Mánudagur 30.1.2012 - 21:49 - Rita ummæli

Þá er EM í handbolta á enda. Ég hef alltaf gaman að svona viðburðum þó ég hafi ekki borgað mig inn á handboltaleik áratugum saman. Við körfuboltamenn köllum þetta sport norrænar hrindingar og þykjumst ekki hafa gaman af.

Við fórum með laskað lið til þessarar keppni en bundum samt miklar vonir. Það gerum við alltaf alveg óháð því hvernig ástandið á hópnum er. Það er ekki endilega sanngjarnt segja sumir en af hverju ekki segi ég?

Við eigum fulla rútu af mönnum sem spila handbolta fyrir peninga í þýskum deildum og norrænum. Til þeirra er óhætt að gera kröfur.

Ég hef lengi verið mjög gagnrýninn á aðferðir Guðmundar þjálfara sem árum saman vissi ekkert til hvers varamenn voru hafðir í búningi. Þetta hefur lagast mikið hjá honum þó enn sé talsvert svigrúm til bætingar.

Í þessu móti gerðist það nefnilega að hann neyddist til þess að nota bekkinn og sjá. Leikur liðsins þoldi það vel og rúmlega það. Enda, hvað ætli gerist þó reyndir atvinnumenn sem ekki hefja leikinn komi inn á í 10 mín?

Þjálfari Dana hefur masterað þá aðferð á löngum tíma að nota bekkinn. Honum er slétt sama hvað menn heita eða hvað þeir eru gamlir. Þeir sem eru valdir til fararinnar eru nógu góðir þó vissulega spili sumir alltaf meira en aðrir.

Guðjón Valur er týpískt dæmi um gömlu hugmyndafræðina. Frábær leikmaður sem Guðmundi dytti aldrei að taka út af nema hann grátbæði um það sjálfur. Mót eftir mót stendur Guðjón Valur pliktina með glans en skotnýting hans og einbeiting hrapar þegar á líður. Hvað ætli við hefðum fengið mörgum stigum færra hefði Guðjón Valur fengið eðlilega hvíld?

Við eigum skolli mikið af góðum leikmönnum og meira að segja góðum ungum leikmönnum og þetta er í raun ótrúlegt í ljósi þess að við eigum ekki 20 meistaraflokkslið á Íslandi. Nánasta framtíð ætti að vera björt.

Svo er gaman að sjá að við þurfum ekki að vinna nema tvo leiki til að komast á næsta HM og lílega eina fjóra til að spila á ÓL. Ég ætla mér ekki þá dul að reyna að fatta hvernig það gerist.

En ég hlakka samt til…

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.1.2012 - 12:20 - 4 ummæli

Umboðsmenn sannleikans og dómstól götunnar

Það eru engin ný sannindi fólgin í því að erfitt er að verja sig þegar dómstóll götunnar réttar yfir mönnum. Sú aðferð gamla þrjótsins Mc Carty að láta menn neita ásökunum þótti í eina tíð ekki boðleg en er í dag orðið meginstefið í rekstri heils fjölmiðils.

DV er blað sem lýtur fáum lögmálum betur en seinum eigin. Þar víkur allt annað undan. Fáist einhver til að skrifa nógu skemmtilega spunasögu um einhvern dugar það ritstjórn blaðsins til þess að hefja herferð gegn viðkomandi.

Bjarni Ben er skólabókardæmi um þetta. DV trúir því að hann sé sekur í hinu umtalaða Vafningsmáli og þá telur ritsjórn blaðsins vera fulla sönnun fyrir sekt hans og tekur til óspilltra málanna.

Og smyr frétt um málið aftur og aftur á síður blaðsins. Og bætir því svo gjarnan við að Bjarni Ben neiti hreinlega að bera af sér sakirnar. Gamli fautinn að vestan hefði vart gert betur í den. En hver er raunverulega staða málsins?

Í dag bregst Bjarni við þessari orrahríð með prýðilegri grein. Ég geri mér glögga grein fyrir því að andstæðingar Bjarna og Sjálfstæðisflokksins lesa þessa grein með lokuð augu og munu svo hafna henni að fullu.

Með þeim orðum að hann svari engu og útskýri ekkert. Hvoru tveggja er í besta falli áunninn misskilningur drifinn áfram af pólitík. Hvernig er hentugt fyrir menn sem hafa stöðu sekra fyrir dómstóli götunnar að afsanna sektina telji þeir á annað borð eðlilegt að þurfa að gera slíkt?

Þeir sem hafa þrek til að lesa greinina sjá auðvitað að Bjarni gerir það sem honum er mögulegt til að neita ásökunum dómstólsins. Hvaða réttlæti er í því að einbeitt neitun á sök dugi ekki gegn einbeittum en ósönnuðum fullyrðingum fjölmiðils um sekt?

En þannig stendur málið nefnilega. Bjarni neitar því sem borið er á hann en þeir sem vilja smyrja neita að taka mark á því og segja það engin svör! Slíkt er svo ótrúlega léttvægt að engu tali tekur.

Almennt er það þannig þó ég skilji að málið er viðkvæmara fyrir stjórnmálamann að þeir sem ákæra skulu bera fram sannanir. Neitun ákærðra stendur sem fullgilt svar og gott nema annað sannist.

Þetta skilja allir sem hafa þurft að sæta rannsókn af hvaða tagi sem hún er. Þetta er regla númer eitt í mannréttindasáttmálum og stjórnmálamenn eru varla algerlega undanþegnir. En það er fleira í þessari sögu…

Nú er það bara þannig að Bjarni Ben hefur verið kallaður til skýrslutöku vegna þessa mál sem VITNI. Þeir sem um málið véla og hafa öll göng og ættu að geta talist hæfir til þess að lesa það hafa sem sagt metið það þannig að Bjarni sé hvorki til rannsóknar sjálfur né verði hann ákærður.

En þannig smámunir duga DV ekki sem heldur sínu striki og heggur á báðar og endurtekur það sem áður hefur verið sagt og lemur svo á Bjarna vegna þess að hann getur ekki afsannað til fullnustu ásakanirnar.

Ég spyr. Hvernig á honum að vera það mögulegt öðruvísi en að gera það með eindreginni neitun opinberlega og svo með því að mæta til skýrslutöku við rannsókn málsins?

Komi í ljós að Bjarni Ben hafi gerst sekur um eitthvað í þessu mun ég ekki reyna að verja hann en ég kýs að treysta öðrum en DV til að dæma í þeirri sök.

Þeir sem segjast kyndilberar sannleikans eina hafa alltaf í gegnum alla söguna verið fólk sem telur sig hafið yfir lög og rétt. Verið fólk sem bara veit og telur það skyldu sína að fylgja sannfæringu sinni alveg óháð öðrum grundvallaratriðum.

Vegferð DV í þessu máli er gott dæmi um slíkt.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.1.2012 - 12:10 - Rita ummæli

Jóhanna skilur ekki stöðu sína

það er varla of mikið í lagt þegar ég segi að samstarf vinstri flokkanna sé að verða flokkunum báðum ofviða. Þeir eru í raun magnþrota og hafa hætt að stjórna landinu og nú snýst tilvera þeirra eingöngu um að halda eigin sjó. Hagsmunir þjóðarinnar eru á meðan aukaatriði.

Hjá VG eru hlutirnir nokkuð skýrir. Seinni klofningurinn er nú öllum ljós og Steingrímur ólíklegur til þess að leiða restina áfram eftir næstu kosningar.

Samfylkingin er rétt að byrja sitt uppgjör og þar á blóðið eftir að renna. Ég held hreinlega að margir Samfylkingarmenn og þar með talin Jóhanna hafi haldið að allt væri með felldu, undir control.

Þessa dagana reyna menn allt hvað af tekur að koma í veg fyrir að átökin komist uppi á yfirborðinu. Maður á aldrei að segja aldrei en mér sýnist svo stór orð og svo stórar ákvarðanir hafa verið teknar að ekki verði komist undan slagsmálum fyrir opnum tjöldum.

