Sitt sýnist hverjum þegar rætt er um leikbannið sem Suarez leikmaður Liverpool var dæmdur til vegna kynþáttaníðs. Ég hef ekki lagt á mig að lesa 115 bls rökstuðning dómsins en hef samt komið mér upp skoðun í málinu.
Ég skil vel tilfinningar sem settar hafa verið í umræðuna en sé ekki betur en að þær aflagi rökræðuna nokkuð. Þetta mál snýst ekkert um það hvort menn halda með Liverpool eða ekki og ekki endilega um það hvort Suarez er drengur góður dags daglega, þannig séð.
Mér skilst að hans fyrri afrek hinu megin við það sem telst vera heiðarlegt í íþróttum hafi hreint ekki talist honum til tekna þegar vitnisburður hafi verið metinn. Slíkt skiptir áreiðanlega máli þegar beinar sannanir eru af skornum skammti.
Það er örugglega þannig að þeir sem kváðu upp dóminn hafa engra hagsmuna að gæta annarra en að kveða upp sanngjarnan úrskurð. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar um svona mál er hugsað.
Sumir hafa bent á að þar sem mál John Terry fyrirliða enska landsliðsins sé væntanlegt til meðferðar hafi það ef eitthvað er átt að draga úr refsigleði dómaranna þar sem sannanir í því máli virðast skotheldar og stutt í stórmót.
Svona mál eru flókin og erfið og mér hefur fundist örla á þeirri skoðun að kannski sé baráttan gegn rasisma komin út í öfgar þegar menn fá langt keppnisbann þegar orð stendur gegn orði. En stendur orð gegn orði hér?
Hvort vegur þyngra meining þess sem talar eða skilningur þess sem heyrir? Þetta er ein spurningin í umræðunni. Sjálfsagt er hægt að rökræða það lengi og gáfulega. En til þess að svara þeirri spurningu vel þarf að hafa eitt og annað í huga.
Fyrst þegar ég heyrði um 8 leikja bannið taldi ég víst að um játningu hefði verið að ræða svo harður þótti mér dómurinn. Og er ekki bara um játningu að ræða? Snýst vörnin í málinu um að orðin sem notuð voru eru rasismi á einum stað en ekki öðrum?
Ef svo er þá eru það harla léttvæg rök fyrir mann sem hefur haft lifibrauð sitt af því að spila fótbolta í Evrópu þar sem baráttan gegn kynþáttaníð hefur verið mikil og einbeitt og flestum skiljanleg.
Þetta mál á að snúast um það hvort leikmenn komist upp með kynþáttaníð en ekki lengd bannsins. Mér fundust viðbrögð „stuðningsmanna“ Suarez vera reiði vegna fjölda leikja og svo til vara efasemdir um að hann hafi gert eitthvað af sér. Í þessari röð.
Yfirlýsingar vinnuveitenda hans um ágæti drengsins eru án efa gegnheilar og ekki nokkur ástæða til þess að draga í efa að hann hafi og sé í góðum samskiptum við menn af öðrum litarhætti en hans alla daga án vandræða.
Verkefni enska knattspyrnusambandsins var ekki að gefa Suarez lyndiseinkun hvorki til fortíðar nútíðar eða framtíðar. Verkefnið var að komast til botns í því hvort hann beitti kynþáttaníð þennan eina dag.
Getur ekki verið að dómstóllinn hafi einfaldlega hafnað þeirri útskýringu að þennan tiltekna dag hafi ákærði gleymt því hvernig kynþáttaníð er skilgreint og notað samskipti sem hann allajafna notar ekki hvorki inni á velli eða utan hans einfaldlega vegna þess að hann á að vita að beiting slíkra orða er meiðandi?
Má ekki skilja yfirlýsingar Liverpool þannig að félagið vilji nýta þessa stöðu til þess að styrkja ímynd sína frekar en að reyna að verja Suarez í þröngri stöðu sem byggir á því að leikmaðurinn fatti ekki hvað kynþáttaníð er?
Að áfrýja ekki er rétt niðurstaða en ég er ekki endilega tilbúinn að trúa því að félagið sjálft kaupi útskýringar leikmannsins. Til þess þarf maður að hafa litla trú á burðum Suarez.
Röggi