Föstudagur 6.1.2012 - 12:11 - Rita ummæli

Eins og yfirleitt áður sýnist hverjum sitt eftir val íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Og þannig á það að vera sér í lagi þegar margir koma til greina eins og er að jafnaði. Mér finnst margir tala um þetta kjör eins og það sé hávísindaleg niðurstaða sérfæðingahóps sem lá saman yfir málinu lengi.

Vissulega eru íþróttafréttamenn einhversskonar sérfræðingar en þetta er leynileg kosning og huglægt mat hvers og eins hlýtur að vega talsvert. Þessu má ekki gleyma.

Annie Mist er frábær íþróttamaður um það eru allir sammála held ég og geðþekk mjög.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.1.2012 - 03:01 - 24 ummæli

Hvenær gengur DV fram af sjálfu sér?

það er auðvitað þannig að sumt kemur manni ekki á óvart. Þriðjudagur kemur á eftir mánudegi og á undan miðvikudegi. Veðurfar er mildara á sumrin en veturna, jólin eru í desember og föstudagurinn langi er allajafna á föstudegi….

..og DV er í neðsta þrepi fjölmiðlunar og kemst ekki almennilega upp úr svaðinu. Ég hef sagt það oft og segi enn og aftur. Gæði fjölmiðla eru ekki mæld af því sem gengur vel heldur því hvernig slæmu dagarnir líta út.

Af einhverjum ástæðum tókst ritstjórn blaðsins að leyfa birtingu „fréttar“ sem er svo stútfull af dylgjum og dellu að fáu er til að jafna meira að segja í sögu DV.

Hér er gefið í skyn og dylgjað til þess eins að koma höggi á persónu sem er reyndar stjórnmálamaður og ekki ofarlega á vinsældalista DV.

Þetta er í engin frétt heldur miklu frekar eitthvað sem fólki finnst gaman að bulla um á kaffistofum í móttækileg eyru viðhlægjenda sér til ánægju og auðkeyptrar aðdáunar um stundarsakir.

Ég veit ekki hvaða kröfu er hægt að gera til ritsjórnar DV. Það hefur ekki farið framhjá mér að eitthvað hefur blaðið reynt að bæta sitt eigið siðferði um leið og bent er á bresti annarra í þeim efnum stundum með ágætum árangri.

En þá kemur svona della þar sem eingöngu er reynt að níða niður persónu stjórnmálamanns af engu tilefni. Í pólitískri baráttu DV er allt leyfilegt og þar kann enginn að skammast sín. DV gerir ekki mistök….

það er eitthvað sjúklegt við þessa „frétt“ DV. Menn geta nefnilega verið sjúkir á ýmsan hátt og sumar pestir leggja menn í rúmið óvinnufæra á meðan aðrar örva suma til verka.

En þó DV eigi að vera hætt að koma mér á óvart er lengi hægt að herða sprettinn niður í svaðið. Jafnvel þeir sem vilja grjótharða fjölmiðlun og aðhald án afsláttar hljóta að geta sett sjálfa sig inn í svona „frétt“ og fundið að þetta er ekki í lagi.

Sumir þeir sem skrifa hvað mest og tala hæst í DV um orðræðuna og umræðuhefðir og hvert við stefnum sitja og horfa á svona vinnubrögð í þögulli vellíðan.

Ég legg til að þeir sem predika um orðræðuna og aðferðafræði þeirra sem stunda stjórnmál ættu ekki að setja þær eldmessur sínar á síður DV.

Það bara passar ekki.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.1.2012 - 08:30 - 21 ummæli

Kynþáttaníð eða ekki kynþáttaníð Suarez

Sitt sýnist hverjum þegar rætt er um leikbannið sem Suarez leikmaður Liverpool var dæmdur til vegna kynþáttaníðs. Ég hef ekki lagt á mig að lesa 115 bls rökstuðning dómsins en hef samt komið mér upp skoðun í málinu.

Ég skil vel tilfinningar sem settar hafa verið í umræðuna en sé ekki betur en að þær aflagi rökræðuna nokkuð. Þetta mál snýst ekkert um það hvort menn halda með Liverpool eða ekki og ekki endilega um það hvort Suarez er drengur góður dags daglega, þannig séð.

Mér skilst að hans fyrri afrek hinu megin við það sem telst vera heiðarlegt í íþróttum hafi hreint ekki talist honum til tekna þegar vitnisburður hafi verið metinn. Slíkt skiptir áreiðanlega máli þegar beinar sannanir eru af skornum skammti.

Það er örugglega þannig að þeir sem kváðu upp dóminn hafa engra hagsmuna að gæta annarra en að kveða upp sanngjarnan úrskurð. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar um svona mál er hugsað.

Sumir hafa bent á að þar sem mál John Terry fyrirliða enska landsliðsins sé væntanlegt til meðferðar hafi það ef eitthvað er átt að draga úr refsigleði dómaranna þar sem sannanir í því máli virðast skotheldar og stutt í stórmót.

Svona mál eru flókin og erfið og mér hefur fundist örla á þeirri skoðun að kannski sé baráttan gegn rasisma komin út í öfgar þegar menn fá langt keppnisbann þegar orð stendur gegn orði. En stendur orð gegn orði hér?

Hvort vegur þyngra meining þess sem talar eða skilningur þess sem heyrir? Þetta er ein spurningin í umræðunni. Sjálfsagt er hægt að rökræða það lengi og gáfulega. En til þess að svara þeirri spurningu vel þarf að hafa eitt og annað í huga.

Fyrst þegar ég heyrði um 8 leikja bannið taldi ég víst að um játningu hefði verið að ræða svo harður þótti mér dómurinn. Og er ekki bara um játningu að ræða? Snýst vörnin í málinu um að orðin sem notuð voru eru rasismi á einum stað en ekki öðrum?

Ef svo er þá eru það harla léttvæg rök fyrir mann sem hefur haft lifibrauð sitt af því að spila fótbolta í Evrópu þar sem baráttan gegn kynþáttaníð hefur verið mikil og einbeitt og flestum skiljanleg.

Þetta mál á að snúast um það hvort leikmenn komist upp með kynþáttaníð en ekki lengd bannsins. Mér fundust viðbrögð „stuðningsmanna“ Suarez vera reiði vegna fjölda leikja og svo til vara efasemdir um að hann hafi gert eitthvað af sér. Í þessari röð.

Yfirlýsingar vinnuveitenda hans um ágæti drengsins eru án efa gegnheilar og ekki nokkur ástæða til þess að draga í efa að hann hafi og sé í góðum samskiptum við menn af öðrum litarhætti en hans alla daga án vandræða.

Verkefni enska knattspyrnusambandsins var ekki að gefa Suarez lyndiseinkun hvorki til fortíðar nútíðar eða framtíðar. Verkefnið var að komast til botns í því hvort hann beitti kynþáttaníð þennan eina dag.

Getur ekki verið að dómstóllinn hafi einfaldlega hafnað þeirri útskýringu að þennan tiltekna dag hafi ákærði gleymt því hvernig kynþáttaníð er skilgreint og notað samskipti sem hann allajafna notar ekki hvorki inni á velli eða utan hans einfaldlega vegna þess að hann á að vita að beiting slíkra orða er meiðandi?

Má ekki skilja yfirlýsingar Liverpool þannig að félagið vilji nýta þessa stöðu til þess að styrkja ímynd sína frekar en að reyna að verja Suarez í þröngri stöðu sem byggir á því að leikmaðurinn fatti ekki hvað kynþáttaníð er?

Að áfrýja ekki er rétt niðurstaða en ég er ekki endilega tilbúinn að trúa því að félagið sjálft kaupi útskýringar leikmannsins. Til þess þarf maður að hafa litla trú á burðum Suarez.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.12.2011 - 12:26 - 3 ummæli

Eyjan og átök ríkisstjórnarflokka

Ríkisstjórn riðar til falls og það dylst engum. Allt og þá meina ég allt er upp í loft innan beggja flokka. Fjölmiðlar hafa eðlilega áhuga á slíku efni. Eyjan er þar ekki undanskilin. En þar er áhuginn nánast bara á það hvað gerist hjá öðrum flokknum en ekki hinum. Hvernig má það vera?

Ég hef aldrei áður upplifað aðra eins löngum fólks til þess að sitja í embættum eins og þá löngun sem Jóhanna/Össur og Steingrímur eru að sýna.

Steingrímur hefur fyrir nokkru gert það upp við sig að VG skipti hann engu máli lengur heldur eingöngu hvað hentar honum til skamms tíma.

Öðruvísi er það hjá aðalritara Össur því honum er ekki sama um flokkinn sinn. Hann ræður þar öllu og hefur talað út um að flokkurinn þurfi nýja forystu og helst hugmyndir sem er frumleg tillaga eftir nokkurra ára tilveru.

Að sönnu er það ekki nýtt að ráðherraskiptum fylgir átök en núna gerist það að pirringur bæði innbyrðis og gagnvart samstarfsflokki leysist úr læðingi. Sem er afleitt sé því sullað saman við stríðsástand innandyra sem ýmist tengist foringjaræði Steingríms eða forystuátökum Samfylkingarmegin.

Ég get auðvitað ekki orðað þetta mikið betur en Kristrún Heimisdóttir gerir. VG og Samfylking eiga hvort annað skilið en er ekki að verða tímabært að leysa þjóðina undan þessum botnlausa skrípaleik?

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.12.2011 - 12:30 - 1 ummæli

Ríkisstjórnarfarsinn

Hugtakið stjórnarkreppa fær nýja og allt að því óraunverulega merkingu þegar við fylgjumst með ráðþrota leiðtogum ríkisstjórnarinnar reyna eftir fremsta megni að halda lífi í ríkisstjórn sem enginn vill.

Stundum er sagt að styrkur manna felist í því að geta viðurkennt ósigur eða þekkt vitjunartímann. Vel getur verið að takist að splæsa saman nýrri ríkisstjórn á næstu klukkutímum en ég sé ekki betur en að Steingrími og Jóhönnu sé í raun alveg sama hvað það kostar.

Bakland beggja flokka skíðlogar og þeir logar eiga eingöngu eftir að magnast. Steingrímur hefur brennt síðustu brúna innan VG þegar hann fórnar Jóni Bjarnasyni á altari eigin framagirni. Ætli hann sér áframhaldandi formennsku eftir þetta verður hann að sætta sig við mikið mannfall. Seinni klofningur flokksins er nú með öllu óumflýjanlegur.

Gömlu kempurnar Össur og Jóhanna sem allir eru búnir að gleyma að sátu í síðustu ríkisstjórn neita að sleppa hendinni af flokknum. Frekar en að hleypa öðrum að skal ríghaldið og öllu til fórnað að halda í völdin bæði innanflokks og utan.

Ég heyrði fréttaman reyna að lesa í stöðuna í útvarpi áðan og kalt vatn rann milli skins og hörunds. Nú er með allskonar brellum reynt að sannfæra klíkur og gengi um að sniðugt sé að hinn og þessi fái hitt og þetta. Verkefni verði færð út og suður eftir smekk hvers og eins til að reyna að hafa alla góða.

Ekkert er verið að ræða um hugmyndafræði heldur eingöngu bitlinga og ráðherrabílstjóra. Reyndar minntist fréttamaðurinn á að einhver ráðherra VG fengi „úthlutun kvóta“á sitt borð. Mikið verður nú Ísland gott land þegar ráðherrar verða farnir að úthluta vinnu og verkefnum eftir smekk.

Ef að líkum lætur munu Steingrímur og Jóhanna birtast vígreif og bjartsýn eftir þennan farsa og reyna að telja þjóð sinni trú um að allt sé með felldu. Ég er reyndar hrifinn af því þegar menn festast ekki í ráðherrastólum sama hvað gengur á en hér sjá þeir sem vilja að hreyfingarnar núna eru eingöngu til þess að reyna að bjarga deginum en ekki styrkja innviði

Og langtíma tilkostnaður er látinn liggja á milli hluta hvort heldur átt er við þjóðina í heild eða flokkana sjálfa. Steingrímur hefur komið sér upp vonlausri stöðu innanflokks og hlýtur að vera búinn að afskrifa frekari þátttöku í stjórnmálum eftir kosningar.

Og Samfylkingin á eftir allt þetta eftir að fara í gegnum alblóðugu forystukreppu. Dettur einhverjum í hug að Árni Páll leggi niður skottið núna? Össur hefur opnað fyrir átök innan flokks þar sem gamla klíkan ætlar sér að ráða hvað sem hver segir.

Þeir tveir flokkar sem skipa ríkisstjórnina hafa í raun yfirgefið öll prinsipp sem lagt var upp með önnur en að vera ríkisstjórnarflokkar. Hreyfingin stóðst prófið þegar Saari sagði nei. Þar fengu þau sallafínt heilbrigðisvottorð og geta enn haldið því fram að þau hafi töfralausnina sem þau hafa þó alls ekki.

Allt er þetta í boði þeirra sem kusu yfir sig fyrstu og vonandi síðustu vinstri stjórn sögunnar. Þeir sem kjósa þannig aftur þurfa að koma sér upp afkastamikilli gleymsku og afneitun. Ekki einu sinni tal um vondar fyrri ríkisstjórnir dugar í þeim efnum.

Vegna þess að ekki er eingönu um að ræða persónuleg átök um stóla að þessu sinni. Hugmyndafræðin er ekki heldur að ganga upp hvorki á milli flokkanna né gagnvart þjóðinni.

Slíkir smámunir stöðva þó ekki Steingrím og Jóhönnu….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.12.2011 - 15:47 - 3 ummæli

Fjölmiðlar og þrýstihópar

Þórður Snær Júlíusson skrifar fína grein um þrýstihópa og vísar meðal annars til hóps lögmanna ýmissa þeirra sem eru til rannsóknar eftir bankahrunið. Þórður er blaðamaður á fréttablaðinu og reynir að snúast til einhversskonar varna fyrir fjölmiðlabransann.

það er ekki vandalaust að gera fjölmiðla í dag svo öllum líki og þegar lögmenn vilja fá umfjöllun fjölmiðla til refsilækkunar til handa skjólstæðingum sínum eins og nýlegt dæmi er um vandast nú málið verulega.

Þórður hefur auðvitað rétt fyrir sér þegar hann kemst að þeirri niðurstöðu að hlutverk fjölmiðla sé að segja fréttir. En hann virðist ganga út frá því að fréttirnar segi sig sjálfar. Þegar fjölmiðill skrifi frétt komi ekkert fréttamat þar að. Þegar fréttin er komin út er hún sannleikur og ekkert annað.

Fjölmiðlar eru og eiga að vera gagnrýnir en verða líka að þola það að þeir sem lesa þá geri það með gagnrýnum augum líka. Ég treysti mér til þess að halda því fram að fréttaflutningur sumra fjölmiðla í heilan áratug fyrir hrun standist illa skoðun og kannski eru þeir til sem myndu vilja kalla þá fjölmiðlun þrýstihópsfjölmiðlun.

Þá var líka verið að segja fréttir, upplýsa. Og þá var sagt við þá sem gagnrýndu að þeir væri fulltrúar annað hvort ákveðinna skoðana eða bundnir í pólitíska klafa. Ég er ekki frá því að Þórður falli dálítið í þann fúla pytt hér.

En ég er sammála honum í mörgu og finnst mikilvægt að fólk reyni að átta sig á því hvaðan og hvernig gagnrýni á umfjöllun fjölmiðla kemur. Hagsmunir skipta máli og ég læt mér ekki detta í hug að þeir eiginlega hálfguðir sem Þórður kallar lögmennina reyni að halda því fram að þeir séu að fullu hlutlausir.

En fjölmiðlamenn þurfa líka að varast að afgreiða gagnrýni eins og mér finnst Þórður kannski daðra við. Því þó mikilvægt sé að gera sér grein fyrir hagsmunatengslum þeirra sem taka þátt í umræðunni er einnig mjög mikilvægt að hafa þrek til þess að taka ekki sjálfgefna afstöðu gegn því sem til umfjöllunar er á þeim forsendum einum.

Einkum vegna þess að ef Þórður hefur rétt fyrir sér hafa fréttamenn ekki fyrirfram skoðanir. Þeir bara segja fréttir, upplýsa.

Enda eru fjölmiðlar ekki þrýstihópar….

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.12.2011 - 15:24 - Rita ummæli

Kamelljónið Össur Skarphéðinsson hefur talað og talað þannig að vandséð er hvernig Samfylking ætlar að mæta til kosninga með sömu áhöfn og síðast og þar áður. Undir yfirborði sem Samfylking vill selja okkur að sé slétt og fagurt og allir á sömu árinni virðist undirbúningur fyrir kosningar hafinn.

Össur hafnar Árna Páli án afdráttar og vill hlaupa yfir tvær kynslóðir í leit að foringja. Skemmtilegur skollaleikur pólitíkin því einmitt þegar Árni Páll virðist sækja nokkuð í sig veðrið þá stekkur sá sem öllu ræður til og tekur af öll tvímæli um að hann vilji annan.

Árni Páll sýnist þó hafa það sem aðrir flokksmenn hafa ekki ef frá er talinn Dagur B sem er víst varaformaður að hann hefur sterka löngun til að verða formaður flokksins. Það hafði núverandi formaður alls ekki og reynist slíkt ekki vel svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Össur ætlar samt að endurtaka leikinn og munstra einhvern úr rétta liðinu til starfans.

Og Össur vill líka koma sér upp nýjum hugmyndum. Vissulega er snjallt að ástunda gagnrýna hugsun og einnig að hafa þrek til að skipta um skoðanir í pólitík séu til þess sannfærandi og góð rök.

En ég veit ekki hvaða hugmyndir aðrar en að ganga í ESB og að vera í ríkisstjórn no matter what Samfylkingin er með.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.12.2011 - 12:59 - 11 ummæli

Þegar Davíð talar

Davíð Oddsson hefur ennþá ótrúleg áhrif. Í hvert sinn sem hann fæst í viðtöl kallar hann fram gömul krampaeinkenni hjá fólki sem aldrei þoldi manninn. Vinstri hliðin á pólitíkinni finnur gömlu minnimáttarkenndina hríslast um sig og hefur ekkert til rökræðunnar fram að færa.

Annað en að Davíð sé hitt og þetta og heimsendirinn sé honum að kenna. Ég get auðvitað ekki haldið því fram að Davíð sé fullkominn eða gallalaus og hafi alltaf sagt og gert allt eins og ég sjálfur hefði viljað.

En finnst magnað hvernig þessi einu sinni yfirburðamaður getur enn fengið suma til að missa allan kúrs og fara í gamalt margtuggið og ónýtt far með því einu að benda á staðreyndir sem við öllum blasa.

Verst er þó líklega að í hvert skipti sem Davíð talar þjappar hann fólkinu sem trúði á vinstra vorið saman til stuðnings við ríkisstjórn sem enginn hefur raunverulega trú á hvort heldur sem menn sitja í henni eður ei.

Röggi

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.12.2011 - 15:38 - Rita ummæli

Aðdáendur Liverpool eru sumir önugir mjög vegna leikbanns Suarez en hann var dæmdur í 8 leikja bann vegna kynþáttaníðs.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.12.2011 - 15:33 - Rita ummæli

Aðdáendur Liverpool geta vart á h

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Rögnvaldur Hreiðarsson
Nánar um höfundinn......Hann er faðir og afi. hann er rakari og hann elskar golf og dæmir körfubolta ef hann er ekki úti að hjóla. Maðurinn hefur skoðanir á flestu og hefur á stundum þörf til þess að koma þeim á framfæri. Hann er kristinnar trúar, hvítasunnumaður, og lætur það skipta miklu máli..

Og hann er allskonar auðvitað....
RSS straumur: RSS straumur