Jóhanna gerir sér enga grein fyrir stöðu sinni og reynir að láta umræðuna snúast um hið vonda íhald. Íhaldið hennar Jóhönnu hefur bara ekkert með það að gera að hún er í raun fyrir og kann ekki að vikja fyrir morgundeginum í flokki sem þarf breytingar.

Því fyrr sem Jóhanna sér að héðan af á hún enga vinningsmöguleika því betra. Núna ættu ráðgjafar hennar að hefja undirbúning að brottför á hennar eigin forsendum. Ef ekki er líklegt að fórnarkostnaður flokksins verði talsverður.

Og hvað ætli vinnist með því sem Jóhanna gæti kallað sigur í þeirri augljósu baráttau sem nú er háð innan flokksins? Ég sé engan sigur hvorki fyrir Samfylkingu né þjóðina að Jóhanna haldi áfram að reyna að leiða flokk og þjóð.

Spennandi tímar hjá þessum tiltölulega ungu flokkum sem enn eru greinilega í mótun. Flokkar sem ekki vissu hvað þeir ætluðu að verða þegar þeir yrðu stórir. Flokkar sem ekki voru tilbúinir til þess að vinna saman hvað sem allri vinstri rómantík líður.

Jóhanna getur svo tuggið gamlar tuggur um vont íhald sem einhverjir væntanlega vondir menn séu að leiða til valda hér aftur. Það mun engin leiða neinn til valda hér nema þjóðin sjálf. Það ætti Jóhanna að þekkja.

Og það er heldur ekki íhaldinu hennar Jóhönnu að kenna að ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta á þingi og ekki er með neinu móti hægt að kenna íhaldinu um að Jóhanna virðist ekki lengur njóta nægilegs stuðnings innanflokks.

Hennar tími er kominn og farinn og það eina sem unnið er að leynt og ljóst er að hennar eigin flokksmenn vilja koma henni frá.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.1.2012 - 16:04 - Rita ummæli

Ég er að horfa á liðið okkar spila við Spánverja á EM. Við ramman reip að draga eins og við mátti búast. Spánverjar fara langt með að vinna þetta mót og virast fá leik á móti býsna dösuðu íslensku liði.

Guðmundi er að mörgu leyti vorkun því mjög sterkir leikmenn geta ekki ekki tekið þátt í mótinu og við erum að fá að sjá marga unga og lofandi leikmenn spila miklu meira en við mátti búast. Við gerum miklar kröfur til liðsins og þolum þeim ekki þreytu eða slen.

Guðmundur hefur lært það að hreyfa liðið mun meira en hann gerði og það er vel. Nema þegar kemur að Guðjóni Val. Engu skiptir þó allir hinir leikmennrinir í liðinu væru

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.1.2012 - 23:47 - 10 ummæli

Metnaðarlaust síðdegisútvarp

Síðdegisútvarp rásar 2 fjallaði um vonum um landsdómsmálið í dag. Þetta er mál málanna og allt er upp í loft vegna þess og því ekki óeðlilegt að um málið sé fjallað.

Þetta er afar viðkvæmt mál og örugglega ekki ofmælt að það sé eitt umdeildasta mál sem við höfum staðið frammi fyrir lengi með öllum sínum öngum og ranghölum þar sem pólitík spilar stóra rullu. Þess vegna skiptir matreiðsla þeirra sem tala í útvarpi allra landsmanna miklu.

Í kynningu á efninu var ekki annað að heyra á þáttastjórnendum en að þau hafi leyst lífsgátuna og komið sér upp skoðun á viðfangsefninu og fóru ekki mjög leynt með niðurstöðuna. Nú ætla ég fjölmiðlafólki alls ekki að það megi ekki og kunni ekki að hafa skoðanir en þetta er vandmeðfarið eins og flestir ættu að geta skilið.

