa þessum ömurlega ósigri í rennandi sigurgöngu. Hann sér þetta þannig að ólögin hans hafi í raun fært fólki fé frá upphafi og muni gera það enn frekar með þessum úrskurði. Og þessu fagnar Árni Páll.

Hversu langt er hægt að seilast í pólitískri ósvífni? Þegar dómstólar ógilda íþýngjandi löggjöf ráðherra og tryggja lántakendum meiri rétt fagnar ráðherra og reynir að eigna sér heiðurinn.

Einnig sést það á fyrstu viðbrögðum þeirra sem enn hafa þrek til þess að verja allt sem þessi ríkisstjórn gerir með því að benda á stjórnarandstöðuna að ekki eru miklar líkur til þess að þeir sem tóku ákvörðunina finni neinn styrk eða fái hvatningu til að taka á henni ábyrgð.

Engir PR snillingar eða vinveittir fjölmiðlar auk álitsgjafa eða bloggara. Orðhagir ráðherrar og aðstoðarmenn. Engum mun takast með orðhengilshátt og útúrsnúninga að vopni auk áunnins misskilnings að koma þessu klúðri á stjórnarandstöðuna.

En ég spái því að það verði taktíkin og verður áhugavert og afhjúpandi að sjá hverjir munu taka þátt í þeim farsa. Því þó þeim fari hratt fjölgandi fylgismönnum vinstri flokkanna sem vilja lágmarka skaðann og hætta þessu samstarfi eru þeir sem ráða för enn að skilgreina pólitískan árangur á þann hátt að hann náist með því einu að sitja að völdum.

Sá sigur er beiskur og okkur öllum dýrkeyptur.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.2.2012 - 18:10 - Rita ummæli

Ritstjórar DV gefa út skemmtilega yfirlýsingu í dag. Þar eru þeir eins og móðguð maddama vegna þess að Bjarni Ben trúir því ekki að blaðið sé hlutlaust og hikar ekki við að segja frá því. Reyndar trúir því varla nokkur maður…..

DV er aggresívur fjölmiðill sem hikar í engu en þolir mönnum ekki að hafa skoðanir á efnistökum og nálgunum. Blaðið telur „ásakanir“ Bjarna vega að grunnstoðum fjölmiðils. Hvað er átt við þarna?

Þegar rétthugsandi stjórnmálamenn segja það sem þeim dettur í hug um bæði ritstjóra Moggans og blaðið sjálft er það stundum stórfrétt í DV. Þá er hugsun um grunnstoðir fjölmiðils fjarri feðgunum sem skrifa undir þessa yfirlýsingu.

Feðgarnir gerast heimspekilegir og ræða hlutverk sitt sem er að upplýsa og ég ber fyrir því fulla virðingu. En úr orðum þeirra má lesa að Bjarni hafi í engu brugðist við umfjöllun um sín mál og með því reynt að koma sér undan umfjöllum um viðskiptasögu sína.

Hvoru tveggja er alrangt en blaðið hefur bara ekki tekið mark á viðbrögðunum jafnvel þó þau séu studd niðurstöðum athugunar á því máli sem blaðið er í raun að fjalla um. Niðurstöðum sem leiddu í ljós að hlutur Bjarna varðar alls ekki við lög.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.2.2012 - 17:28 - 1 ummæli

Dómur er fallinn

Nú er kannski ekkert að marka mig verandi sá Sjálfstæðismaður sem ég er en eftir dóm hæstaréttar varðandi endurútreikninga gengistryggðu lánanna verður ekki betur séð en að Jóhanna verði að spreða einu af níu lífunum sem hún segir þessa ríkisstjórn hafa til þess að lifa þennan dóm af.

Á meðan fjölmiðlar pólitískir eyða öllu púðri í að elta stjórnarandstöðuna hefur gagnslausasta ríkisstjórn sögunnar gert fátt annað en að tefja fyrir því að við komumst út úr kreppunni. Um það eru í raun allir hagsmunaaðilar sammála.

Öll lögmál þekkt í stjórnmálum hefðu fyrir löngu losað bæði þjóðina og flokkana sem sitja uppi með hvorn annan við þá ánauð sem þessi stjórn er ef ekki væri fyrir ótta þeirra einstaklinga sem sitja á þingi fyrir vinstrið um að missa þingsætið.

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort væri verra hjá ríkisstjórninni aðgerðaleysið eða aðgerðirnar. Í dag eru það klárlega aðgerðirnar og verður áhugavert að sjá menn reyna að þvæla sig út úr þessu og einnig hvernig fjölmiðlar munu fjalla um þetta mál sem er skuldlaus eign ríkisstjórnar sem keyrði málið í gegn á sínum tíma þrátt fyrir skynsamleg varnaðarorð.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.2.2012 - 14:30 - Rita ummæli

eÉg ætla að leyfa mér að hafa skoðun á pistli sem Jón Trausti Reynisson ritstjóri DV skrifar í dag. Þar er ritstjórinn að kvarta undan því að stjórnmálamenn leggist svo lágt að snúast til andsvara og kallar það árásir og tilraunir til þöggunar ef ég skil hann rétt.

Að margra mati eru stjórnmálamenn allt að því réttlausir menn sem eiga að láta þá sem hafa komist í þá aðstöðu að skrifa fjölmiðla í umboði sannleikans um að segja sögur og hafi þeir skoðanir á sögunum er það árás á fjölmiðil.

Þetta sjónarmið er beinlínis hættulegt og lýsir mikilli sjálfhverfu. Hver maður hefur fullan rétt til að verja stöðu sig fyrir opinberum ásökunum án þess að þurfa að þola það að söguberinn telji þá vörn árás.

Hin venjulegu gildi eru nefnilega þau að þeir sem koma fram með ásakanir sanni sitt mál en ekki öfugt en stundum finnst mér fjölmiðlar telja sig undanþegna þessu ákvæði og DV er skólabókar dæmi um slíkt.

Það er skýlaus og skilyrðislaus réttur hvers manns, já líka stjórnmálamanna, að fá að verja æruna og krefja hvern þann sem vegur að henni um sanngirni og tillit til andsvara.

Hver er það sem gefur fjölmiðli eins og DV umboð til þess að virða að vettugi niðurstöður þeirra sem hafa verið valdir til þess að rannsaka mál í okkar samfélagi og halda bara úti eigin dómstóli sem lítur í besta falli afar óljósum lögmálum?

Hver er ábyrgð þeirra sem birta ásakanir á hendur fólki opinberlega? Fylgja slíku bara réttindi en engar skyldur? Þeir sem vilja taka þátt í svona rökræðum þurfa að hafa þrek til þess að hugsa ekki um pólitík heldur grundvallaratriði sem snerta okkur öll. Og gleymum því heldur ekki í öllu þessu að við eigum öll að njóta sömu réttinda. Líka fjölmiðlamenn……

Það er kannski ekki árás að saka menn um lögbrot opinberlega en það er að þó alveg örugglega ekki árás að reyna að svara fyrir þær ávirðingar sem á menn eru bornar.

En ég þekki mikið af fólki sem myndi treysta sér til þess að kalla það árás á æru manna að neita að taka mark á svörum þeirra sem eru bornir sökum og halda áfram eins og engin svör og engar skýringar hafi fengist.
s
Ef heimspeki þeirra sem stýra DV réði þyrftum við enga dómstóla eða lög og rétt. Í þeim heimi ræður bara sá för sem mesta möguleika hefur til að skrifa fjölmiðil. Og þar myndu gilda þau lög að það sem blaðið segir nógu oft er staðreynd.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur