Þá er EM í handbolta á enda. Ég hef alltaf gaman að svona viðburðum þó ég hafi ekki borgað mig inn á handboltaleik áratugum saman. Við körfuboltamenn köllum þetta sport norrænar hrindingar og þykjumst ekki hafa gaman af.
Við fórum með laskað lið til þessarar keppni en bundum samt miklar vonir. Það gerum við alltaf alveg óháð því hvernig ástandið á hópnum er. Það er ekki endilega sanngjarnt segja sumir en af hverju ekki segi ég?
Við eigum fulla rútu af mönnum sem spila handbolta fyrir peninga í þýskum deildum og norrænum. Til þeirra er óhætt að gera kröfur.
Ég hef lengi verið mjög gagnrýninn á aðferðir Guðmundar þjálfara sem árum saman vissi ekkert til hvers varamenn voru hafðir í búningi. Þetta hefur lagast mikið hjá honum þó enn sé talsvert svigrúm til bætingar.
Í þessu móti gerðist það nefnilega að hann neyddist til þess að nota bekkinn og sjá. Leikur liðsins þoldi það vel og rúmlega það. Enda, hvað ætli gerist þó reyndir atvinnumenn sem ekki hefja leikinn komi inn á í 10 mín?
Þjálfari Dana hefur masterað þá aðferð á löngum tíma að nota bekkinn. Honum er slétt sama hvað menn heita eða hvað þeir eru gamlir. Þeir sem eru valdir til fararinnar eru nógu góðir þó vissulega spili sumir alltaf meira en aðrir.
Guðjón Valur er týpískt dæmi um gömlu hugmyndafræðina. Frábær leikmaður sem Guðmundi dytti aldrei að taka út af nema hann grátbæði um það sjálfur. Mót eftir mót stendur Guðjón Valur pliktina með glans en skotnýting hans og einbeiting hrapar þegar á líður. Hvað ætli við hefðum fengið mörgum stigum færra hefði Guðjón Valur fengið eðlilega hvíld?
Við eigum skolli mikið af góðum leikmönnum og meira að segja góðum ungum leikmönnum og þetta er í raun ótrúlegt í ljósi þess að við eigum ekki 20 meistaraflokkslið á Íslandi. Nánasta framtíð ætti að vera björt.
Svo er gaman að sjá að við þurfum ekki að vinna nema tvo leiki til að komast á næsta HM og lílega eina fjóra til að spila á ÓL. Ég ætla mér ekki þá dul að reyna að fatta hvernig það gerist.
En ég hlakka samt til…