Og þá var komið að því að kynna til leiks þá sem stjórnendur þáttarins hefðu valið til að hjálpa okkur að glöggva okkur á þessu annars flókna álitamáli sem klýfur hið minnsta tvo flokka niður í rætur.

Margrét Tryggvadóttir, Eygló Harðardóttir og síðast en ekki síst Magnús Orri Schram. Allt hið mætasta fólk sem er svo sannarlega með kjöt á beinum þegar kemur að því að rökræða pólitík og allt gott um það að segja.

En allt fólk með sömu sýn á stöðuna og allt fólk sem tilheyrði óánægðum minnihlutanum. Og þarna var sem sagt vinalegt spjall eintóna og umræðan öll á eina lund einhvernvegin og allir svo glaðir og sammála.

Hvurslags metnaður er þetta? Hvar er fagmennskan í þessu? Á ég að þora að segja hlutleysið?

MIg langar að trúa því að þetta sé leti. Að stundum hreinlega nenni þáttastjórendur ekki að raða saman fólki sem getur og þarf að skiptast á skoðunum heldur sé miklu þægilegra að fólk sé bara í léttu dúlleríi með þeim sem eru á sömu skoðun.

En ég viðurkenni að ég þarf að beita mig hörðu til að trúa á þannig skýringar ekki bara vegna þess að annar stjórnandinn er glerharður Samfylkingarmaður heldur vegna þess að ég hef nú þrátt fyrir allt þá trú að allir vilji gera vel og vera metnaðarfullir.

En hvað á maður að halda?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.1.2012 - 12:37 - Rita ummæli

Súrrealískt ástand ríkisstjórnar

Þetta er ljóta ástandið. Það er ekkert mjög ónákvæmt að halda því fram að frá upphafi þrautagöngu þessarar ríkisstjórnar hafi allt verið upp í loft í samstarfinu. Fljótlega kom í ljós að þessir flokkar eiga enga samleið.

Hvorki að málefnum né aðferðum. Öll viðurkennd gildi hvað varðar heilindi og samstarf stjórnmálaflokka hafa verið fyrir borð borin frá upphafi. Flokkarnir hafa lamið á hvor öðrum án afláts og tókst ekki einu sinni að nýta sér örfáa hveitibrauðsdaga til gagns.

Jóhanna og Steingrímur hafa með hjálp fjölmiðla og bloggara reynt að eyða öllu tali um fullkomið gagnsleysi. Fyrst með þeim orðum að þeir sem stjórnuðu áður ættu ekki fá að hafa skoðanir framar. Þá gleymdist að Jóhanna og Össur stjórnuðu líka áður. Svo var það vandinn sem var svo stór ekki var nema eðlilegt að ekki tækist að taka góðar ákvarðanir.

Líklega erum við hætt að taka eftir því svo súrrealískt er ástandið en við fáum orðið engar fréttir aðrar úr stjórnaráðinu en þær hvernig gangi að forða ríkisstjórninni frá falli. Alls engar. Það er bókstaflega ekkert annað að gera þar en að reyna af öllum lífs og sálar kröftum að bjarga hræinu.

Svo kemur Jóhanna í Kryddsíldina og skilur ekkert í því að fólk geti ekki verið skemmtilegt. Ég finn til með Jóhönnu á minn hátt. Hún var véluð í djobbið og finnst örugglega sárt að sjá ferilinn enda með þessum ömurlega hætti. En það mun hann gera því Össur hefur slegið hana af.

Ég velti því fyrir mér hvenær Jóhanna sér sér leik á borði og stígur út úr þessum farsa. Áður en henni verður ýtt til hliðar þegar það þjónar hagsmunum flokksins. Þá kæmi hennar tími. Þá gæti hún stjórnað burtreiðinni og sagt það sem þarf að segja.

það virðist hún ekki geta því allt kapp er lagt á að halda áfram samstarfi sem allir vita að er ónýtt. Hvernig dagar eru það fyrir Jóhönnu sem fara eingöngu í það að reyna að halda saman fólki sem getur ekki unnið saman? Fólk sem svívirðir skoðanir hvers annars daglega liggur mér við að segja.

Stjórnmálamenn gera mistök og ekki eru allir dagar góðir. Við erum ýmist hægri menn eða vinstri og sumir þykjast vera hvorugt en eru það ekki. En við getum ekkert þóst láta eins og það ástand sem við lesum um daglega sé eðlilegt og eigi að halda áfram.

Meira að segja sumir vinstri menn eru farnir að sjá að það er enginn sigur í því einu að sitja bara.

Kannski óttast flokkarnir hvorn annan svo þegar sleppir að þeir þora ekki af þeim ástæðum að hætta. Sá ótti er ekki ástæðulaus en sé ekki að stríðið sem nú er reynt að hylja fyrir þjóðinni verði minna hatramt því lengra sem líður á.

Þetta er samstarf er búið og fyrir löngu orðið skaðlegt hagsmunum þjóðar sem þarf starfhæfa ríkisstjórn.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.1.2012 - 23:05 - 6 ummæli

Tvískinnungur Birgittu

Hvernig er það Birgitta Jónsdóttir. Má forseti þings bara skipta sér af málum sem eru fyrir almennum dómstólum en ekki leyfa meirihluta þings að ræða ákæru sem þingið stendur að þegar rökstuddur efi er í hugum meirihlutans um að ákæran sé kannski ekki í lagi?

Hvernig er hægt að taka mark á því þegar Birgitta segist ekki þola það sem hún kallar afskipti forseta þings af málum sem eru fyrir dómstólum þegar þessi sama Birgitta hamaðist á þessum sama forseta þegar 9 menningarnir voru ákærðir eftir rannsókn til þess bærra stofanana fyrir brot á hengingarlögum?

Ég frábið mér athugasemdir um að þessi mál séu ekki sambærileg enda er það Birgitta sem valdi sér þetta prinsipp en ekki ég.

Hvernig skýrir orðabókin tvískinnung?

Rögg

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.1.2012 - 22:22 - Rita ummæli

Tvískinnungur Birgittu

Birgitta Jónsdóttir ætlar að safna undirskirftum til vantrausts á forseta þings. Og það vegna þess að þingmaðurinn telur forseta hafa með því að hleypa tillögu Bjarna Ben á dagskrá þings vaðið inn á verksvið dómstóla.

Áhugavert og skemmtilegt hvað virðingin fyrir þessum prinsippum er valkvæður í tilfelli þessa þingmanns.

Ekki er langt síðan þessi þingmaður lagði afar hart að þessum sama forseta að skipta sér af því þegar 9 menningarnir voru að undangenginni rannsókn til þess bærra stofnana ákærðir.

Þá eins og nú var alþingi ákærandi. Ég frábið mér alla útúrsnúninga um að málin séu ekki sambærileg því það er val Birgittu að telja þessa prinsippástæðu til.

Í tilfelli 9 menninganna var um að ræða ákæru er varðaði brot á hegningarlögum og mig rekur ekki minni til þess að til atkvæðagreiðslu hafi komið í því máli en í hinu tilfellinu voru það þingmenn og aðrir ekki sem voru ákærendur.

Birgittu fannst eðlilegt að forseti skipti sér af 9 menningunum allt fram að dómsorði en telur það afskipti af dómstólum þegar meirihluti alþingis sem ákærir til landsdóms telur ástæðu til að ræða hvort að ákærunni hafi eðlilega verið staðið. Það er fyrir venjulegt fólk allverulega mikilvægur þáttur.

Þetta er auðvitað fullkomlega galin afstaða hjá Birgittu sem þolir ekki nokkra skoðun.

Svo er áhugavert það sjónarmið í sjálfu sér að þingheimur megi hreinlega ekki ræða sum mál. Hvað ætli sé að óttast í því?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.1.2012 - 11:37 - 3 ummæli

Sigur þings og kögunarhóll Þorsteins

Það hefur verið magnað að fylgjast með því hvernig fólk sem telur sig fylgjendur upplýstrar umræðu og réttlætis og umbóta á umræðuhefðinni tjá sig í kringum landsdómsmálið. Langfæstir þeirra sem vilja halda áfram með málið í þeim farvegi sem það er núna hafa ekki gert neina tilraun til að rökræða það sem um er að ræða.

Á sama tíma og fólk masar um virðingu fyrir alþingi vill það í raun halda áfram að nota þessa mikilvægu stofnun sem tæki í pólitískum hanaslag þar sem allt snýst um lumbra á andstæðingum. Öllu er snúið á haus og Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir og Björn Valur Gíslason sem tala statt og stöðugt um virðingu alþingis skilja ekki og hafa ekki þrek til að rökræða það að virðingu alþingis var einmitt bjargað í gær, en ekki öfugt.

Lögfræðin í málinu kemst ekki að fyrir pólitísku hagsmunamálunum og allt í einu man enginn að alþingi er ekki afgreiðslustofnun fyrir lýðskrumara í pólitík heldur löggjafarsamkoma. Margir þeirra sem harðast hafa barist gegn því að ágætlega rökstuddar og framsettar efasemdir um málið séu ræddar af ákærandanum í málinu, alþingi, á þeim forsendum að málið sé komið of langt hefur sjálft hamast í því að fá áratuga gömul mál tekin upp fyrir almennum dómstólum og ekki sparað þar stóryrðin.

Framkvæmdavaldið hefur með augljósum hætti ruglað þingið og baráttaufólkið fyrir auknu lýðræði og þrískiptingu valdsins gleymir öllu slíku þegar afdalastjórnmálin þurfa framgang. Fólkið sem móðgast út í Lilju Mósesdóttur skilur ekkert hvað hún er að segja og telur hana hafa svikið lit vegna þess að hún gleymdi rétttrúnaði sem snýst um að þola ekki hægri menn. Lilja var með afstöðu sinni að verja þingið, lýðræðið og umræðuna algerlega án þess að breyta um afstöðu til ákærunnar. Af hverju vill fólk ekki skilja svo augljósan hlut?

Hvernig það getur verið ósigur að fjalla um efnisatriði þeirra efasemda sem um málið standa er mér hulin ráðgáta. Og það er í raun ótrúlegt að sjá fólk sem hefur gargað á torgum um vandaða umræðu og bætt þing berjast af krafti gegn góðum grundvallarhagsmunum sínum í þessu máli.

Grein Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu um þetta mál er svo vel orðuð og vönduð greining á málinu að ekki verður betur gert. Gaman væri ef fólk utan þings og innan hefði þor og dug til rökræða efnislega um málið og láta ekki pólitíkina binda sig á klafa gamallar umræðuhefðar sem snýst eingöngu um að hafa andstæðinga undir.

Fylgismenn þess að vísa tillögunni frá eru í raun fylgismenn gamla tímans þar sem afdankað framkvæmdavald ræður því hvað er rætt á alþingi og hvað ekki. Ólýðræðislega þenkjandi fólk því miður.

Og mér sýnist margir hávaðasömustu fulltrúar byltingarinnar með búsáhöldunum hafa gengið í lið með gamla tímanum fyrir tóman misskilning og í raun látið draga sig á asnaeyrunum af fólki sem skilur ekkert um hvað málið snýst.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.1.2012 - 23:27 - Rita ummæli

Til hvers er að tala um háttvísi segir einn leikmanna Norska landsliðsins í handbolta eftir að Slóvenar tóku okkur viljandi með sér í milliriðla í kvöld. Það gerðu þeir með því að leyfa okkur að skora þangað til markatalan var þeim sjálfum hagstæð.

Ég veit ekki hvað er verst í þessu, reglurnar sem bjóða upp á svona, liðin sem leika sér að virðingu íþróttarinnar án blygðunar fyrir allra augum eða viðhorf meira að segja þeirra leikmanna og þjálfara sem verða útundan vegna svona hegðunar

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur